Margar "avatarmyndir" í undirbúningi

Kvikmyndaleikarinn Channing Tatum er í þann mund að leggja af stað í mikið ferðalag stjörnukerfa á milli, en hann hefur ráðið sig í hlutverk í nýrri vísindaskáldsögu sem þeir hasarbræður Ridley og Tony Scott ætla að framleiða og ber heitið „Ion“.

Sagan segir frá manni sem ferðast til mismunandi jarða og tilverubelta, til að finna endurholdgaða ástkonu sína. Framleiðendur nota töfraorð eins og „avatar“ til að lýsa umfangi og sviði handritsins.

Ion kom til tals líka á síðasta ári, en ekki var farið af stað með myndina þá. Nú, eftir velgengni Avatar, hefur þessi mynd aftur fengið vængi.

Þess má geta að í kjölfar Avatar ævintýrisins sitja nú allir sveittir í Hollywood til að finna út hvernig þeir geta gert álíka hluti og grætt eitthvað á einhverju svipuðu og Avatar.

All you Need is Kill er til dæmis mynd sem gera á eftir skáldsögu hins japanska Hiroshi Sakurazaka. Sú saga segir frá nýjum geimverubana, sem festist í tímahringiðu þar sem hann vaknar alltaf einn dag aftur í tímann eftir að hann hefur látið lífið á vígvellinum. Doug Liman er víst komin með leikstjórnartaumana í þeirri mynd.

Mass Effect er önnur svona mynd. Mark Protosevich sem skrifaði handritið að I am Legend, og vann einnig að Thor, skrifar handritið.

Mass Effect er vísindaskáldsaga sem gerist árið 2183 og fjallar um hermann og geimskip hans, SSV Normandy. Myndin gerist í geimnum og inn í söguna fléttast geimverur af öllu mögulegu tagi, meðal annars geimverur sem allir héldu að væru löngu útdauðar.

Það er því greinilega margt spennandi í pípunum í draumaverksmiðjunni Hollywood. Geimverur, tímaflakk og endurholdgaðar ástkonur, hljómar allt mjög spennandi, ekki satt?