Náðu í appið
Öllum leyfð

Astrópía 2007

(Dorks )

Justwatch

Frumsýnd: 22. ágúst 2007

Þar sem reglurnar breytast

90 MÍNÍslenska

Hildur er dekruð stelpa sem er neydd til að standa á eigin fótum eftir að kærasti hennar hefur verið settur í fangelsi. Hún fær sér vinnu í "nördabúðinni" Astrópíu, þar sém hún kynnist mörgum skrautlegum karakterum. Þeir kenna henni á svokallað role-play spil þar sem að ímyndunarveiki hennar fer heldur betur að ráða ríkjum.

Aðalleikarar

Leikstjórn

Handrit


Ég var að vonast til þess að loksins myndi koma út íslensk kvikmynd sem hægt væri að hylla, mynd sem væri verulega góð og hægt væri að minnast á sem ein af betri kvikmyndum frá þessu landi. Astrópía er því miður ekki sú mynd að mínu mati, hún er mjög mikil blanda og góðum og slæmum hlutum. Fyrsta lagi þá er húmorinn mjög mistækur, það eru um það bil jafn margir brandarar sem virkuðu og misheppnuðust. Leikararnir voru yfirleitt góðir, en flestar persónurnar voru einhliða og ómerkilegar. Ég get þó hrósað Ragnhildi Steinunni fyrir að vera mjög sannfærandi í aðalhlutverkinu og einnig fyrir að vera fáranlega myndarleg. Myndin er að leika sér mikið með klisjurnar sem eru til staðar í handritinu, ég fattaði grínið en mér fannst það yfirleitt ekki fyndið, mér leið eins möguleikarnir í handritinu væru ekki nógu vel nýttir þar sem handritið var býsna vel skrifað af honum Ottó Borg. Það gæti verið ósanngjarnt af mér að búa til einhverskonar gæðakröfur þegar það kemur að íslenskri kvikmynd sem miðað við Hollywood myndir kostar varla neitt í gerð, en mér fannst vanta soldið uppá myndatökuna og hljóð. Þetta er ein af fáum íslenskum myndum sem hefur einhverskonar bardagaatriði með sverðum og ófreskjum en það er mjög leiðinlegt að sjá svona slappa framkvæmd á þeim, viljandi gert eða ekki þá voru þau ekki að skila sér tæknilega séð og ef þau áttu að vera þannig fyrir húmorinn, þá var það ekki fyndið. Astrópía er ekki leiðinleg mynd, hún hefur góða spretti þá aðallega kringum miðja myndina, en endinn var mjög slappur og ófullnægjandi. Ég er líklega að verða einn mesti óvinur íslenskra kvikmynda á netinu, en það er alls ekki viljandi gert. Ég bíð þó enn eftir íslensku myndinni sem mun gera mig ánægðan, vonandi mun það gerast fyrr heldur en seinna.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei

Miðað við trailerinn bjóst ég við einhverri ævintýramynd með litla tengingu við raunveruleikann og var orðinn spenntur yfir þeirri hugmynd. En myndin reyndist allt öðru vísi en ég bjóst við og það á góðan hátt. Hér segir frá ofdekruðu gellunni Hildi (Ragnhildur Steinunn) sem hefur alltaf verið upp á aðra komin og þá sérstaklega kærastann og erkibjánann Jolla. Svo vandast málið þegar Jolli lendir í fangelsi og Hidur þarf að standa á eigin fótum og eftir skrautlegar tilraunir til að aðlagast breyttu lífi fær hún vinnu í ofurnördabúðinni Astrópíu þar sem hún kynnist áður óþekktri hlið mannlífsins. Í gegnum nýja starfið kynnist hún allskyns furðufuglum og kveikir m.a. ást í huga eins þeirra, sem einsetur sér að heilla hana með öllum tiltækum ráðum. En tugthúslimurinn Jolli er ekki tilbúinn að láta hana af hendi svo auðveldlega og setur þetta af stað skrautlega atburðarás sem endar með afar furðulegum en skemmtilegum hætti.

Þessi mynd er fínasta skemmtun og ferskur andblær inn í íslenska kvikmyndagerð. Sagan er eilítið klisjukennd en ágætlega spilað úr henni. Handritið er hið ágætasta og myndataka og tæknivinnsla er fín. Auk þess standa leikararnir sig með prýði og skilar Ragnhildur Steinunn sínu hlutverki ágætlega þrátt fyrir litla reynslu í kvikmyndaleik. Sérstaklega vil ég þó hrósa Snorra Engilbertssyni, Höllu Vilhjálms og hinum barnunga Alexander Sigurðssyni sem öll léku sínar persónur einstaklega vel að mínu mati. Sé litið til þess að þessi mynd er gerð fyrir lágt budget og af lítið reyndum leikstjóra (sé miðað við Hollywood), þá finnst mér hún alveg eiga skilið fjórar stjörnur.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Ekki ekta íslenskt, en það er gott
Við íslendingar höfum alltaf vanmetið hversu steiktan húmor við höfum, og það fer oftar en ekki framhjá íslenskri kvikmyndagerð sérstaklega. Að megnu til framleiðum við lítið annað en sorgmæddar bókaaðlaganir eða vælukenndar karakterstúdíur um fjölskyldukrísur. Einhver umtalaðasta íslenska bíómynd fyrr eða síðar hefur alltaf verið Sódóma Reykjavík, ekkert endilega útaf því að hún er ein af þeim fáu góðu gamanmyndum sem við höfum gert, heldur líka því hún er svo 100% íslensk og húmorinn vel í stíl við menninguna. Sú mynd var yndislega kjánaleg og ýkt að nærri öllu leyti, og slík þvæla hefur gengið vel upp í okkar gamanmyndum (lítið t.d. á Stellu í Orlofi eða Líf-myndirnar klassísku).

Astrópía kemur undarlega á óvart, og reynist hún vera nokkuð gott framlag til íslenskra gamanmynda. Myndin tekur sig aldrei alvarlega og býr til skemmtilegt andrúmsloft sem er ólíkt mestöllu öðru sem við höfum séð af innlendri kvikmyndagerð. Menningarhúmorinn er á sínum stað, en ef eitthvað þá eru það sérknnilegu persónur myndarinnar sem að halda henni uppi.

Söguþráðurinn er sömuleiðis skemmtilega ferskur og, þrátt fyrir ýmsar klisjur gengur hann ósköp vel upp. Það sem seldi söguna fyrir mér var sambandið sem þróaðist á milli Ragnhildar Steinunnar og Snorra Engilberts. Það var kannski pínu "mússí-mússí" (smá tilvísun í Fóstbræður) en einmitt í því öðlaðist myndin dálitla sál sem gerði hana talsvert viðkunnanlega, og þau tvö stóðu sig eins og hetjur. Steinn Ármann stal einnig sínum senum og var eflaust fyndnasti maðurinn á skjánum. Sveppi var alls ekki langt á eftir, sem er einkennilegt fyrir mig að segja þar sem ég hef sjaldan fílað manninn, en hér kom hann með yndislega lúðalegan karakter sem virtist ganga upp. Besta senan með honum er þegar hann mælir með hryllingsmyndum fyrir lítinn strák, með þau rök að maður pælir fullmikið í myndatöku, brellum og hljóði þegar maður eldist, og þ.a.l. nýtur maður þeirra ekki eins mikið. Sjúklega fyndið, og aulalega góður punktur. Pétur Jóhann var aftur á móti fullýktur og mjólkaði sitt nördahlutverk aðeins of mikið. Hvað á samt það að þýða að gefa honum geislasverð í fantasíuaheiminum ef hann á svo ekkert að nota það??

Stíll myndarinnar er þó að mörgu leyti stærsta klisjan, t.d. hvernig skipting á milli atriða sver sig við myndasögublað. Þetta kemur alls ekkert illa út, en maður fær alltaf þá tilfinningu að maður hafi oft séð þetta gert (t.d. get ég talið upp American Splendor eða jafnvel Svínasúpuna). Búningar og brellur koma ágætlega út miðað við þann standard sem myndin setur sér. Það er lítið um bardaga eða ofbeldi, sem er faktískt góður hlutur, enda engan veginn verið í takt við atburðarásina. Myndin gerir líka minna úr fantasíunni en auglýsingarnar gefa til kynna, og kom þetta allt talsvert betur út en ég gerði ráð fyrir. Leikstjórnin er sömuleiðis traust og markviss. Gunnar Björn Guðmundsson sér um að fókusa á helstu frammistöður og setur umgjörð í aftursætið. Það er aðallega stíllinn sem hefði mátt betur fínpússa, en frekar kýs ég að kvarta undan því heldur en vondum leik.

Þegar á heildina er litið virðist Astrópía hafa náð að taka mjög brenglaða hugmynd og láta hana. Hugmynd sem hefði eins léttilega getað feilað í erlendri kvikmynd. Styrkleikann er að finna í léttum tón og skemmtilegri framvindu. Svo er myndin við allra hæfi og ættu jafnvel íslenskir nördar að fá tvöfalda ánægju úr húmornum (Leroy Jenkins, einhver?). Ég hika ekki við að segja að þetta sé það ferskasta, og mögulega það fyndnasta, sem hefur komið frá okkur íslendingum síðan að Sódóma kom út.

7/10

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Skrifa gagnrýni
Senda inn

Tengdar fréttir

16.06.2020

„Kvennaútgáfa“ Síðustu veiðiferðarinnar á leið í tökur

Síðasti saumaklúbburinn í leikstjórn Göggu Jónsdóttur er á leið í tökur næstkomandi júlí en þar er um að ræða gamanmynd í anda Síðustu veiðiferðarinnar frá sömu framleiðendum. Nýverið úthlutaði ...

21.06.2012

Eysteinn faldi fjarsjóðsbox tengd kvikmyndum

Sum ykkar muna kannski eftir að árið 2006 hélt BT leik tengdan seinni Pirates of the Caribbean myndinni þar sem Íslendingum var falið að finna gám fullan af ýmsum stórvörum frá fyrirtækinu. Það var ekkert miðað við metnaðarf...

03.01.2011

Klovn slær út keppinautana

Klovn: The Movie virðist ætla að verða vel tekið á Íslandi eins og í Danmörku, því myndin skellti sér beint í toppsæti aðsóknarlista helgarinnar nú um áramótin. Höfðu þeir Frank Hvam og Casper Christensen...

Svipaðar myndir



Skrifa söguþráð
Fyrirsögn
Takk fyrir aðstoðina, þú ert stjarna.
Senda inn