Charlie Sheen: Ég hefði rekið mig

Svo virðist sem fyrrum Two and a Half Men stjarnan Charlie Sheen hafi róast aðeins síðan fjölmiðlafárið í kring um hann náði sem mestum hæðum fyrr á árinu, og vera farinn að ganga hringinn í fjölmiðlum til að biðjast afsökunar. Nú í gærkvöldi lét hann sjá sig í sófanum hjá Jay Leno, og er sagður hafa virst ódrukkinn og nokkuð heill á vitsmunum. Hann tjáði sig hreinskilnislega um fíaskóið og sagðist myndu hafa rekið sig líka ef hann hefði verið framleiðandi Two and a Half Men þáttanna. „En samt ekki á þann hátt sem þeir gerðu það“ bætti hann við, og það er ekki skrýtið, því hann hefur lögsótt framleiðendurnar fyrir ólögmæta uppsögn.

Charlie virtist sjá nokkuð eftir sumu sem átti sér stað, og talaði um að fárið hefði verið „eins og óstöðvandi lest sem ég stýrði með semingi – og hún hélt bara áfram“. Charlie minntist einnig á frasana frægu sem hann hafði hvað mest uppi, og viðurkenndi að hann hefði kannski skotið örlítið yfir markið. „En þetta voru bara myndlíkingar. Ég trúði því ekki að ég hefði ‘Tiger-blood’ eða ‘Adonis DNA’. Þetta voru brandarar.“

Í öðru nýlegu viðtali við Matt Lauer í The Today Show, var Charlie öllu innilegri, sagðist hafa áttað sig á því hvað skipti máli í lífinu, og nú væri hann að reyna að sjá börnin sín meira, og bæta samband sitt við barnsmæður sínar, Denise Richards og Brooke Mueller. Að lokum lét hann hafa þetta eftir sér, sem ég ætla að láta óþýtt:

„That’s where the life is, you know, it’s in those quiet moments. It’s not the giant TV deal or the big party or the award or whatever, it’s the memory of your child’s smile at the end of the day that sort of brings that one lonesome tear, you know that tear.“

Mikið ætli fjölskyldan hans hljóti að vera ánægð að heyra þetta. Hvað segið þið annars, er þetta einlægni hjá honum eða síðasta tilraun til að bjarga andlitinu?