Fínasta mynd fyrir testósteróntröllin

Það er ansi magnað hvernig indverska undrinu Tarsem Singh tekst að búa til útlitslega einstakar myndir úr efni sem er oftast þunnt, óskipulagt og gjarnan soðið saman úr einhverju öðru. Ég lít alltaf á The Cell sem þroskaheftan afrakstur þess ef The Silence of the Lambs og The Matrix hefðu eignast barn án þess að erfa gáfurnar, heldur í staðinn heilmikla, skuggalega listahæfileika. The Fall frá 2006 var síðan grimmur arthouse-blendingur af Galdrakallinum í Oz og The Princess Bride. Hún er ábyggilega ein fallegasta mynd sem ég hef nokkurn tímann séð sem mér var skítsama um. Þegar maður horfir á Immortals fær maður á tilfinninguna að einhver framleiðandi hafi sagt við leikstjórann: „Gefðu mér myndina sem nýja Clash of the Titans hefði átt að vera, og reyndu að hafa hana eins líka 300 og þú getur. Þá ættum við að græða.“

Tarsem hefur kannski átt það til að kópera aðrar myndir efnislega en útlitslega heimtar hann yfirleitt að enginn annar komi nálægt striganum sínum fyrr en hann er búinn að misþyrma honum með súrrealískri sköpunargleði sinni. En burtséð blætinu sem fylgdi 300 (þetta eru nú sömu framleiðendur), t.d. slow-mo skotum, olíubornu magavöðvunum, ýkta ofbeldinu, blóðinu, litanotkuninni þá fær Tarsem alveg rými til að leika sér og gera eitthvað sem er algjörlega hans eigið, þótt það rými sé ekkert ofsalega mikið. Þessi leikstjóri er í meistaraflokki hvað varðar að stilla upp römmum, hreyfa kameruna og troða inn alls konar útlitshugmyndum sem hann einn tileinkar sér. Það finnst hvergi sena sem hefur ekki útpælda ramma við hvert horn. Bara ef maðurinn væri svona smámunasamur á handritin sín og sögurnar sem hann notar, þá væri auðveldlega hægt að fjarlægja fyrra orðið úr lýsingunni „sjónrænn snillingur.“

Uppstillingin á myndarömmunum í Immortals er oft á tíðum stórkostleg og daginn sem Tarsem feilar á því að láta fáeinar ímyndir lifa í minninu eftir áhorfið, þá er hann búinn að missa hæfileika sína. Uppstillingin á sögunni er aftur á móti ansi gömul og það sést úr góðri fjarlægð að ekki hefur verið lögð mikil vinna í hana. Grunnurinn er álíka gamall og gríska goðafræðin sjálf og strúktúrinn ekkert síður. Við erum með óttalausu Herkúlesarhetjuna með óaðfinnanlega bardagahæfileika og hjarta úr gulli í kaupbæti. Í kringum hana vefst þessi klassíska (eða klisjukennda?) hefndarsaga með meðfylgjandi karakterum, frá illmenninu til óvæntu ástkonunnar og aðstoðarmannsins, sem koma allir beint af lagernum.

Það er samt varla hægt að kalla þetta persónur því þetta eru í raun bara tvívíðar fígúrur sem skjótast á þá staði sem sagan vill að þær fari á. Sumar hverfa meira að segja alveg í bakgrunninn þegar lengra líður á söguna. Þetta er ókostur við myndina sem ég tæki meira inn á mig ef aðalpersónan væri ekki svona hetjulega hörð og skemmtileg. Mér sýnist nefnilega Immortals gera sér nokkurn veginn grein fyrir því að hún er ekki að brjóta blað í kvikmyndasögunni hvað frásögn varðar, heldur í staðinn tekur hún það sem hún hefur og nýtir sér það á þann veg að allir sem sækjast eftir stílískum hasar og grjóthörðum töffaraskap fá meira eða minna það sem þeir borguðu fyrir.

Fyrir utan glæsilegt lúkk tekst myndinni að koma manni í fíling með skemmtilegu ofbeldi (sem hræðist það ekki að sýna blóðslettur og aflimanir), nokkrum ágætum frammistöðum (sem koma sér beint að efninu og þykjast ekkert eiga heima í betra efni), og tónlist sem gerir myndina miklu epískari en hún er. Ég veit hins vegar ekki hvort þetta sé meðvituð ákvörðun hjá leikstjóranum eða bara merki um slappt framleiðslugildi en oft á tíðum leið mér aldrei eins og ég væri að horfa á annað en afmarkaðar sviðsmyndir. Tarsem notar oftast óvenjulega fáa leikara í hverri senu og í þeim tilfellum þar sem reynt er að selja stóra fjölda, þá er það einungis gert í stórum víðskotum með mikilli hjálp frá tölvum. Stóri bardaginn í lokin reynir að svindla svolítið á fjöldanum með því að láta þúsundir karaktera hlaupa í skömmtum í gegnum undirgöng þar sem aðeins nokkur hundruð komast í einu. Ég fann aldrei fyrir epíkinni sem hefði átt að vera, aðallega vegna þess að mér fannst myndin alveg eins getað virkað á leikhússviði. 300 var aðallega tekin upp fyrir framan græn og blá tjöld en samt tókst henni að selja stærðina með látum.

Henry Cavill er samt kominn með blessun mína fyrir Superman-hlutverkið. Hann er stæltur, harður og með mikla útgeislun, sem er ansi mikið sagt miðað við hversu stirt handrit hann fær hérna. Prófíllinn sem hann fær er alls ekkert ósvipaður þeim sem Sam Worthington fékk í Titans, nema Immortals blóðmjólkar bardagahæfileikann eins og hún getur til að okkur sé skítsama um persónusköpunina. Mickey Rourke er síðan mikilvægastur af öllum leikhópnum, og stelur hann ekki aðeins senunni heldur stingur af með alla myndina. Hann býr til þrælskemmtilegt illmenni með gömlu góðu töktunum sínum og er ekki lengi að fá mann til þess að hata sig.

Aðrir leikarar nýtast misvel. Stephen Dorff hefði alveg eins getað veifað höndunum upp í loft til að myndin sýndi sér einhverja almennilega athygli og báðar sjóðheitu skvísurnar, Isabel Lucas (Mmmm) og Freida Pinto (Grrr…), fá minna að gera heldur en þær eiga skilið. Þeir sem eru karlkyns og leika guði fá aðeins betri díla, en þá aðallega þeir Kellan Lutz (Poseidon), Daniel Sharman (stríðsguðinn Ares)  og Luke Evans (sem er ekki nálægt því að vera jafnsvalur Zeus og Liam Neeson). Evans er enn frekar nýtt andlit og reyndar ágætlega viðkunnanlegur leikari. Ég kemst samt ekki ennþá yfir það hvað hann og James McAvoy eru líkir.

Ef Tarsem hefur sett sér það markmið að gera Clash of the 300 sem lítur út eins og málverk í endurreisnarstílnum þá náði hann því umhugsunarlaust. Sem bíómynd er hún dæmigerð og grunn en sem einföld afþreying handa testósteróntröllum ætti hún að vekja oftar jákvæð viðbrögð heldur en neikvæð.


(6/10)

Hvernig fannst þér Immortals?