Javier Bardem við það að hreppa Dark Tower

Í viðtali við MTV lét framleiðandinn Brian Grazer það í ljós að Javier Bardem væri nálægt því að hreppa aðalhlutverkið í Dark Tower-seríunni sem nú er verið að vinna í. Bardem færi með hlutverk byssugarpsins Roland Deschain.

„Javier er nánast staðfestur. Hann vill gera þetta og við erum mjög spenntir.“ sagði Grazer. Aðspurður hvort aðrir leikarar kæmu enn til greina svaraði hann, „Við erum að einbeita okkur að Javier núna.“

Eins og áður hefur komið fram verður The Dark Tower serían byggð á samnefndum bókum frá hrollvekjumeistaranum Stephen King. Leikstjórinn Ron Howard og handritshöfundurinn Akiva Goldsman undirbúa nú heldur viðamikla seríu, en The Dark Tower verður fyrsta myndin í þríleik. Á eftir hverri mynd í þríleiknum verður svo framleidd sjónvarpssería sem mun brúa bilið á milli kvikmyndanna.

Á meðal annarra leikara sem voru sagðir líklegir til að hreppa hlutverkið voru Viggo Mortensen og Christian Bale.

– Bjarki Dagur