Mulan á bið vegna kórónaveirunnar

Disney stórveldið neyðist til þess að fresta útgáfu nýju Mulan kvikmyndarinnar í Kína vegna útbreiðslu COVID-19 veirunnar. Menn hafa lengi búist við að útgáfa endurgerðarinnar verði ein af stærri myndum í Kína í ár en víða um heim bíða margir hennar með mikilli eftirvæntingu.

Áætlaður frumsýningardagur myndarinnar í landinu var 27. mars, líkt og í flestum löndum á heimsvísu, en honum hefur nú verið frestað í ótilgreindan tíma. Ekki er enn vitað hvort veiran hafi áhrif á frumsýningu myndarinnar í öðrum löndum.

Mikill efnahagssamdráttur hefur orðið í Kína eftir að veiran átti upptök sín í Wuhan-héraði síðastliðinn desember. Hátt í 90 þúsund manns hafa greinst með veiruna þar í landi en hún hefur nú dreift sér til fleiri en 70 landa um allan heim. Talið er að útbreiðsla veirunnar í Kína hafi dregist saman á undanförnum dögum en vegna öryggisráðstafana hefur flestum kvikmyndahúsum verið lokað. Vakti það einnig athygli á dögunum þegar tilkynnt var að frumsýningu nýjustu James Bond-myndarinnar, No Time to Die, hafi verið frestað af sömu ástæðu.

Þykir ekki ólíklegt að seinkun Mulan, sem sögð er kosta yfir 200 milljónir Bandaríkjadala, hafi töluverð áhrif á fjárhag Disney-samsteypunnar.

Stikk: