Náðu í appið

Wonder Boys 2000

Fannst ekki á veitum á Íslandi

Frumsýnd: 2. febrúar 2001

Undependable. Unpredictable. Unforgettable. / A Weekend from Hell Became the Time of his Life

111 MÍNEnska
Rotten tomatoes einkunn 81% Critics
The Movies database einkunn 74
/100

Daginn sem þriðja eiginkonan fer frá honum og umboðsmaður hans kemur til hans til að ýta á hann að klára skáldsöguna sem hann er búinn að vinna að í sjö ár þá kemst Grady Tripp, sem er bæði kennari og rithöfundur, í Pittsburgh, að því að gift hjákona hans er ófrísk. Sjö árum áður, þá sló hann í gegn með fyrstu skáldsögu sinni, og umboðsmaður... Lesa meira

Daginn sem þriðja eiginkonan fer frá honum og umboðsmaður hans kemur til hans til að ýta á hann að klára skáldsöguna sem hann er búinn að vinna að í sjö ár þá kemst Grady Tripp, sem er bæði kennari og rithöfundur, í Pittsburgh, að því að gift hjákona hans er ófrísk. Sjö árum áður, þá sló hann í gegn með fyrstu skáldsögu sinni, og umboðsmaður hans naut góðs af. En báðir þurfa núna að endurheimta velgengnina. Þessa helgina þá ákveður hann, í stað þess að taka á málunum, að ráfa um í hassvímu. Einn af nemendum hans, James Leer, vekur með honum hugsanlega föðurlegar kenndir, og vekur upp samkynhneigðar tilfinningar hjá umboðsmanninum. Pólitík innan skólans flækir málin enn frekar: hjákona Grady er rektor skólans, eiginmaður hennar er deildarstjóri yfir Grady, James er nýbúinn að skjóta hund eiginmannsins. Hvað er nú til ráða?... minna

Aðalleikarar

Michael Douglas

Grady Tripp

Tobey Maguire

James Leer

Frances McDormand

Sara Gaskell

Robert Downey Jr.

Terry Crabtree

Katie Holmes

Hannah Green

Richard Knox

Vernon Hardapple

Michael Cavadias

Miss Sloviak

Richard Thomas

Walter Gaskell

Alan Tudyk

Sam Traxler

George Grizzard

Fred Leer

Kelly Bishop

Amanda Leer

James Kisicki

Wordfest Party Guest

Leikstjórn

Handrit


Ein af skemmtilegri myndum sem ég hef séð og húmor sem hittir í mark. Allir leikarar eru frábærir og þá sérstaklega Douglasinn. Langbesta mynd sem Tobey hefur leikið í og þá sömuleiðis Katie Holmes(örugglega eina góða myndin). Robert Downey kom á óvart og það er eitthvað við McDormand sem snertir kvikmyndataugarnar hjá manni. Leikstjórn er til fyrirmyndar og handritið eitt það þéttasta. Pottþétt skemmtun.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei

Grady Tripp (Michael Douglas) er prófessor í bókmenntum við háskóla einhvers staðar í Pennsylvaníu held ég. Hann er einnig rithöfundur sjálfur en virðist ekki geta lokið við bókina sem hann hefur verið að vinna að í 7 ár. Hann varð frægur fyrir fyrstu og einu bók sína til þessa en nú virðist allt vera á niðurleið. Konan hans er farin frá honum, bókaútgefandinn hans, hinn stórfurðulegi Terry Crabtree (Robert Downey Jr.) þrýstir á hann að klára verkið, einn af nemendum hans, hinn léttklikkaði James Leer (Tobey Maguire) virðist vera búinn að skrifa meistaraverk á einum ársfjórðungi, annar nemandi hans Hannah Green (Katie Holmes) er skotin í honum og ofan á allt hefur hann gert viðhaldið sitt, rektorinn sjálfan Sara Gaskell (Frances McDormand) ólétta. Öll þessi vandamál hrúgast upp á einni helgi og spurningin hvort hann finni sjálfan sig í öllu þessu. Þessi mynd kemur eins og þruma úr heiðskíru lofti alveg eins og American Beauty í fyrra. Leikstjórinn Curtis Hanson sem gerði hina frábæru L.A. Confidential árið 1997 snýr hér aftur með aðra æðislega mynd. Það sem lætur þessa mynd fyrst og fremst virka er að manni er alls ekki sama hvað verður um þetta undarlega lið í henni. Auk þess er myndin ágætis innsæi inn í hina stundum skrítnu háskólamenningu. Handrit Steven Kloves byggt á bók eftir Michael Chabon er óvenjulega bitastætt og hreint kraumar af hugmyndaflugi og vel skrifuðum samtölum. Þetta sannar í rauninni hvað góð handrit eru gífurlega mikilvæg til þess að myndir heppnist. Þá fá líka leikararnir sem fara með það virkilega eitthvað til að moða úr og verður að segjast að þeir nýta það til hins ýtrasta. Michael Douglas hefur aldrei verið betri sem prófessorinn sem er flæktur í svo mikið af rugli að hann hefur engan tíma til þess að gera neitt í sínum eigin málum. Douglas fer á algjörum kostum og er furðulegt að hann skuli ekki hafa verið tilnefndur til Óskarsverðlaunanna. Tobey Maguire og Robert Downey Jr. eru einnig frábærir. Tobey Maguire er hæfileikaríkur leikari og ég var búinn að gleyma því hversu mikill afbragðs leikari Downey Jr. er. Verst að hann skuli vera sjálfum sér verstur. Síðast en alls ekki síst verð ég að minnast á FRÁBÆRA tónlist Bob Dylan, eins magnaðasta listamanns 20. aldarinnar. Hér kemur hann með enn einn gullmolann sem á eftir að verða klassískur eins og flest annað eftir meistarann og ég mun aldrei fyrirgefa akademíunni ef hann vinnur ekki Óskarinn. Wonder Boys er frábær lítill gullmoli sem kemur þægilega á óvart og engin spurning að allir unnendur góðra kvikmynda ættu að sjá hana.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei

Einkar skemmtileg saga af háskólaprófessor í heldur alvarlegri tilvistarkreppu. Fyrir 7 árum hafði hann gefið út feykivinsæla bók, Dóttir brennuvargsins, og fengið mikið lof fyrir. Eitthvað virðist bók númer 2 ætla að standa á sér, þó hann sé búinn að skrifa fyrstu 3000 síðurnar. Það virðist hinsvegar vera minnst hans vandamála þegar ritstjóri útgáfufélags, snilldarlega leikinn af Robert Downey Jr., kemur á kampusinn. Hann er hvort tveggja rammöfugur og á lyfjum, reyndar eins og prófessorinn sjálfur, en hann virðist ekki geta lifað tíu mínútur, hvað þá skrifað, án þess að fá sér jónu. Ofan á þetta bætast svo ólétt viðhald, brjálaður, blindur hundur, dauður hundur, byssur, klæðskiptingar, stolinn bíll, Marilyn Monroe og útúrklikkuð James Brown eftirherma, auk heils hellings af skemmtilegum karakterum.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei

Wonder Boys er fyrsta kvikmynd leikstjórans Curtis Hanson frá því að hann gerði meistaraverkið L. A. Confidential árið 1997, en með henni festi hann sig í sessi sem einn af bestu leikstjórum samtímans. Í Wonder Boys er sömu snilldina að finna og ljóst er að hér er á ferðinni stórfengleg kvikmynd í alla staði. Hér segir af rithöfundinum og prófessornum Grady Tripp (Michael Douglas). Hann þjáist í sögubyrjun af svæsinni ritstíflu og lifir í raun á fornri frægð þar sem 7 ár eru liðin frá útgáfu síðustu bókar hans. Útgefandi hans, hinn léttgeggjaði Terry Crabtree (Robert Downey Jr.) hefur áhyggjur af þessu og boðar heimsókn sína til hans yfir helgi. Og þessi helgi á eftir að verða afdrifarík fyrir Grady og líf hans. Eiginkona hans er farin frá honum, kona yfirmanns hans (Frances McDormand) er ólétt eftir hann, nemandi sem leigir hjá honum (Katie Holmes) girnist hann og annar nemandi hans (Tobey Maguire) er stelsjúkur snillingur sem efast um kynhneigð sína. Saman mynda þessar ólíku persónur einhvern skemmtilegast hóp sem sést hefur á hvíta tjaldinu og áður en helgin er á enda hafa þær allar flækt sig í kostulegar aðstæður sem seint líða úr minni áhorfenda. Snilldarlegt handrit með stórkostlegum leikurum og óaðfinnanlegri leikstjórn eru aðall þessarar mögnuðu og stórfenglegu myndar. Óskarsverðlaunaleikarinn Michael Douglas (Wall Street) skilar hér einni af sínum bestu leikframmistöðum og átti að hljóta óskarsverðlaunatilnefningu fyrir stórleik sinn í þessari kvikmynd, hiklaust. Hann túlkar hinn seinheppna prófessor hreint meistaralega, hann hefur ekki verið betri síðan í óskarsverðlaunahlutverki sínu í Wall Street 1987 þar sem hann lék vægðarlausan verðbréfasala. Þetta er hans mynd í gegn og hann er alveg frábær í þessu hlutverki. Óskarsverðlaunaleikkonan Frances McDormand (Fargo) er einnig stórfín í hlutverki Söru Gaskell og er óborganleg að vanda, enda frábær leikkona. Robert Downey Jr. er einnig fínn í hlutverki Crabtree og það sama má segja um Tobey Maguire í hlutverki James Leer (það var brilliant móment er hann fór yfir sjálfsmorð stjarnanna). Wonder Boys var tilnefnd til þrennra óskarsverðlauna 2000: fyrir besta handritið og bestu klippingu. Hlaut óskarinn fyrir ógleymanlegt lag poppgoðsins Bob Dylan, Things Have Changed, magnað lag sem sest djúpt í sálina. Hann átti óskarinn skilið enda er þetta alveg frábært lag. Semsagt; þetta er mögnuð kvikmynd sem skartar mögnuðu handriti, stórgóðum leik aðalleikaranna, góðri tónlist meistara Bob Dylan og óaðfinnanlegri leikstjórn. Pottþétt skemmtun fyrir alla sanna kvikmyndaáhugamenn. Alls ekki missa af þessari, þetta er snilld út í gegn!
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Skrifa gagnrýni
Senda inn

Tengdar fréttir

31.12.2009

Áramóta-Tían!

Þrátt fyrir að ég hafi skrifað topplista fyrir cirka mánuði síðan yfir bestu myndir áratugarins sem nú er að baki þá finnst mér erfitt að réttlæta það að telja upp einungis 25 titla og fjalla bara um 10. Notendur...

Svipaðar myndir



Skrifa söguþráð
Fyrirsögn
Takk fyrir aðstoðina, þú ert stjarna.
Senda inn