Kósýkvöld í kvöld?

Það er komin föstudagur aftur. Þeir sem fara ekki út á lífið í kvöld, kúra væntanlega bara uppi í sófa og kveikja á sjónvarpinu, í þeirri von að þar sé boðið upp á góðar bíómyndir.

Hér að neðan er samantekt á þeim bíómyndum sem eru í boði á RÚV og Stöð 2, og stiklur úr öllum myndunum. Að vanda býður Skjár einn ekki upp á bíómyndir á föstudagskvöldum.

RÚV

The Rolling Stones – Crossfire Hurricane

Heimildamynd um rokkhljómsveitina The Rolling Stones og ævintýralegan feril hennar. Rætt er við núverandi hljómsveitarmeðlimi, þá Mick Jagger, Keith Richards, Charlie Watts og Ronnie Wood, fyrrverandi meðlimina Bill Wyman og Mick Taylor og sýnd fáséð viðtöl við Brian sáluga Jones. Auk þess eru sýndar upptökur frá tónleikum og gamlar fréttamyndir sem tengjast sögu hljómsveitarinnar. Höfundur myndarinnar er Brett Morgen en ensk heiti hennar, Crossfire Hurricane er sótt í texta lagsins Jumping Jack Flash.

In My Country

Langston Whitfield er blaðamaður á Washington Post. Ritstjórinn sendir hann til Suður-Afríku að fylgjast með yfirheyrslum Sannleiks- og sáttanefndarinnar. Þar er morðingjum og nauðgurum frá tíma aðskilnaðarstefnunnar boðið að stíga fram og biðjast afsökunar og segi þeir sannleikann undanbragðalaust og iðrist af heilum hug kann þeim að verða veitt sakaruppgjöf. Duga sáttaumleitanir til þess að sárin eftir aðskilnaðarstefnuna grói? Langston efast um það. Hann hefur uppi á De Jager ofursta, alræmdum pyntingahrotta lögreglunnar og reynir að skyggnast inn í huga skrímslisins en um leið verður hann að takast á við sín eigin sálarmein. Anna Malan er skáld sem fjallar um yfirheyrslurnar í útvarpi. Hún er hvítur Suður-Afríkubúi og frásagnir af grimmd og glæpum landa hennar fá mjög á hana.

Leikstjóri er John Boorman og meðal leikenda eru Juliette Binoche, Samuel L. Jackson og Brendan Gleeson.

Atriði í myndinni eru ekki við hæfi ungra barna.

 

Stöð 2

Dodgeball: A True Underdog Story

Í myndinni er gert  stólpagrín að íþróttamyndum, allt frá Rocky til Karate Kid. Nýja æðið er skotbolti – íþrótt fyrir þá sem ekkert kunna í íþróttum. Vaughn og Stiller leika erkifjendur og samkeppnisaðila. Vaughn er hálfgerður tapari sem setur saman skotboltalið og mætir í æsilegri keppni íþróttafríkinni og kaupsýslumanninum sjálfumglaða White Goodman, með kostulegri útkomu

Leikstjóri: Rawson Marshall Thurber

Leikarar: Ben Stiller; Rip Torn; Vince Vaughn; Christine Taylor

Crank: High Voltage

Crank: High Voltage tekur upp þráðinn nákvæmlega þar sem atburðum fyrstu Crank-myndarinnar sleppti, eða þar sem Chev Chelios (Jason Statham) fellur í jörðina eftir himinhátt fall úr flugvél. Hann lifir af, en er rænt af kínversku glæpagengi. Þeir koma honum fyrir á skurðarborði til að ræna úr honum líffærunum, sérstaklega hinu gífurlega sterka hjarta hans. Skipta þeir því út fyrir rafmagnsknúið hjarta, en þegar hann kemur til meðvitundar þarf hann að hafa uppi á genginu (og hjartanu), en vegna hjartans þarf hann stöðugt að fá rafmagn í líkamann til halda sjálfum sér á lífi, og það er meira en að segja það, þegar maður er í hættulegum eltingaleik á sama tíma.

Leikstjóri: Mark Neveldine; Brian Taylor

Leikarar: Dwight Yoakam; Amy Smart; Jason Statham

Bönnuð innan 16.

Magnolia

Hér segir frá 8 mismunandi einstaklingum sem eiga mismikið sameiginlegt en vegir þeirra stangast á áður en langt um líður. Kvikmyndin Magnolia lýsir einum sólarhring í lífi nokkurra ólíkra einstaklinga í Los Angeles. Þeir eru allir að kljást við líf sitt og aðstæður í sundurlausum veruleika firringarinnar í hinu svonefnda postmodern-samfélagi. Hér raðast saman níu svipmyndir eða sögur af þessu fólki sem gengur misvel – eða illa að fóta sig í óreiðunni og smám saman sést hvernig það tengist innbyrðis í öllu sambandsleysinu. Myndin hefst á eins konar formála sem hefur að geyma þrjár stuttar sögur af furðulegum atvikum. Þær varpa fram spurningunni um hvort ótrúlegir atburðir hafi í raun gerst og þá hvort um tilviljun hafi verið að ræða eða ekki. Þeirri hugsun er síðan fylgt eftir í Magnoliu.

Einstaklingarnir sem Magnolia greinir frá tengjast í raun beint eða óbeint í gegnum sjónvarpsþátt sem kallast „What Do Kids Know?„. Þar er um að ræða spurningaleik milli barna og fullorðinna. Framleiðandi þáttanna er Earl Partridge en hann liggur fyrir dauðanum af völdum krabbameins. Hann þjáist einnig vegna framkomu sinnar gagnvart fyrri konu sinni og syni. Seinni kona Earls, Linda, er töluvert yngri en hann og hafði upphaflega gifst honum til fjár. Hún hafði haldið framhjá honum en á nú erfitt með að horfast í augu við dauða hans vegna þess að hún er farin að elska hann. Sá sem annast Earl á banalegunni er hjúkrunarfræðingur að nafni Phil Parma. Earl biður hann að koma sér í samband við son sinn, Frank T.J. Mackey, sem hann hafði hvorki séð né heyrt í mörg ár. Frank heldur námskeið og framleiðir myndbönd handa karlmönnum um það hvernig þeir geti komist yfir konur og gert þær sér undirgefnar. Stjórnandi spurningaleiksins „What Do Kids Know?“ til margra ára er Jimmy Gator. Hann er einnig að deyja úr krabbameini en er ekki eins langt leiddur og Earl. Samband hans við dóttur hans, Claudiu, er í molum og hún vill ekkert af honum vita vegna þess að hann hafði misnotað hana kynferðislega þegar hún var yngri. Claudia er eiturlyfjasjúklingur með ónýta sjálfsmynd og ræður engan veginn við líf sitt. Lögreglumaður að nafni Jim Kurring kemur í íbúð hennar vegna kvörtunar um hávaða frá nágrönnum og endar með því að bjóða henni út að borða. Hann er einlæglega trúaður og leitast við að framganga samkvæmt því. Tveir þátttakenda í „What Do Kids Know?“ koma einnig við sögu. Annars vegar Stanley Spector, ungur drengur sem er afburða gáfaður, en er fyrst og fremst notaður af föður sínum til að græða peninga með þátttökunni í spurningaleiknum. Hins vegar er það Donnie Smith sem hafði unnið í spurningaleiknum þrjátíu árum fyrr en foreldrar hans höfðu notað hann á svipaðan hátt og stolið af honum allri vinningsupphæðinni. Honum gengur illa að fóta sig í tilverunni og missir m.a. vinnuna. Allt er þetta fólk á einhvern hátt þjakað af aðstæðum sínum og fortíð og því gengur illa að fást við líf sitt og tilgang þess og samskipti við samferðafólk. Afleiðingarnar eru ýmist flótti frá raunveruleikanum eða örvænting og vonleysi.

Leikstjóri: Paul Thomas Anderson

Leikarar: Tom Cruise; William H. Macy; Julianne Moore; John C. Reilly

Bönnuð innan 12.

Rambo

First Blood, fyrsta myndin um John J. Rambo, segir frá því þegar hann kemur aftur til Bandaríkjanna eftir að hafa barist og unnið miklar hetjudáðir í Víetnam. Er hann sæmdur heiðursorðu en fortíðin ásækir hann bæði í svefni og vöku. Hann ferðast til Hope í Washington-fylki til að heilsa upp á gamlan vin, en honum er vísað burt úr bænum af lögreglustjóranum William Teasel, sem tekst að móðga Rambo svo mikið að hann missir algerlega stjórn á sjálfum sér og er handtekinn. Hann flýr úr fangelsinu og leggur í framhaldinu á flótta undan laganna vörðum, með blóðugum afleiðingum…

Leikstjóri: Sylvester Stallone

Leikarar: Sylvester Stallone; Julie Benz; Matthew Marsden

Bönnuð innan 16.