Samkynhneigt par í Írak í CN9

Það er alltaf gaman að pæla í hvað þeir Wachowski bræður eru að bralla, enda hafa þeir gert frábærar myndir eins og Matrix þríleikinn, Ninja Assassinn að ógleymdri V for Vendetta, sem þeir skrifuðu og framleiddu.

Samkvæmt frétt frá ritinu Production Weekly þá eru þeir nú að vinna í mynd sem gerist í Írak og á víst að heita CN9, samkvæmt tísti á Twitter síðu Production Weekly.

Nú er verið að leita að leikurum í myndina, en myndin á að fjalla um samkynhneigt samband á milli hermanns í Bandaríkjaher og hermanns í Íraksher. Myndin á að gerast í nálægri framtíð, með endurliti aftur í tímann. Myndin á að sögn að vera gerð í einskonar heimildarmyndastíl, eða „cinema verite“.

CN9 er læknisfræðilegt heiti, ef einhverjir voru að velta því fyrir sér, en óvíst er hvort að það sé það sem leikstjórarnir eru að vísa til.