Raxamynd frumsýnd 19. ágúst – Stærsta og dýrasta heimildamynd Sagafilm

Þann 19. ágúst nk. mun Sagafilm frumsýna nýjustu heimildamynd sína, Andlit norðursins, sögu um ljósmyndarann Ragnar Axelsson, eða RAX. Magnús Viðar Sigurðsson leikstýrir myndinni og Margrét Jónasdóttir er handritshöfundur og framleiðandi. Myndin verður sýnd í Bíó Paradís og Sambíóunum Kringlunni.
Hér má skoða stiklu úr myndinni.

„Sagafilm hefur undanfarin þrjú ár unnið í fjármögnun og framleiðslu á þessu verki. Myndin, sem ber erlenda titilinn, LAST DAYS OF THE ARCTIC, er að stórum hluta fjármögnuð erlendis frá, en helstu samstarfsaðilar Sagafilm við vinnslu hennar eru sjónvarpsstöðvarnar BBC, NDR/ARTE í Þýskalandi, AVRO í Hollandi, auk ITVS í Bandaríkjunum. Auk þessara aðila hafa Kvikmyndamiðstöð Íslands, Norræni kvikmynda- og sjónvarpssjóðurinn, Iðnaðarráðuneytið og MEDIA TV Distribution áætlun Evrópusambandsins tekið þátt í fjármögnun. Auk þessara sjónarpsstöðva var myndin forseld til SVT, NRK og RÚV og meðframleiðandi er þýska fyrirtækið Gebrueder Beetz. Andlit Norðursins er stærsta og dýrasta heimildamynd sem Sagafilm hefur framleitt. Sagan segir frá ljósmyndaferli Ragnars sem núna er að uppskera mikla athygli fyrir ljósmyndir sínar. Umræðan um hlýnun jarðar og breytingar á Norðurslóðum hefur nú nýverið farið að snúast að því fólki sem þar býr, en þá er ljósmyndasafn RAXA ótrúlega merkileg heimild um þá baráttu sem fólk hefur þurft að heyja þar, til þess eins að lifa af. Það þekkja nánast allir landsmenn ljósmyndir RAXA. Hann hefur verið einn helsti ljósmyndari Morgunblaðsins frá árinu 1979. RAXI er mikill ævintýramaður sem elskar öfgana sem felast í náttúrunni. Hann byrjaði snemma að taka myndir og hefur fyrir löngu síðan komið sér upp sérstökum stíl sem hefur vakið eftirtekt á alþjóðavísu. Eitt helsta einkenni ljósmynda RAXA er hið einstaka samspil manns og náttúru og það er einmitt það sem er hjartað í þessari mynd. Myndin var frumsýnd í styttri útgáfu á BBC í maí síðastliðinn og seldist bókin hans upp á Amazon sama kvöld og myndin var sýnd. Hún hlaut feikna góðar viðtökur. Eins var myndin sýnd á Sheffield International Documentary Festival í júní sl. og hlaut þar mikið lof,“ segir í tilkynningu frá Saga film.