Listræn samsuða af drama og kómedíu

Norms er ný íslensk vefþáttaröð sem frumsýnd verður á RVK Feminist Film Festival 14. janúar næstkomandi.

Þættirnir segja frá Söru, ungri reykvískri konu sem á erfitt með að fóta sig í fyrirsjáanlegum hversdeginum. Drifin áfram af hvatvísi og sjálfseyðingarhvöt setur hún allt á hliðina, eyðileggur sambandið við unnustu sína og missir vinnuna. Til að flýja sjálfa sig og slúðrið í litla samfélaginu flytur hún ein síns liðs til Berlínar sem oft er kölluð borg hinna týndu. En vandamálin elta hana líka þangað. Hún reynir að endurskilgreina sjálfa sig og hefja nýtt líf á nýjum slóðum en hún finnur að fortíðin leitar hana uppi og áttar sig loks á að hjarta hennar varð mögulega eftir heima á Íslandi.

Í fréttatilkynningu segir að þættirnir eru listræn samsuða af drama og kómedíu og spyrja áleitinna spurninga um hvaða leið dæmigerð 29 ára manneskja á Íslandi ætti helst að fara. Niðurstaðan er kannski sú að enginn er með hlutina á hreinu eftir allt saman.

Söguhetjan reynir að vökva lífsþorstann með því að umkringja sig nýjum vinum og kunningjum á framandi slóðum en það hjálpar henni að átta sig á raunverulegum ástríðum sínum. Karakterar eru af ólíkum uppruna með fjölbreyttan bakgrunn en það sem gerir þau frábrugðin er einnig það sem sameinar þau.

Þættina skrifar Sólveig Johnsen og þeim er leikstýrt af Júlíu Margréti Einarsdóttur. Báðar eru ungir listamenn sem hafa stigið sín fyrstu skref í íslenskum bókmenntaheimi. Með aðalhlutverk fer Marta Sveinbjörnsdóttir sem hin týnda, klaufalega en afar kunnuglega Sara.

RVK Feminist Film Festival tók ákvörðun um að vera með sérflokk fyrir vefseríur til þess að geta frumsýnt þættina á hátíðinni. Júlía Margrét sem er rithöfundur menntuð í handritaskrifum, þakkar hátíðinni fyrir hugrekkið og stuðninginn en þetta er fyrsta þáttaröðin sem hún leikstýrir.

Í þáttaröðinni eru sex þættir alls, og samtals um 60 mínútur. Þeir eru teknir upp í Reykjavík og í Berlín og endurspegla jaðarlistasenuna í 101 Reykjavík og Neukölln í Berlín sem eru á margan hátt svipaðar.

Tónsmíðar spútnik tónlistarkonunnar Gaby DeSpain og Unnar Andreu framleiðanda eru mikilvægur hluti af sögusviðiðinu og er í takt við nútímalegan ungmennakúltúr í Reykjavík og Berlín. Aðalpersónan klæðist svo fatnaði sem er sérvalinn á hinum þekktu “second hand” fatamörkuðum Berlínar.

Gerð þáttanna hlaut stuðning Erasmus+ og Reykjavíkurborgar og eru framleiddir af glænýju íslensku framleiðslufyrirtæki, Lost Shoe Collective. Áður hefur fyrirtækið sent frá sér heimildarmyndina Artist Run sem fjallar um listamenn og gallerí í Reykjavík og Berlín.