Ný íslensk kvikmynd frumsýnd 25. mars – Glæpur og samviska

Ný íslensk kvikmynd í fullri lengd, Glæpur og samviska, verður frumsýnd þann 25. mars nk. í Valaskjálf á Egilsstöðum.

Í fréttatilkynningu frá leikstjóra myndarinnar, Ásgeiri Hvítaskáldi, segir að myndin hafi verið í fjögur ár í vinnslu og hún sé alfarið tekin upp á Austurlandi. Leikstjórinn Ásgeir Hvítaskáld þjálfaði og ræktaði, eins og segir í tilkynningunni, áhugaleikara í hlutverkin og notar stórbrotið landslag á Austurland sem leiksvið.

Í tilkynningunni segir Ásgeir að myndin sé stórt drama um ógæfusamt fólk sem lendir á villigötum.

Ásgeir lærði kvikmyndagerð í Danmörku og hefur gert 12 heimildar- og stuttmyndir. Það er kvikmyndafélagið Frjálst orð sem framleiðir myndina sem er 131 mínúta að lengd.

Leikarar eru m.a. Jón Gunnar Axelsson, Sigurður B. Arnaldsson, Sigurður Ingólfsson, Anna Björk Hjaltadóttir, Þór Ragnarsson, Fjóla Egedía Sverrisdóttir og síðast en ekki síst tónlistarmaðurinn Bjartmar Guðlaugsson.