Náðu í appið
Bönnuð innan 12 áraÍ myndinni er sýnd nekt og/eða þar er að finna kynferðislega hegðun eða tilvísanirÍ myndinni er ljótt orðbragð

The Boat That Rocked 2009

(Pirate Radio)

Fannst ekki á veitum á Íslandi

Frumsýnd: 6. maí 2009

On air. Off shore. Out of control.

135 MÍNEnska
Rotten tomatoes einkunn 60% Critics
The Movies database einkunn 58
/100

Á miðjum sjöunda áratug síðustu aldar þá spilar BBC ekki mikið af popptónlist í útvarpinu. Íhaldssömum stjórnvöldum til mikils ama, þá er starfrækt sjóræningjaútvarpsstöð úti fyrir ströndum Bretlands sem nær til hálfrar þjóðarinnar. Hinn ungi Carl, sem á engan föður, er vísað úr skóla fyrir að reykja, og er sendur af móður sinni í skipið,... Lesa meira

Á miðjum sjöunda áratug síðustu aldar þá spilar BBC ekki mikið af popptónlist í útvarpinu. Íhaldssömum stjórnvöldum til mikils ama, þá er starfrækt sjóræningjaútvarpsstöð úti fyrir ströndum Bretlands sem nær til hálfrar þjóðarinnar. Hinn ungi Carl, sem á engan föður, er vísað úr skóla fyrir að reykja, og er sendur af móður sinni í skipið, þar sem litríkir menn og lesbía - reka útvarpsstöðina. Á tveggja vikna fresti koma konur um borð; hann hrífst af frænku yfirmannsins. Það er deilt um stöðu plötusnúðs, einkum á milli bandarísks uppreisnarseggs og ensks guðs; nætur plötusnúðurinn segir fátt; morgunsnúðurinn sést varla, og í landi er ósáttfús ráðherra. Mun hann ná að sökkva skipinu og þagga niður í rokki og róli?... minna

Aðalleikarar

Leikstjórn

Handrit

Óstövandi lífsgleði beint í æð
Þessi glaðbeitta og snjalla saga fjallar um áhöfn á ansi sérstökum bát. Þetta eru helstu tónlistarmógúlar sjöunda áratugarins sem hafa lagst á eitt við að halda uppi Radíó Rokk, einu útvarpsstöðinni sem gefur skít í flest viðmið samfélags þess tíma. Líkt og þegar Elvis steig fyrst á stokk þá eru fjölmargir stífir jakkafatakallar sem beita sér fyrir því að halda æskulýðnum „óspilltum”.

Myndin fjallar að upplagi um leit yfirvalda að þessum litríka hóp plötusnúða sem spila óritskoðað rokk, bölva og stynja í beinni útsendingu.

Allt útlit myndarinnar er til fyrirmyndar og eru flestar persónurnar þess eðlis að ekkert annað tjóir en marglitað flauel, teinóttar buxur í öllum regnbogans litum og hattar með fjöðrum. Búningarnir einir og sér draga mann vel og rækilega inn í þann nostalgíurússíbana sem kvikmyndin er. Og jafnvel þó að áhorfandinn viti fátt um tímann og tónlistina, er auðvelt að smitast af taumlausri gleði og lífsþrótti plötusnúðanna sem lifa fyrir tónlistina og halda tónlistinni á lífi.

Persónusköpunin er einn helsti styrkleiki myndarinnar, þó að ekki séu þær allar djúpar. Það eru mörg kunnugleg andlit í leikarahópnum, en þeir sem kvikmyndin gæti síst verið án eru hinn gríðarlega fjölbreytti Philip Seymour Hoffman og hinn sérviskulegi Rhys Ifans. Kenneth Branagh leikur hið fullkomlega greidda „illmenni” sem þráir fátt heitar en að loka á Radíó Rokk og er skemmtilegt að sjá hvernig gráleitur raunveruleiki hans stangast sjónrænt á við litríkt og kaótískt lífið á bátnum góða.

Myndin er samkvæm sjálfri sér og heldur alltaf í jákvæðnina og glettnina, sama hvað dynur á persónunum og hvetur áhorfandann til að sleppa af sér beislinu og njóta lífsins. Þessi samsetning skilur margt eftir og maður fær virkilega eitthvað fyrir peninginn með því að taka frá kvöldstund og sjá þessa frábæru kvikmynd.

Bryndís Ósk Þ. Ingvarsdóttir.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Traustir leikarar og tónlist sem rokkar FEITT!
Að horfa á The Boat that Rocked er eins og að vera staddur í stjörnupartýi í retró-stíl þar sem geggjuð tónlist er allan tímann í spilun og fílingurinn ávallt hress. Myndina skortir svosem krúttleikann og hlýjuna sem Richard Curtis stillti upp svo prýðilega í Love Actually (mynd sem undirritaður getur alltaf horft á) en hún svínvirkar engu að síður sem lúmskt fyndin - þótt kannski örlítið of löng - gamanmynd sem fer nánast algjörlega eftir eigin uppskriftum.

Curtis kann að fara vel með góða leikara, sem þessi mynd hefur svo sannarlega nóg af og er hiklaust borin uppi af þeim andlitum sem prýðir ræmuna út í gegn. Handritið þyrfti að vera hreinasta viðurstyggð fyrir svona traustan og hæfileikaríkan hóp af breskum mönnum, ásamt einum besta bandaríska leikara sinnar kynslóðar, til að feila eitthvað en þeir halda allir upp mjög góðum takti og dúndurskemmtilegri nærveru. Það er eitthvað svo mikil dásemd að horfa á Bill Nighy, Philip Seymour Hoffman, Rhys Ifans og Nick Frost (sem verður alltaf þekktur sem Mike úr Spaced í mínum augum) leika lausum hala í tvo tíma. Ekki heldur hef ég neitt neikvætt að segja um lítt þekktari menn á borð við Rhys Darby (munið eftir ágenga stjóranum úr Yes Man? Sami gaur), Tom Wisdom, Tom Sturridge og Chris O'Dowd (Roy í The IT Crowd). Jack Davenport er líka skemmtilega óhress og glætan að ég fari að gleyma Kenneth Branagh, sem stendur sig að sjálfsögðu vel og fær margar frábærar línur, en almennt gerir hann ósköp lítið og því verður maður að setja stórt spurningarmerki við hann.

Það sem kom mér á óvart meðan ég horfði á þessa mynd var það hversu ómerkilegar og í mörgum tilfellum óviðkunnanlegar persónurnar voru um borð í Radio Rock bátnum, sem nánast öll myndin gerist á. Það áhugaverða við það, hins vegar, var að eftir að hafa eytt rúma tveimur tímum með þessu pakki fóru þeir hér um bil allir að vaxa á mig og þegar kreditlistinn í lokin var kominn upp var mér vel farið að líka við hvern einasta aðila þarna. Það er eitt af mörgum dæmum sem sýnir hvað Curtis getur verið lúmskur með handrit sín, svo ég tali auðvitað ekki um hvað margar senur í þessari mynd eru fáránlega fyndnar. Húmorinn kemur samt meira upp úr samskiptum persónanna heldur en að vera skrifaður með stökum samhengislausum bröndurum.

Annars gengur myndin rétt tæplega yfir það að vera lengri en hún þurfti að vera. Ég sæi minni ástæðu til þess að kvarta undan lengdinni ef myndin hefði sett örlítið meiri fókus á sumar persónurnar, því eins og má sjá, þá eru þær nokkuð margar og fá mismikla athygli á skjánum. Kenneth Branagh er gott dæmi um persónu sem fær ekki rassgat að gera út alla myndina. Hann er þarna því handritið þarf á skíthæl að halda, en senurnar með honum gera ósköp lítið annað en að fara í hringi og endurtaka sömu línurnar aftur og aftur um hversu vond og svívirðileg popp- og rokktónlistin er. Persónusköpun hans er líka öll í lausu lofti. Hann bara hverfur rétt undir lokin og fær maður ekkert að vita af hverju maðurinn var svona leiðinlegur og bitur karakter.

Í hvert sinn sem myndin dregur athyglina frá bátnum, þá dalar hún, sama hversu góða leikara er um að ræða. Eina undantekningin er jólaboðið sem Brangah heldur. Klassískt! Svo þegar athyglin beinist aftur á bátinn, þá er fílingurinn allt annar. Ég væri einnig að guðlast ef ég myndi ekki eitthvað minnast á þetta blessaða soundtrack sem heyrist út alla myndina, en tónlistin út í gegn er ÆÐISLEG. Hún passar fullkomlega við sumar senurnar og bara almennt séð kemur hún manni í betra skap og setur skemmtilegan og léttan tón á myndina. Meira að segja í alvarlegustu senunum er aldrei langt í grípandi lag eða góðan húmor, og það tel ég vera helvíti gott.

The Boat that Rocked er í engri merkingu verðlauna- eða hágæðamynd, en hún heldur manni í góðu skapi og miðað við það sem myndin er að segja manni þá skiptir það mjög miklu. Ég myndi ekki láta mig dreyma um það að setja hana á sama gæðastall og Love Actually, en það þýðir ekki að hún verðskuldi ekki fínustu meðmæli þrátt fyrir það.

7/10 - Sjáðu hana ef þú ert músík-dýrkandi. Það er skylda...

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Skrifa gagnrýni
Senda inn

Tengdar fréttir

31.12.2020

Sér eftir hlutverki Bond-stúlkunnar

Breska leikkonan Gemma Arterton ber ekki hlýjan hug til ákvörðun sinnar um að gerast svonefnd Bond-stúlka í hasarmyndinni Quantum of Solace. Myndin var gefin út árið 2008 - við mikla aðsókn en dræmar viðtökur - og fór þar Arterton me...

Svipaðar myndir



Skrifa söguþráð
Fyrirsögn
Takk fyrir aðstoðina, þú ert stjarna.
Senda inn