Kutcher á spítala eftir að hafa borðað eins og Jobs

Bandaríski leikarinn Ashton Kutcher gerði hvað hann gat til að undirbúa sig vel undir hlutverk frumkvöðulsins Steve Jobs í myndinni jOBS.

 

Kutcher segir í samtali við bandaríska dagblaðið USA today að hann hafi tekið upp mataræði sem byggðist eingöngu upp á því að borða ávexti,til að búa sig undir hlutverkið.

jOBS var frumsýnd á Sundance kvikmyndahátíðinni á föstudagskvöldið síðasta.

Þetta mataræði, sem sagt er frá í myndinni og talað er um að Jobs hafi fylgt, varð til þess að Kutcher varð að leggjast inn á spítala með briskirtils vandamál.

„Í fyrsta lagi, þá getur ávaxtamataræðið, leitt til ýmissa alvarlegra mála,“ sagði Kutcher eftir að myndin var frumsýnd. „Ég fór á sjúkrahús í tvo daga áður en við byrjuðum að taka upp myndina. Ég var að drepast úr verkjum.“

„Briskirtilsgildin voru algjörlega út úr kortinu,“ bætti Kutcher við. „Þetta var skelfilegt … í samhengi við allt og allt.“

Jobs lést úr krabbameini í brisi 5. október 2011.

jOBS er fyrri myndin af tveimur sem eru að koma út um líf Jobs. Handritshöfundurinn Aaron Sorkin er að skrifa handrit að annarri mynd sem Sony Pictures framleiða.

Jobs verður frumsýnd í bíóhúsum í apríl nk. Josh Gad leikur Steve Wozniak, sem stofnaði Apple tölvu og hugbúnaðarrisann ásamt Jobs.

Smelltu hér til að skoða atriði úr myndinni með þeim Kuthcer og Gad.

Leikstjóri myndarinnar er Joshua Michael Stern.

Í myndinni er sögð sagan af þeim Jobs og Wozniak allt frá því þeir stofnuðu fyrirtækið í bílskúr í Palo Alto í Kaliforníu ( þar sem atriði voru tekin upp fyrir myndina ) og allt þar til iPod spilarinn kemur á markaðinn árið 2001.

Kutcher undirbjó sig fyrir hlutverkið með því að horfa á hundruði klukkutíma af myndböndum af Steve Jobs, og lærði þannig m.a. að ganga lítið eitt hokinn eins og Jobs og lagaði sig að háttalagi frumkvöðulsins.

Kutcher segir að hann og Jobs hafi átt ýmislegt sameiginlegt. „Við vorum báðir með gríðarlegan áhuga á tækniheiminum.“

Í lífi sínu upplifði Jobs bæði sorgir og sigra.

„Þetta er maður sem þurfti að þola áföll en kom sér aftur í gang,“ sagði Kutcher.

„Ég held að við getum öll lært af því á einhverjum tímapunkti í lífi okkar, þegar við lendum í áfalli. Þú verður að hafa dug í þér til að standa aftur upp og halda áfram. Ég held að ég hafi þann eiginleika einnig.“

Miðar á myndina voru einir þeir allra vinsælustu á Sundance kvikmyndahátíðinni.