Metfjöldi Netflixaðganga horfði á Bird Box

Streymisveitan Netflix, sem er þekkt fyrir að birta litlar sem engar upplýsingar um kerfið sitt eða áhorfstölur fyrir myndirnar og þættina sem fyrirtækið býður upp á,  hefur nú gert undantekningu á því vegna spennutryllisins Bird Box, með Söndru Bullock í aðalhlutverkinu. Netflix sagði í tísti að rúmlega 45 milljónir, eða nánar tiltekið 45.037.125 Netflix aðgangar, hefðu streymt kvikmyndinni á fyrstu sjö dögunum sem hún var í boði.

Talan er met fyrir kvikmynd sem Netflix framleiðir sjálft á fyrstu viku, samkvæmt fyrirtækinu, og sýnir vel hve kerfið nær til margra áskrifenda um allan heim.  Bird Box er á meðal umfangsmestu verkefna Netflix til þessa samkvæmt Deadline kvikmyndavefnum, og fetar í fótspor The Ballad of Buster Scruggs eftir Coen bræðurna, og Roma eftir Alfonso Cuaron, en myndirnar hafa allar verið sýndar í bíó einnig.  Þess má geta að bæði Roma og Bird Box hafa verið sýndar í Bíó Paradís við Hverfisgötu, en einungis Roma er þar enn í sýningum.

Ástæða þess að Netflix heimilaði að kvikmyndirnar yrðu sýndar í bíóhúsum, var samkvæmt Deadline, til að myndirnar ættu meiri möguleika á að vinna til verðlauna á verðlaunavertíðinni sem fer í hönd nú eftir áramót í Bandaríkjunum, og einnig til að senda skilaboð út til kvikmyndaheimsins, eins og Deadline orðar það.

Bird Box, sem leikstýrt er af Susanne Bier, fjallar um móður, sem Bullock leikur, sem fer um eyðilegt landslag, á flótta með tveimur börnum sínum, á sama tíma og mikil ógn veldur sjálfsmorðsfaraldi í heiminum.

Handritið er eftir Eric Heisserer, sem tilnefndur var til Óskarsverðlauna fyrir Arrival, en hann skrifar handritið upp úr samnefndri skáldsögu Josh Malerman frá árinu 2014. Aðrir helstu leikarar eru Trevante Rhodes ( Moonlight ) Sarah Paulson, sem lék með Bullock í Ocean´s Eight,  John Malkovich, Jacki Weaver, Danielle Macdonald, Lil Rel Howery, BD Wong, Machine Gun Kelly og Tom Hollander.

Eins og kom fram hér að ofan þá er talað um Netflix „aðganga“ sem horfðu á kvikmyndina, en ekki er vitað hve margir horfðu í gegnum hvern aðgang, né heldur er vitað hve margir hafi í raun klárað að horfa á kvikmyndina. Í Hollywood  hafa menn reynt að yfirfæra þetta áhorf yfir á bíóaðsókn, og er talið að það jafngildi frumsýningarhelgi upp á hundruði milljóna bandaríkjadala, sem er gríðarleg aðsókn, en þá er miðað við að allir sem horfðu hefðu keypt sér bíómiða á hefðbundinn hátt.