Javier Bardem boðið að leika Bond

Flestir eru sammála um að spænski Óskarsverðlaunaleikarinn Javier Bardem standi sig frábærlega í hlutverki illmennisins Raoul Silva, í James Bond myndinni Skyfall.

Fáir vita hinsvegar að Bardem var eitt sinn boðið að leika sjálfan James Bond 007. 

Blaðamaður Cinemablend.com vefsíðunnar átti spjall við leikarann þar sem hann svaraði þeirri spurningu játandi, hvort honum hefði einhverntíman boðist að leika sjálfan Bond.

„Fyrir mörgum árum, þá var mér boðið það. Ég man ekki fyrir hvaða mynd það var. En já, það var bara ekki rétti tíminn. Mér fannst það ekki tímabært á þeim tíma. Ég var einnig upptekinn í öðrum verkefnum á þeim tíma, þannig að ég hafnaði því. […]“

Spurður að því hvort hann sæi eftir ákvörðuninni segir Bardem:  „Nei, ég hef hafnað mörgum hlutum sem ég gæti auðveldlega séð eftir, en ég sé ekki eftir neinum þeirra, því það hefur gefið færi á öðrum góðum hlutum sem ég er stoltur af. […]“