Hrollvekja krufin í nýju hlaðvarpi

Leikskáldið og handritshöfundurinn Heiðar Sumarliðason er byrjaður með nýtt podcast, eða hlaðvarp eins og það er gjarnan kallað á ástkæra ylhýra málinu. Hlaðvarpið heitir Rauð síld, en í upphafi fyrsta þáttarins rekur Heiðar aðeins heiti á sambærilegum kvikmyndaþáttum í gegnum tíðina og kvartar í léttum dúr undan því að búið sé að nota alla þá helstu, eins og Ræman og Taka tvö.

Í þáttunum kryfur Heiðar til mergjar ásamt gestum sínum nýjar kvikmyndir og sjónvarpsþætti. Í fyrsta þættinum er gestur leikarinn Bjartmar Þórðarson, en saman fara þeir í saumana á hrollvekjunni Hereditary, sem sjá má í bíó þessa dagana, og einnig er tæpt á væntanlegum hryllingsmyndum.

Fyrir kvikmyndaáhugamenn er mjög gaman að hlusta á spjallið, enda velta þeir fyrir sér mörgum smáatriðum sem menn klóra sér gjarnan í höfðinu yfir þegar horft er á kvikmyndir, en í tilfelli Hereditary velta þeir til dæmis fyrir sér útliti barns í myndinni, trúmálum, muninum á viðbrögðum gagnrýnenda og áhorfenda ofl. ofl.

Í samtali við kvikmyndir.is segir Heiðar að í næsta þætti verði teknir fyrir sjónvarpsþættir, og viðmælandi verði Kristján Kristjánsson kvikmyndagerðarmaður. Í næstu viku mun nýja Mission: Impossible kvikmyndin verða krufin ásamt handritshöfundinum og námsstjóra Kvikmyndaskóla Íslands, Hrafnkeli Stefánssyni.

Í fjórða þætti verður svo viðtal við eina af íslensku Hollywood stjörnunum,  Alpha leikarann Jóhannes Hauk Jóhannesson, en Heiðar mun ræða við leikarann um þær kvikmyndir og sjónvarsþætti sem hann er búinn að vera að leika í að undanförnu.

Hægt er að gerast áskrifandi að hlaðvarpinu á iTunes eða fara beint á Soundcloud og hlaða niður.

Hér fyrir neðan er hægt að hlusta á þáttinn, en hann er rúmlega klukkutímalangur: