Murray ósáttur með Ghostbusters 3

Framleiðsla á þriðju Ghostbusters myndinni hefur farið bæði upp og niður þau seinustu 20 ár sem myndin hefur að sögn verið í bígerð. Stuttu eftir útgáfu Ghostbusters II skrifaði Dan Aykroyd handrit fyrir þriðju myndina sem endaði síðar sem grunnur 2009 tölvuleiksins Ghostbusters: The Video Game. Svipað handrit fyrir myndina var loksins gefið græna ljósið í október í fyrra, en síðan þá hefur stærsti vandinn verið leikaravalið fyrir myndina; eða skortur þess. Málið er að uppáhald allra og stærsta stjarna seríunnar, Bill Murray, hefur sikk sakkað á milli þess að lítast vel á myndina eða hata hana og nýjustu viðbrögð hans eru ekki af fyrri gerðinni.

Í fyrra neitaði hann að koma fram í myndinni nema að karakter hans verði drepinn í fyrstu senunni. Hann staðfesti síðar að hann myndi birtast í henni, sem draugur. Mánuði síðar þó kallaði hann þriðju myndina „martröð. Mína Martröð,“. Lítið hefur heyrst síðastliðið ár, nema hvað að nú í vikunni fékk Murray send nýjustu drög handritsins fyrir myndina. Hvernig leist honum á? Hann tætti drögin og sendi Dan Aykroyd þau ásamt miða sem stóð á: „Enginn vill borga fyrir að horfa á feita, gamla menn eltast við drauga.“

Það virðist sem að Murray sé að bakka út, en þetta reynist vera enn meiri vandi þar sem Sigourney Weaver hefur áður sagt að hún muni aðeins taka þátt í þriðju myndinni ef að Murray kemur líka. Verkefnið hefur þó tórað svona lengi og hinir Draugabanarnir eru svo sannarlega spenntir fyrir myndinni; kannski þurfum við bara að sjá eftir Murray í þetta skiptið.