Kósýkvöld í kvöld

Það er laugardagskvöld. Sumir fara bíó aðrir taka vídeó eða VOD  en hinir láta sér nægja að horfa á bíómyndirnar sem sjónvarpsstöðvarnar bjóða upp á.

Hér eru bíómyndir kvöldsins:

Stöð 2

You Again

Bróðir Marni er búinn að kynnast konu sem hann er yfir sig ástfanginn af og ætlar að giftast sem allra fyrst. Gleði Marni yfir gæfu bróður síns snýst fljótt upp í andstæðu sína þegar hún sér konuna; fyrrum erkióvin sinn úr menntaskóla, Joönnu sem gerði henni lífið leitt á hverjum degi. Hún einsetur sér því að koma bróður sínum í skilning um raunverulegt eðli unnustunnar, og hikar ekki við að beita öllum mögulegum ráðum. Svo flækjast málin enn frekar þegar móðir systkinanna, Gail kemst að því að Ramona, eldri frænka Joönnu, er erkióvinur hennar frá þeim tíma þegar hún sjálf var í menntaskóla…

Death Becomes Her

Gamanmynd með Meryl Streep, Bruce Willis og Goldie Hawn.
Helen er rithöfundur og Madeline er leikkona. Þær hafa hatað hvora aðra í mörg ár. Madeline er gift Ernest, sem var eitt sinn kærasti Helen. Eftir að hún jafnar sig á taugaáfalli, þá heitir Helen því að hefna sín, með því að stela Ernest og drepa Madeline. Báðar hafa þær á leyni drukkið yngingarmeðal og komast að því fyrir tilviljun, þegar þær eru að reyna að drepa hvora aðra, að þær eru ódrepandi og lífið muni aldrei verða samt aftur.

The Girl and the Gambler

Vestri með Dean Cain og James Tupper.

Shea McCall er tungulipur og vel klæddur bragðarefur upp úr 1860. Hann eignast hálfan búgarð fyrir utan smábæ. En heppni hans er á sama tíma ólán byssumannsins B.J. Stoker, sem á hinn helming búgarðsins, en hann er hálfpartinn farinn á eftirlaun.
Stoker hugsar ekki hlýtt til nýja mannsins, og enn síður þegar hann fer að heilla starfsmenn búgarðsins upp úr skónum. Stoker fer síðan að klæja enn meira í gikkfingurinn þegar McCall gerir sig líklegan til að heilla fallegu ekkjuna á næsta bæ, Liz Calhoun.
En svo gerist það að mexíkóskir ribbaldar gera árás á þá í þeim tilgangi að leggja undir sig landið þeirra, og þá sameinast þeir í baráttunni við þessa nýju óvini.

Get him to the Greek

Aaron Green er metnaðarfullur dugnaðarforkur sem kemst í starfsþjálfun hjá útgáfufyrirtæki. Hann fær tækifæri til að sanna sig þegar hann er sendur til London til að fylgja rokkgoðinu Aldous Snow til LA þar sem hann á að spila í The Greek Theatre og hefja þar með milljóna dollara tónleikaferð sem plötuútgáfan reiðir sig á. Verkefnið reynist ekki eins auðvelt og Jonah hélt í fyrstu, það varaði hann enginn við því að snúa aldrei bakinu í Aldous Snow…og hann hefur einungis tvo daga til stefnu.

Skjár einn

History of the world part 1

Saga mannkyns, allt frá upphafi tíma til fjarlægrar framtíðar, er hér kortlögð, oft á fáránlegan hátt. Myndin sýnir okkur hvað raunverulega gerðist í síðustu kvöldmáltíðinni, hver er sannleikurinn á bakvið rómversku keisarana, hverjar voru hinar raunverulega kringumstæður þegar franska byltingin átti sér stað og í hvernig skóm rannsakendur við spænska rannsóknarréttinn voru.

 

Creation

Mynd um merkismanninn Charles Darwin og vinnu hans við eitt merkasta rit mannkynssögunnar, Uppruna tegundanna. Þegar Darwin kemur fram með hugmyndir sínar um tengsl manna og apa falla þær illa í kramið hjá kirkjunnar mönnum og ekki síður hjá hinni strangtrúuðu eiginkonu hans, sem kann illa við að Darwin skuli vera að grafa undan kennisetningu kirkjunnar.

RÚV.

Baby Mama

Framakonan Kate Holbrook hefur lengi tekið starfið fram yfir einkalífið og er einhleyp. En nú er hún orðin 37 ára og vill eignast barn. Þá fær hún að vita að næstum engar líkur eru á því að hún geti orðið ófrísk en hún deyr ekki ráðalaus og ræður verkakonu til að ganga með barnið fyrir sig. Svo fer hún að búa sig undir móðurhlutverkið en dag einn dúkkar staðgöngumóðirin upp og flyst inn til hennar og þá mætast stálin stinn.

Man About Town – Andstreymi úr öllum áttum.

Umboðsmaður í Hollywood lendir í hremmingum. Hann kemst að því að konan hans heldur fram hjá honum og svo stelur blaðamaður dagbókinni hans og hótar að fletta ofan af honum. Bandarísk bíómynd frá 2006. Atriði í myndinni eru ekki við hæfi ungra barna.

Borowski og fjórði maðurinn – Tatort: Borowski und der 4. Mann

Í þessari þýsku sakamálamynd fæst Klaus Borowski, lögreglufulltrúi í Kiel, við snúið mál eftir að mannsfótur finnst í dýragildru í nágrenni borgarinnar. Í fyrstu grunar Borowski að herskáir dýraverndarsinnar beri ábyrgð á ódæðinu vegna þess að á svæðinu höfðu verið skipulagðar ólöglegar bjarnaveiðar. En svo finnast fleiri líkamshlutar…