Singleton vill Abduction framhald

John Singleton, leikstjóri táningahasarsins Abduction er greinilega handviss um velgengni myndarinnar. Hann tilkynnti í viðtali á rauða teppinu að framhald yrði pottþétt gert, og hann ætlaði sér að leikstýra því.

Leikstjórinn segir ekki mikið um hvers eðlis framhaldið yrði, en Abduction fjallar um unglingspilt sem finnur gamla mynd af sér á vefsíðu tileinkuðum börnum sem er saknað, og kemst að því að tilvera hans eins og hann þekkir hana er lygi. Singleton, sem sló í gegn aðeins 24 ára gamall með myndinni Boyz N the Hood, hafði ekki gert mynd í 6 ár, en segist hafa viljað nýta tækifærið að vinna með Lautner og hjálpa til við að móta nýja stjörnu. Það, og að dætur hans hefðu aldrei leyft honum að sleppa því. „Ég vildi sýna að það er ákveðinn eiginileiki sem hann hefur. Það er ekki bara hvernig hann lítur út, það snýst um að geta tjáð tilfinningar persónunnar, verið fyndinn en borið sig vel í hasaratriðinum. Það er það sem gerir hann að stjörnu“.

Singleton er greinilega vissari en aðrir um velgengni myndarinnar, en nokkuð er um að spekingar efist um burði Taylor „Jacob úr Twilight“ Lautner til að bera uppi hasarmynd, og benda á að oft er dýrkun á kvikmyndapersónu ekki það sama og aðdáun á leikaranum sem túlkar hana. En við munum komast að því bráðum hvort stjörnukraftur Lautners er nógu sterkur til að bera mynd sem hefur ekki Twilight í titilinum, myndin kemur út 23. september í Bandaríkjunum, og 30. september á klakanum.