Myndir mánaðarins, október 2019 - Bíó

10 Myndir mánaðarins Kristen Stewart, Ella Balinska og Naomi Scott í hlutverkum sínum sem hinar hæfileikaríku og eitilhörðu Sabina Wilson, Jane Kano og Elena Houghlin, einu nafni Englar Charlies. Englar Charlies aftur á ferð Það má búast við ómældu fjöri og sprelli í þriðju bíómyndinni sem gerð er um Engla Charlies, en tvær þær fyrri voru frumsýndar árin 2000 og 2003 og voru eins og þessi byggðar á samnefndum sjónvarpsþáttum sem nutu mikilla vinsælda í bandarísku sjónvarpi á árunum 1976 til 1981. Þeir fjölluðu umþrjár ungar konur sem voru leynilegir útsendarar auðugs manns sem vildi ekki láta nafn síns getið en kom skilaboðum til þeirra og leiðbeiningum um næsta verkefni í gegnum milliliðinn Bosley. Tilgangurinn var að berjast á móti óréttlæti og glæpum sem lögreglan var ófær um að ráða við og höfðu stúlkurnar þrjár hlotið viðamikla þjálfun í bæði bardagatækni og meðferð alls kyns vopna. Á þessum grunni byggir sem sagt þessi nýja mynd um Englana sem í þetta sinn eru leiknar af þeim Kristen Stewart, Ellu Balinska og Naomi Scott en voru í fyrri bíómyndunum tveimur leiknar af Cameron Diaz, Drew Barrymore og Lucy Liu. Leikstjóri er Elizabeth Banks sem jafnframt er framleiðandi og leikur milliliðinn Bosley. Við förum nánar yfir söguþráð myndarinnar í næsta blaði en viljum eins og oft áður benda áhugasömum á stórskemmtilega stikluna sem sýnir vel þann húmor og þann hasar sem áhorfendur eiga von á þegar myndin verður frumsýnd 15. nóvember! Leikstjóri Charlie’s Angels er Elizabeth Banks og er þetta önnur mynd hennar sem leikstjóra á eftir Pitch Perfect 2 . Elizabeth leikur einnig yfirmann Englanna, Bosley og hér ræða þær málin, Sabina Wilson og hún, í einu atriði myndarinnar. Bíófréttir – Væntanlegt Leitin að upprunanum Disney-teiknimyndin Frozen , sem var lauslega byggð á ævintýri Hans Christians Andersen, Snædrottningunni , sló í gegn svo um munaði árið 2013 bæði hjá börnum og fullorðnum og er enn í dag í toppsæti listans yfir tekjuhæstu teiknimyndir allra tíma. Strax varð ljóst að gert yrði framhald og í nóvember, nánar tiltekið þann 22. er loksins komið að frumsýningu hennar eftir nærri því sex ára bið. Í Frozen II snúa auðvitað allar aðalpersónurnar aftur með þeim Önnu, Elsu, Kristoff, Ólafi og hreindýrinu Svenna í fararbroddi og gerist sagan um þremur árum eftir atburðina í fyrri myndinni. Þessi fimm halda nú út úr heimalandinu Arendelle þegar ný ógn steðjar að í von um að komast að því hvaðan töframáttur Elsu er kominn. Þess má geta að hjónin Kristen Anderson og Robert Lopez, sem sömdu hið vinsæla lag Let It Go snúa líka aftur með fjögur ný lög í Frozen II og bíða vafalaust margir eftir að heyra þau, ekki síður en að sjá myndina. Allar helstu aðalpersónur fyrri myndarinnar snúa aftur í framhaldsmyndinni, Frozen II , ásamt fjölmörgum nýjum.

RkJQdWJsaXNoZXIy NTY0MTE=