LaBeouf um framtíð Transformers og Indiana Jones

Hvort sem þú fýlar hann eða ekki hefur Shia LaBeouf aldeilis slegið í gegn undanfarin ár. Þrátt fyrir unga aldur hefur hann farið með stór hlutverk í nokkrum stærstu myndum síðari ára, en þar má helst nefna Transformers seríuna og Indiana Jones & the Kingdom of the Crystal Skull.

LaBeouf vinnur nú hörðum höndum að kynna þriðju myndina í Transformers seríunni, eða Transformers: Dark of the Moon, en í nýlegu viðtali varpaði hann ljósi á framtíð seríunnar. „Ég geri ekki aðra. Ég held að Michael [Bay] muni ekki heldur gera aðra. Þetta er mjög vinsæl sería og verður bara stærri eftir þriðju myndina. Þeir munu líklegast byrja upp á nýtt með nýju fólki.“

Ekki nóg með það heldur staðfestir leikarinn ungi sömuleiðis að hann muni taka þátt í fimmtu myndinni um töffarann Indiana Jones. „Harrison [Ford] hefur sagt mér að hann sé duglegur í ræktinni. Við höfum ekki enn fengið handrit en George [Lucas] er víst að leita að bestu mögulega sögunni.“