Leynilögga upp fyrir Eternals

Fyrrum toppmynd íslenska bíóaðsóknarlistans, Leynilögga, eftir Hannes Þór Halldórsson, gerði sér lítið fyrir og fór aftur á topp íslenska bíóaðsóknarlistans eftir einnar viku hlé um síðustu helgi. Hún skaut þar með Marvel ofurhetjunum í Eternals ref fyrir rass, en þær hrifsuðu toppsætið af Leynilöggu helgina á undan.

Auddi grjótharður.

Tekjur Leynilöggu nema nú samtals tæplega sextíu og fimm milljónum króna frá því hún var frumsýnd fyrir fjórum vikum síðan og nálgast nú óðfluga No Time to Die í heildartekjum, en Bond myndin er með tæpar 85 milljónir króna í tekjur frá því hún var frumsýnd fyrir sex vikum síðan.

Birta með 4.100 gesti

Þriðja vinsælasta kvikmyndin á listanum, aðra vikuna í röð, er svo íslenska fjölskyldumyndin Birta, á sinni annarri viku á lista. 4.100 manns hafa nú séð myndina í bíó frá því hún var frumsýnd og tekjurnar eru 4,7 milljónir króna.

Sjáðu íslenska bíóaðsóknarlistann í heild sinni hér fyrir neðan: