Hobbs og Shaw í Fast and Furious hliðarmynd?

Universal framleiðsluverið, hyggur nú á gerð hliðarmyndar ( spin-off ) af hinni geysivinsælu Fast and Furious 8, sem er að slá öll met í miðasölunni. Hugmyndin er að myndin muni fjalla um tvær persónur myndarinnar, þá Luke Hobbs, sem Dwayne Johnson leikur, og Decker Shaw, sem Jason Statham leikur. Annað mál er hinsvegar hvernig í ósköpunum kvikmyndaverið ætlar að troða þessari kvikmynd inn í þéttbókaða dagskrá Johnson!

Það er skiljanlegt að stjórnendur Universal leiti nú allra leiða til að notfæra sér gríðarlegar vinsældir Fast and Furious 8, og mynd með þessum tveimur köppum gæti einmitt verið málið, enda er persóna Statham ein skemmtilegasta persóna myndarinnar, og neistinn á milli þeirra tveggja er að gera sig mjög vel.

Málið er enn á byrjunarstigi, en heimildir Deadline kvikmyndavefjarins herma að  nú þegar hafi verið haldnir fundir um málið og Chris Morgan, yfirhandritshöfundur seríunnar, muni skrifa handritið.

Persóna Johnson kom fyrst við sögu í Fast and Furious í mynd númer fimm, og Statham lék fyrst í mynd númer sex. Báðir byrjuðu þeir sem andstæðingar kjarnahópsins, en urðu síðar hluti af aðal teyminu.