The Hitmans’s Bodyguard: Spenna, grín og pínuponsu rómans

Það kemur ekki á óvart þegar Samuel L Jackson og Ryan Renolds leika saman í mynd að útkoman verði góð. Í The Hitman´s Bodyguard er fléttað saman gríni, spennu og pínuponsu rómans og ættu áhorfendur að geta gengið út með bros á vör.

Í stuttu máli fjallar myndin um lífvörðinn Michael (Ryan) sem tekur að sér að vernda og koma Darius (Samuel) í réttarsal svo Darius geti gefið vitnisburð sinn í máli Vladislav (Gary Oldman). Michael er lofað að ef hann og Darius koma á áfangastað á ákveðnum tíma þá muni Interpool hjálpa til við að koma frama Michaels sem lífvarðar á beinu brautina aftur. Málið er hins vegar að Michael og Darius hafa eldað grátt silfur saman í fjölda mörg ár og á Michael í miklum erfiðleikum með að fá Darius til að fylgja öryggisreglunum. Leiðinlegt er alltaf best er mottó Michaels en það á ekki við í þessari mynd. Þeir tveir líta heiminn ólíkum augum og útkoman er oft á tíðum sprenghlægileg. Á meðan Michael vill fara eftir ákveðnu plani þá spilar Darius meira eftir eyranu. Þegar líður á myndina fara þeir þó að vinna betur saman en alltaf með einhverjar hártoganir. Vladislav mun losna úr fangelsi ef Darius kemst ekki á áfangastað og hefur lagt mikið uppúr að koma Darius fyrir kattanef og er því lítið um rólegar stundir hjá Michael og Darius.

Samuel L Jackson nýtur sín vel í þessari mynd. Hann fær að vera með mikinn kjaft og er frjálslegur í fasi. Ryan Renolds kemur kannski ekki mikið á óvart, hann stendur sig nokkuð vel í myndinni en er þó aðeins í skugganum af Samuel. Gary Oldman og Salma Hayek eiga stórleik í myndinni þó hlutverk þeirra séu ekki stór. Gary sem siðspiltur einræðisherra (rússneski hreimurinn hans er stórgóður) og Salma sem eiginkona Darius sem hræðist ekki neitt – af öllum harðjöxlum í myndinni er Salma sú besta. Það skemmtilega við þessa mynd er að hún gerist í Evrópu en ekki í einhverri stórborg Bandaríkjanna, eins og ég bjóst við þegar myndin byrjaði. Það er blótað á ensku, frönsku og hollensku sem er skemmtileg tilbreyting og sjónarsviðið er öðruvísi.

Ég gafst uppá að telja mannfallið í myndinni en það er nokkuð mikið. Það er nóg af flottum og spennandi kappökstrum, slagsmálum og sprengjum í myndinni en það jafnast ekkert á við þegar persónur Ryans og Samuel jagast um hvort fari eigi til vinstri eða hægri. Það mun ekki koma mér á óvart að það verði gerð mynd númer 2 því þessi mynd tókst nokkuð vel.

Ása Bílddal.