Marvel skoðar tvo maura

Framhaldsmyndir af Marvel myndunum Thor og The Avengers eru væntanlegar í bíó, Thor nú í haust og Avengers næsta sumar, en félagið er með fleiri verkefni á teikniborðinu hjá sér eins og við höfum sagt frá hér á síðunni áður.

ant man

 

Sú mynd sem undirbúin er af krafti þessa dagana er mynd leikstjórans Edgar Wright, Ant-Man, eða Mauramaðurinn í lauslegri íslenskri þýðingu.

Samkvæmt heimildum Variety kvikmyndaritsins þá keppa nú tveir leikarar um aðalhlutverkið í myndinni, en það eru kvikmyndastjörnurnar Joseph Gordon-Levitt, úr The Dark Knight þríleiknum,  og Paul Rudd, úr Prince Avalance og This is the End. 

Marvel gaf nýlega út nýjan frumsýningardag fyrir myndina, sem er 31. júlí 2015.

Það sem má lesa út úr þessum þreifingum er að leitað  er að leikara með venjulegt útlit og hnyttinn persónuleika, í staðinn fyrir að leita að vöðvastæltu ofurmenni eins og Chris Hemsworth, sem leikur Thor, eða Chris Evans, sem leikur Captain America.

Sagt er að leikararnir tveir eigi fundi með yfirmönnum hjá Marvel nú á næstunni.

Í Ant-Man teiknimyndasögunum þá er hliðar sjálf Ant-Man, Henry Pym, bráðsnjall vísindamaður sem fann upp efni sem gerði honum kleift að breyta lögun sinni.

Wright skrifar handritið í félagi við Attack the Block leikstjórann Joe Cornish.