Scorsese frumsýnir mynd um Harrison á næsta ári

George Harrison

Kvikmyndaleikstjórinn Martin Scorsese vonast til að frumsýna heimildarmynd sína um Bítilinn George Harrison á næsta ári, og lofar fullt af óséðu efni og lögum sem aldrei hafa áður heyrst.

Scorsese hefur unnið að verkefninu með ekkju Harrisons, Oliviu, síðastliðin þrjú ár, meira að segja á sama tíma og hann var að vinna að síðustu mynd sinni, Shutter Island.

Myndin á að heita „Living in the Material World: George Harrison“, og mun fjalla um líf Harrisons í heild sinni, á meðan og eftir að hann var í frægustu og vinsælustu popphljómsveit allra tíma, Bítlunum.

Á meðal þess sem komið verður inn á í myndinni og Scorsese segist eiga sameiginlegt með Harrison, er leit þeirra beggja að andlegum verðmætum, en leikstjórinn hefur haft áhuga á andlega sviðinu allan sinn feril, eins og sést til dæmis í myndum hans „Mean Streets“ og „Kundun“.

„Það viðfangsefni hefur alltaf fylgt mér,“ segir Scorsese. „Því meira sem þú ert í hinni efnislegu veröld, því meira hefur maður áhuga á eilífðinni og því að fá frið fyrir umhverfinu.“

Scorsese hitti Harrison nokkrum sinnum, fyrst á áttunda áratugnum á meðan tökur á „The Last Waltz“ fóru fram og svo aftur snemma á tíunda áratugnum.

Það var Olivia, ekkja Harrisons, sem hrinti heimildarmyndagerðinni af stað fyrir nokkrum árum síðan, eftir að þónokkrir framleiðendur höfðu komið að máli við hana um að gera heimildarmynd, þar á meðal BBC. Harrison lést af völdum krabbameins árið 2001.

Hún var lengi vel mótfallinn því þar sem Harrison vildi alltaf gera sína eigin heimidarmynd upp úr sínu eigin safni af myndböndum.

Að lokum ákvað hún að hrinda þessu í framkvæmd, og taldi að þetta væri eitthvað sem yrði að gera. Henni var bent á Nigel Sinclair til að fjármagna verkefnið, en hann framleiddi heimildarmyndina um Bob Dylan, „No Direction Home“, sem Scorsese leikstýrði.

„Þetta hefur verið mjög persónulegt ferli fyrir mig, og tekið mikið á,“ segir Olivia. „Ég hef verið að viða að mér efni í fimm ár – eða reyndar í heil 35 ár,“ bætir hún við. „Þannig að þetta hefur verið frábært, en mjög tilfinningaþrungið líka. En mér finnst ég vera í öruggum höndum með Scorsese. Þeir þekktust og hann hefur ástríðu fyrir tónlist og kvikmyndum, eins og George.“

Martin Scorsese

George og Olivia á góðri stund.