Jogia verður maður í Zombieland 2

Framhald grín uppvakningamyndarinnar skemmtilegu Zombieland frá árinu 2009 hefur lengi verið á teikniborðinu, en nú er loksins kominn mikill skriður á verkefnið með tilheyrandi ráðningum leikara í helstu hlutverk.

Nú segir Empire frá því að tökur myndarinnar eigi að hefjast í næsta mánuði, og búið sé að ráða Avan Jogia í hlutverk í myndinni.

Leikstjóri er Ruben Fleischer, sá sami og leikstýrði fyrri myndinni, og sömu handritshöfundar eru einnig mættir til starfa, þeir Rhett Reese og Paul Wernick. Þá eru aðalleikarar fyrri myndarinnar sömuleiðis búnir að stimpla sig inn,  þau Woody Harrelson, Emma Stone, Jesse Eisenberg og Abigail Breslin.

Í myndinni mæta uppvakningabanarnir fræknu nýrri tegund uppvakninga, sem hafa þróast frá því upprunalega myndin var frumsýnd, auk þess sem þau þurfa að takast á við venjulegt mannfólk sem lifði af uppvakningapláguna sem fór sem eldur í sinu um Jörðina, og eirði engu.

Einn af þessu fólki er Berkley, sem Jogia leikur, en hann er sagður vera töffari og tónlistarmaður, og mikill kvennamaður. En lítt traustur.

Nýlega bættist Zoey Deutch líka við leikhópinn.

Von er á myndinni í bíó 11. október nk.

Fyrir þá sem vilja berja Jogia augum nú á næstunni, þá mun hann sjást í myndinni Son of Shaft, sem frumsýnd verður ytra 14. janúar.