Kósýkvöld í kvöld?

Það eru bíómyndir á öllum þremur stóru sjónvarpsstöðvunum íslensku í kvöld, þannig að það er grundvöllur fyrir góðu kósýkvöldi fyrir framan skjáinn, fyrir þá sem ekki hafa annað á prjónunum.

Hér að neðan er yfirlit yfir bíómyndirnar sem eru í sjónvarpinu í kvöld:

Skjár 1

Flawless

Glæpamynd sem gerist árið 1960 í London. Húsvörður sannfærir bandarískan forstjóra til að hjálpa honum að stela demöntum frá vinnuveitanda þeirra beggja.

Rocky IV

Bandarísk kvikmynd frá árinu 1985. Apollo Creed stígur aftur fram á sjónvarsviðið eftir að hafa skorað á sovéskan boxara að nafni Ivan Drago. Eftir mikinn ósigur sem endar á óhugnanlegan hátt, ákveður Rocky að slást við Drago á hans eigin heimavelli í Moskvu sósíalismans.

RÚV

Mama´s Boy

Gamanmyndin Mama‘s Boy segir frá hinum afar sérstaka, ósjálfstæða og 29 ára gamla Jeffrey Mannus (Jon Heder), en hann býr ennþá inni á móður sinni, Jan (Diane Keaton). Hann sér ekki nokkra ástæðu fyrir því að breyta þessu fyrirkomulagi, en hinu „ljúfa“ lífi Jeffreys er einn daginn ógnað þegar Jan hittir námskeiðshaldarann Mert (Jeff Daniels). Mert heillar Jan upp úr skónum og flytur heim til hennar, en það á Jeffrey erfitt með að sætta sig við. Jeffrey fær Noru (Anna Faris), efnilega söngkonu, til liðs við sig í baráttunni um að eiga áfram einn aðgang að móður sinni, en Nora ber hins vegar tilfinningar til Jeffrey sem hann veit ekki af. Eftir því sem stríðið á milli Mert og Jeffrey tekur svo á sig sífellt drastískari mynd, gerist nokkuð óvænt; sér til undrunar og skelfingar fer Jeffrey smám saman að kynnast því að vera fullorðinn…

Leikstjóri er Tim Hamilton og meðal leikenda eru Diane Keaton, Jon Heder, Jeff Daniels og Anna Faris.

W.

George W. Bush fyrrum forseti Bandaríkjanna er einn af umdeildustu stjórnmálamönnum síðari ára. Myndin segir frá lífi hans áður en hann varð forseti, og hefst á uppvaxtarárum hans í háskóla, þar sem hann hugsaði meira um félagslíf, kvenfólk og partístand fremur en námið sjálft, hvað þá einhvern pólitískan frama. Margt breytist þó í lífi hans þegar hann kynnist Lauru Bush. Þegar háskólanum slítur reynir hann við ýmsar vinnur, en tekst misvel upp, og virðist hann alltaf í öðru sæti í augum föður síns, George H.W. Bush, sem heldur meira upp á Jeb, bróður hans, enda þar á ferð reglusamur maður á uppleið í stjórnmálaheiminum. Fylgjumst við einnig með ótrúlegum uppákomum sem hann á að hafa lent í á lífsleiðinni, og er endanlegri vegferð hans í valdamesta sæti veraldarinnar blandað inn í söguna. Er reynt að svara því hvernig þetta partíljón varð að lokum að sjálfum forseta Bandaríkjanna.

Leikstjóri er Oliver Stone og meðal leikenda eru Josh Brolin, Toby Jones, Elizabeth Banks, Jeffrey Wright, Thandie Newton, Scott Glenn og Richard Dreyfuss.

Atriði í myndinni eru ekki við hæfi ungra barna.

Stöð 2

Repo Men

Repo Men gerist í framtíðinni og gerist í heimi þar sem er búið að þróa mannkynið svo langt að hátæknifyrirtækið The Union selur og leigir gervilíffæri til að bæta heilsu fólks. Það er hins vegar dökk hlið á þessari þróun, þar sem fyrirtækið hikar ekki við að senda menn út af örkinni til að „endurheimta“ líffærin missi leigjandinn af afborgun á því. Einn af þessum mönnum er Remy (Jude Law), en hann er einn sá besti í bransanum. Einn daginn fær Remy hjartaáfall í vinnunni og vaknar eftir það með gervihjarta af nýjustu tegund, sem og himinháa skuld vegna þess. Þetta hefur þau áhrif að hann verður afhuga starfinu og fer brátt að hætta að sinna verkefnum sínum, en það þýðir að hann hættir fljótt að eiga fyrir afborgunum af hjartanu. Þá sendir fyrirtækið Jake (Forest Whitaker), harðskeyttasta útsendara sinn og fyrrum félaga Remy, á eftir honum til að endurheimta hjartað...

Leikstjóri er Miguel Sapochnik

Helstu leikarar eru Forest Whitaker og Jude Law.

Any Given Sunday

Raunsönn kvikmynd um lífið í ameríska fótboltanum, utan vallar sem innan. Tony D’Amato er gamalreyndur jaxl í þessum bransa. Hann þjálfar nú lið í Miami og leggur allt í sölurnar til að ná árangri. Sigurlíkurnar eru ekki miklar enda besti leikmaðurinn frá vegna meiðsla. En þrátt fyrir dökkt útlit er þjálfarinn ekki tilbúinn að leggja árar í bát.

Leikstjóri er Oliver Stone

Helstu leikarar eru Al Pacino, Cameron Diaz og James Woods

 Terminator Salvation

Eftir að Skynet hefur eytt öllu mannkyni lifa þó enn lítill hópur manna sem John Connor (Christian Bale) leiðir til að berjast gegn vélmennunum.

Helstu leikarar eru Christian Bale, Helena Bonham Carter og Sam Worthington

The Russell Girl

Áhrifamikil mynd um unga konu sem vitjar heimahaganna til að deila nýjum fréttum með fjölskyldunni en endar í staðinn á að þurfa að gera upp fortíðina.

Leikstjóri er Jeff Bleckner

Helstu leikarar eru Amber Tamblyn og Jennifer Ehle