Húmor og sprengingar í fyrstu Baywatch stiklu

Húmorinn og hasarinn eru allsráðandi í fyrstu stiklu fyrir nýju Strandvarðamyndina ( Baywatch ) og talsvert er einnig gert út á líkamlegt atgervi leikaranna, hvort sem það eru þeir Dwayne Johnson og Zac Efron eða leikkonan Alexandra Daddario svo einhver séu nefnd.

Tónninn í myndinni virðist sem sagt vera nokkuð frábrugðinn tóninum í hinum geysivinsælu Baywatch þáttum sem sýndir voru á tíunda áratug síðustu aldar, þar sem strandverðir, með þau Pamela Anderson og David Hasselhoff í broddi fylkingar, hlupu í hægri sýningu eftir ströndinni og björguðu fólki sem var í nauðum statt.

baywatch-2

Nýverið var frumsýningu Baywatch frestað um eina viku, en Paramount framleiðslufyrirtækið hefur líklega tekið þá ákvörðun til að hún myndi ekki rekast á Ridley Scott myndina Alien: Covenant, en frumsýningu hennar var flýtt til 19. maí á næsta ári, sem er upphaflegur frumsýningardagur Baywatch.

Baywatch fjallar um metnaðarfullan strandvörð, Mitch Buchannon, sem Johnson leikur ( sem Hasselhoff lék í þáttunum ) sem lendir upp á kant við nýliðann Matt Brody, sem Efron leikur. Þeir neyðast þó til að starfa saman til að koma í veg fyrir samsæri sem ógnar lífinu á ströndinni.

Með hlutverk persónunnar sem Anderson lék í þáttunum, C.J. Parker,  fer Kelly Rohrbach. Hasselhoff og Anderson munu bæði leika gestaleik í myndinni.

Illmenni myndarinnar er Bollywood stjarnan Priyanka Chopra.

Upprunalegu sjónvarpsþættirnir fóru fyrst í loftið árið 1989, og slógu í gegn um allan heim snemma á tíunda áratugnum þegar Pamela Anderson og Yasmine Bleeth bættust í hóp leikara í annarri þáttaröð. Þátturinn gekk til ársins 2001, og gerð var hliðarmyndin Baywatch Nights, þar sem Hasselhoff lék eitt hlutverkanna.

Leikstjóri Baywatch myndarinnar er sá sami og leikstýrði gamanmyndinni Horrible Bosses, Seth Gordon, en myndin er væntanleg í bíó í Bandaríkjunum, og líklega hér á landi einnig, 26. maí nk.

Kíktu á spengilega kroppa, sprengingar og hasar í stiklunni hér fyrir neðan: