Endurkoma Tuckers

Gamanleikarinn Chris Tucker er nú í viðræðum um að leika eitt aðalhlutverkið í nýjustu mynd Davids O. Russell (Three Kings, The Fighter), sem ber nafnið The Silver Linings Playbook og þykir einnig líklegur til að leika í gamanmyndinni Neighbourhood Watch, sem Akiva Schaeffer leikstýrir. Schaeffer er þekktur sem einn af þremur meðlimum Lonely Island-grínhópsins og leikstýrði hann seinast Hot Rod árið 2007.

Tucker hefur heldur betur verið fjarverandi síðastliðinn áratug, en fyrir utan seinustu Rush Hour-mynd (sem er frá 2007) þá hefur hann ekki látið sjá sig síðan 2001 (sem var þá Rush Hour 2). Ef Rush Hour-serían er tekin út úr myndinni þá hefur kappinn ekki leikið í mynd síðan 1998. Talið er að hann hafi komið til greina til að leika í nýjustu mynd Quentins Tarantino, Django Unchained, en á endanum hreppti Jamie Foxx það hlutverk.

Bradley Cooper mun fara með lykilhlutverkið í Playbook, en í Neighbourhood Watch eru þeir Ben Stiller, Vince Vaughn og Jonah Hill. Ekki slæmt kompaní þar á ferð fyrir Tucker ef hann bætist við.