Náðu í appið
Bönnuð innan 16 áraMyndin getur valdið ótta hjá eða er ógnvekjandi fyrir ung börnÍ myndinni er ljótt orðbragð

A Nightmare on Elm Street 2010

Frumsýnd: 23. júní 2010

Never Sleep Again.

95 MÍNEnska
Rotten tomatoes einkunn 14% Critics
The Movies database einkunn 35
/100

Maður sem er þakinn brunasárum og með klær á annarri hendi ásækir unglinga í draumum þeirra. Þessi maður, Freddy Kruger, reynir að myrða unglingana í martröðum þeirra og ef honum tekst það deyja þau í raunveruleikanum. Að fyrstu virðast morðin vera af handahófi en svo kemur í ljós að fórnarlömbin eru öll tengd atviki í fortíðinni.

Aðalleikarar

Jackie Earle Haley

Freddy Krueger

Kyle Gallner

Quentin Smith

Rooney Mara

Nancy Holbrook

Katie Cassidy

Kris Fowles

Thomas Dekker

Jesse Braun

Kellan Lutz

Dean Russell

Clancy Brown

Alan Smith

Connie Britton

Dr. Gwen Holbrook

Leikstjórn

Handrit

Hmm......já.....
Ég hef aldrei verið neitt sérstaklega hrifinn af A Nightmare on Elm Street myndunum ekki einu sinni upprunalegu myndinni sem var gerð af Wes Craven og ekki bjóst ég við miklu af endurgerðinni. Þessi mynd reyndist vera allt í lagi þó að hún sé ekkert mjög mikil framför. Mér fannst hún örlítið spennandi framan af og Jackie Earle Haley er bara ágætur sem Freddy Krueger, kemst nálægt Robert Englund sem er það eftirminnilegasta úr gömlu Nightmare myndunum. Gallinn er bara sá að þessa mynd skortir allan ferskleika, hún stendur uppi sem klisja með þreytandi stereótýpum nema frammistaða Haley. Þetta er alveg ágætis skemmtun með nóg af hrolli og blóði en þegar uppi er staðið er þetta ekkert spes mynd. Tvær stjörnur.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Alls engin martröð en hvar er hrollurinn?
Reboot-æðið heldur áfram, og fyrst þeir Michael Meyers og Jason Voorhees fengu að byrja upp á nýtt, hvers vegna skilja þá Freddy Krueger útundan? Hann er nú að mínu mati sá allra eftirminnilegasti, sem þýðir að ef einhver leikstjóri ætlar að tækla endurstillingu á þessari seríu, þá er eins gott að hann geri það vel. En það virðist ekkert vera neitt annað en bullandi óskhyggja að ætlast til þess að Platinum Dunes-fyrirtækið (stjórnað af sjálfum Michael Bay, ásamt öðrum) skili af sér hrollvekju sem er eitthvað þess virði að mæla með. Það eina góða sem hefur komið þaðan er Texas Chainsaw-endurgerðin. Annars hefur þetta kompaní sérhæft sig í því að taka klassískar myndir og eyðileggja nöfn þeirra, eins og þeir gerðu með The Amityville Horror og The Hitcher. Þessi endurgerð á A Nightmare on Elm Street er hvergi nálægt því að vera eins íkonísk og sú upprunalega (ég verð þó að viðurkenna, sú mynd eldist frekar illa) en hún er engin hörmung heldur. Samt, þrátt fyrir að margar myndir í gömlu Nightmare-seríunni hafi verið slæmar, þá fer það ekki á milli mála að hinn nýi Freddy átti miklu betri mynd skilið heldur en þetta.

Þessi mynd má eiga það að vera vel tekin upp og flott á mörgum sviðum. Einnig er ég nokkuð ánægður með Jackie Earle Haley í lykilhlutverkinu, þótt það verði seint hægt að segja að hann sé að gera eitthvað nýtt. Þessi maður virðist njóta þess að leika annaðhvort morðingja/brjálæðinga (Watchmen, Shutter Island) eða barnaperra (Little Children), og hérna leikur hann bæði. Engu að síður þá leggur hann sig allan fram að venju og reynir ekkert að apa eftir Robert Englund, heldur gerir sína eigin hluti við þennan karakter. Svarti, perralegi húmorinn, sem hefur áður einkennt hann, laumast þó inn nokkrum sinnum – undirrituðum til mikillar ánægju. Útlitið er líka mátulega ógeðslegt og kemur mjög vel út. Hins vegar þarf þessi mynd að gjalda fyrir það að leikstjóri hennar hefur ekki minnstu hugmynd um hvernig á að gera hrollvekju. Þetta bitnar auðvitað mest á spennunni, andrúmsloftinu og sjálfum Freddy.

