Leitin að Iron Man 3 leikstjóra

Leit stendur nú yfir að leikstjóra til að koma í stað Jon Favreau, en Favreau leikstýrði hinum geysivinsælu Iron Man myndum. Fyrir jól kom í ljós að hann myndi ekki bjóða sig fram til að sitjast í leikstjórastólinn í þriðja sinn, sem margir vilja meina að sé vegna deilna á milli hans og leikarans Robert Downey Jr.

Heat Vision, dálkur innan The Hollywood Reporter, segir Shane Black koma sterklega til greina. Samkvæmt Heat Vision er enn langt í höfn en Black er sagður hafa sótt fundi með stjórnendum Marvel vegna málsins. Taki hann að sér Iron Man 3 muni hann einnig skrifa handritið, en Black er maðurinn á bak við Lethal Weapon-seríuna, ásamt því að hafa leikstýrt Downey Jr. í Kiss Kiss Bang Bang.

– Bjarki Dagur