Kona kærir bíó vegna auglýsinga

Monitor, blað Morgunblaðsins, segir frá því í gær að kínversk kona ætli að lögsækja kvikmyndahús og dreifingaraðila kvikmyndar fyrir að eyða tíma hennar með því að sýna auglýsingar í 20 mínútur áður en sýning á myndinni hófst.

„Chen Xiaomei segir Polybona International kvikmyndahúsið í borginni Xian og dreifingarfyrirtækið Huayi Brothers Media Corporations hafa átt að tilkynna sér fyrirfram hversu langan tíma auglýsingar fyrir myndina Aftershock myndu taka.

Chen er lögfræðingur og ásakar fyrirtækin um að hafa eytt tíma hennar og brotið á valfrelsi hennar. Chen krefst þess að fá endurgreiddan miðann sem kostaði 35 yuan eða um 600 íslenskar krónur og svo vill hún fá aðrar 600 krónur í skaðabætur.

Einnig biður Chen kvikmyndahúsið vinsamlegast um að taka fram lengd auglýsingatíma á vefsíðu sinni, í anddyri hússins eða auglýsingaskiltum sínum og bað Huayi bræður að stytta auglýsingatímann í 5 mínútur,“ segir í frétt Monitors.

Ætli einhverjir hér á landi hafi einhverntíman hugsað það sama og þessi kona?