Í leikstjórasætinu situr hér nokkur Samuel Bayer, sem hefur ekkert gert áður en tónlistarmyndbönd. Það eina sem þessi maður fær hrós fyrir er einmitt tökustíllinn, en hvað allt annað varðar þá feilar hann skömmustulega. Óþægindin vanta alveg í þessa mynd, og fyrir vikið verður hún bara frekar hæg og leiðinleg á köflum. Senur sem eiga að vera óþægilegar verða bara - kaldhæðnislega - svæfandi og einstaka sinnum hallærislegar (skotið í baðinu er t.a.m. kjánalega fyndið). Og þrátt fyrir að Haley viti alveg hvað hann er að gera í sínu hlutverki þá er Bayer alveg ófær um að gera senurnar með honum óhugnanlegar. Í stað þess að byggja upp andrúmsloft sem gerir áhorfandann óðan af spennu þá er hér einungis verið að styðjast við (hvað annað??) bregðuatriði, sem eru næstum því öll jafn fyrirsjáanleg. Bayer gerir heldur ekkert nýtt eða skemmtilegt við draumasenurnar, þar sem akkúrat er besti tíminn til að leika sér með sjónræna stílinn. Mest megnið af brjálæðinu sem við sjáum hér er eitthvað afrit af því sem við höfum séð áður og það er eiginlega ófyrirgefanlegt í mynd sem telur sig vera uppfærsla.

Ég skal samt viðurkenna það að ég hef séð þúsundfalt verri leik hjá ungu fólki í hrollvekju heldur en þann sem hér að finna. Krakkarnir standa sig ekkert illa, en þeir virka flestir svo gríðarlega áhugalausir að maður hefur engan áhuga á því að halda með þeim. Svo er handritið svo stirt að nánast hver einasta sena breytist í einhvers konar klisju, og samtölin eru meðaltalin, en þau eru hvort eð er bara beint tekin upp úr gömlu myndunum. Annars er þessi nýja Nightmare On Elm Street-mynd voða auðgleymd og ómerkileg þrátt fyrir ýmsa kosti, sem er nokkurn veginn það sama og hægt er að segja um endurgerðina á Friday the 13th og reyndar Halloween líka. Þetta er mynd sem hefði getað komið svo miklu betur út hefði Michael Bay valið einhvern aðeins hæfileikaríkari leikstjóra til að sjá um þetta allt saman. Ekki það að ég ætlist til þess að sprengjusérfræðingur eins og Bay hefði eitthvað gott auga fyrir hæfileikaríkum leikstjórum. Það mátti samt reyna.

5/10

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Skrifa gagnrýni
Senda inn

Tengdar fréttir

28.08.2023

Topp 10 hrollvekjur Erlings Óttars Thoroddsen leikstjóra Kulda

Kvikmyndir.is bað hrollvekjuleikstjórann Erling Óttar Thoroddsen sem sendir frá sér myndina Kulda nú í vikunni, að taka saman lista yfir uppáhalds hrollvekjurnar sínar. A Nightmare on Elm Street [movie id=897] Ég á...

02.10.2021

Ómissandi hrollvekjur af öllum gerðum

Október er byrjaður sem þýðir að nú er frábær tími til þess að byrja að horfa á skuggalegar (e. „spooky“) myndir. Listinn fyrir neðan inniheldur 31 fjölbreytta mynd sem allar hafa það sameiginlegt að vera...

23.10.2020

Klassískar hrollvekjur í bíó á hrekkjavöku

Eins og flestum er kunnugt hefur bíóárið 2020 verið vægast sagt óvenjulegt vegna faraldursins. Eftir að kvikmyndahús opnuðu á ný í kjölfar Covid-19 hefur verið reynt að bæta upp skort á nýjum titlum með því sýn...

Svipaðar myndir



Skrifa söguþráð
Fyrirsögn
Takk fyrir aðstoðina, þú ert stjarna.
Senda inn