Lara Croft vakin til lífs á ný

Graham King, framleiðandi mynda á borð við The Departed og The Town, hefur tryggt sér kvikmyndaréttinn að Tomb Raider seríunni. Tvær myndir hafa verið gerðar í Tomb Raider seríunni og fór Angelina Jolie með hlutverk Löru Croft, og festi sig þar með í sessi sem eitt mesta hörkukvendi okkar tíma.

Samkvæmt The Hollywood Reporter hefur King áhuga á að kanna uppruna persónunnar í stað þess að gera beint framhald að fyrri myndum og því ólíklegt að Jolie snúi aftur sem Croft. Tomb Raider-serían er byggð á samnefndum tölvuleikjum sem fjalla um gullfallega og eitursvala dömu sem lendir í hverju ævintýrinu á fætur öðru við leit að verðmætum og oft á tíð goðsagnakenndum hlutum.

– Bjarki Dagur