Lofsöngur til Húsavíkur nýtur gífurlegra vinsælda

Lagið Husavik í flutningi Molly Sandén og Wills Ferrell, er komið í 13. sæti á iTunes listanum í Bretlandi og 31. sæti í Bandaríkjunum.

Lagið er eitt af aðalnúmerum myndarinnar Eurovision Song Contest: The Story of Fire Saga. Um er að ræða lofsöng til Húsavíkur, heima aðalpersóna myndarinnar, og syngja Ferrell og Sandén (sem er söngrödd leikkonunnar Rachel McAdams) meðal annars á íslensku: „Vera með þér, í Húsavík við Skjálfanda, í heimabærinn minn“. Höfundar lagsins eru Rickard Göransson, Max Gsus og Savan Kotecha.

Eins og flestum er kunnugt spilar Ísland gríðarstórt hlutverk í myndinni og er fjöldinn allur af íslenskum leikurum í leikarahópnum. Á meðal íslenskra leikara í Eurovision eru Arnar Jónsson, Arnmundur Ernst Björnsson, Álfrún Rose, Björn Hlynur Haraldsson, Björn Stefánsson, Hannes Óli Ágústsson, Hlynur Þorsteinsson, Jói Jóhannsson, Nína Dögg Filippusdóttir og Ólafur Darri Ólafsson.

Myndin hefur hlotið misjafna dóma en er ofarlega á vinsældalista Netflix þessa stundina og kemur lítið á óvart að hún skuli vera efst á íslenska listanum.

Smelltu hér til að lesa dóm Kvikmyndir.is um Eurovision-myndina.