Kósýkvöld í kvöld?

Það er laugardagskvöld í kvöld. Ef stefnt er á bíóferð þá er fullt af góðum myndum í bíó. Gamanmyndir, spennumyndir, teiknimyndir og kínverskar myndir, svo eitthvað sé nefnt. En þeir sem vilja frekar kúra undir sæng og horfa á sjónvarpið, þá er hægt að kynna sér hér að neðan hvaða bíómyndir sjónvarpsstöðvarnar bjóða upp á í kvöld.

 

RÚV

Ghost Town

Aðalsöguhetjan er Bertram Pincus (Gervais), tannlæknir sem getur gert margt vel, en eitt af því sem hann kann alls ekki eru mannleg samskipti. Þegar hann er í ristilskoðun deyr hann skyndilega og er dáinn í alls sjö mínútur áður en það tekst að endurlífga hann, nánast fyrir kraftaverk. Eftir að Betram vaknar aftur til lífsins breytist margt á stuttum tíma hjá honum. Hann fer nefnilega að sjá drauga. Þessir draugar byrja brátt að fara verulega í taugarnar á Bertram og þá sér í lagi draugurinn Frank (Kinnear). Frank er stöðugt að angra Bertram vegna þess að hann er ósáttur við hvaða mann ekkja hans, Gwen (Leoni) er byrjuð að slá sér upp með. Frank nær á endanum að fá Bertram til að hjálpa sér að stía Gwen og kærastanum hennar í sundur, en eftir því sem Bertram á meiri samskipti við Gwen verður hann sífellt hrifnari af henni, sem boðar ekki gott í samskiptum hans við Frank…

Leikstjóri er David Koepp og meðal leikenda eru Ricky Gervais, Greg Kinnear og Téa Leoni.

The Black Dahlia

The Black Dahlia er að einhverjum hluta byggt á raunverulegum atburðum, en árið 1947 fannst lík B-mynda leikkonunnar Betty Ann Short, en henni hafði verið hrottalega misþyrmt og hún svo myrt. Málið var aldrei leyst, en í þessari mynd hefur verið fléttuð mögnuð atburðarás í kringum morðið þar sem kemur við sögu völd, ást og spilling í Hollywood á fimmta áratug síðustu aldar.

 

 

 

 

Stöð 2

Alvin og íkornarnir 2

Alvin og hinir íkornarnir eru mættir aftur í afar krúttlegri fjölskyldumynd. Í þetta sinn þurfa nýstirnin í íkornahljómsveitinni að berjast um sviðsljósið við tríó skipað þremur íkornastelpum.

 

 

 

Extraordinary Measures

Myndin er byggð á sönnum atburðum. Fraser leikur John Crowley, háttsettan mann hjá líftæknifyrirtæki og virðist eiga ekkert nema gott í vændum. Hann eignast tvö börn með stuttu millibili með eiginkonunni Aileen (Keri Russell). Hins vegar kemur fljótt í ljós að þau þjást bæði af afar sjaldgæfum sjúkdómi sem eyðileggur smám saman taugakerfi líkamans. Engin lyf eða meðferð er til við þessum sjúkdómi og eru Aileen og John miður sín, þangað til John ákveður að gera eitthvað í málunum. Hann hittir vísindamanninn Robert Stonehill (Harrison Ford), sem segist geta fundið lækningu ef hann fær til þess fjármagn, sem honum hefur ekki tekist til þessa. John ákveður að fjármagna Robert upp í topp, en leiðin til að bjarga dætrunum verður langt í frá fljótleg eða auðveld…

Leikstjóri er Tom Vauchan og helstu leikrar eru Brendan Fraser og Harrison Ford.

 Volcano

Stórslysamynd sem gerist í stórborginni Los Angeles. Yfirmaður Almannavarna þar á bæ kemst að því sér til mikillar skelfingar að undir borginni kraumar mikill hraunmassi sem er við það að brjótast fram og eldgos er yfirvofandi. Borgin fer öll á annan endann og íbúarnir reyna að bjarga sér með öllum tiltækum ráðum.

Leikstjóri er Mick Jackson og helstu leikarar eru Tommy Lee Jones, Anne Heche og Gaby Hoffman.

Bönnuð innan 12

Cold Heart

Kona uppgötvar að það að laðast að röngum manni getur haft banvænar afleiðingar. Linda lifir lífi sem virðist á yfirborðinu vera gott; hún rekur sitt eigið fyrirtæki með sóma og er hamingjusamlega gift Phil, sem er geðlæknir.
En einhver óánægja fer að læðast inn í líf Lindu og samband hennar við eiginmannin, og þegar Phil lætur Lindu ráða einn af sjúklingum hans sem aðstoðarmann þá fellur Linda í freistni í fyrsta sinn og sefur hjá aðstoðarmanninum, Sean. Daginn eftir gerir hún þau mistök að reyna að binda enda á sambandið, en Sean er ekki tilbúinn að láta hana frá sér, og brátt snýst aðdáun Sean á Lindu upp í sjúklega áráttu.

Bönnuð innan 16.

 

Death Becomes Her

Helen er rithöfundur og Madeline er leikkona. Þær hafa hatað hvora aðra í mörg ár. Madeline er gift Ernest, sem var eitt sinn kærasti Helen. Eftir að hún jafnar sig á taugaáfalli, þá heitir Helen því að hefna sín, með því að stela Ernest og drepa Madeline. Báðar hafa þær á leyni drukkið yngingarmeðal og komast að því fyrir tilviljun, þegar þær eru að reyna að drepa hvora aðra, að þær eru ódrepandi og lífið muni aldrei verða samt aftur.

Leikstjóri er Robert Zemeckis og helstu leikarar eru Goldie Hawn og Meryl Streep.

Skjár 1

Bandidas

Árið er 1848 og banki í New York vill leggja járnbraut í gegnum Mexíkó, þannig að hann kaupir upp litla banka í kringum Santa Rita, Durango, og ber út skulduga bændur sem búa á landinu þar sem járnbrautin á að liggja.
Skósveinn bankans er hinn morðóði Jackson. Hann lendir í veseni með tvær konur, María, hin harða en ómenntaða bóndadóttir, og Sara, dóttir eiganda eins bankans, menntuð í Evrópu.
Til að hjálpa fólkinu sem nú er landlaust, og til að leita hefnda, þá gerast María og Sara bankaræningar, í stíl við Hróa hött. En Jackson og byssumenn hans eru á hælunum á þeim.

Rocky

Rocky Balboa er að reyna að skapa sér nafn sem boxari, en vinnur einnig sem handrukkari fyrir lúsarlaun. Þegar þungavigtarkappinn Apollo Creed heimsækir Fíladelfíu, þá vilja hans menn setja upp sýningarleik á milli Creed og einhvers boxara sem er að reyna að skapa sér nafn sem boxari, og kynna bardagann sem möguleika fyrir einhvern sem er algjörlega óþekktur, að verða þekktur á einni nóttu. Á pappírunum er Creed öruggur sigurvegari, en einhvern gleymdi að segja Rocky það, sem sjálfur lítur á þetta sem sitt stóra tækifæri í lífinu.