Hetjunni verður breytt

Leikstjóri ævintýramyndarinnar Sonic the Hedgehog, lofar breytingum, eftir að hávær gagnrýni á stiklu myndarinnar upphófst.
„Skilaboðin eru skýr,“ sagði Jeff Fowler á Twitter. „Þið eruð ekki ánægð með útlitið og þið viljið breytingar. Það mun gerast. Allir hjá Paramount og Sega eru áfram um að gera persónuna eins GÓÐA og hægt er.“

Fowler sem er tæknibrellusérfræðingur, og þreytir frumraun sína sem leikstjóri í myndinni, bætti við myllumerkinu #gottafixfast, til að undirstrika orð sín.

Fyrsta stiklan úr myndinni kom á netið fyrr í vikunni, og uppskar háværar háðsglósur netverja.

Notendur á samfélagsmiðlum kvörtuðu yfir útliti aðal söguhetjunnar, og bentu á að hún væri með tennur eins og manneskja. Tölvuleikjasíðan Kotaku safnaði saman helstu viðbrögðunum, og má sjá þau með því að smella hér.

Fowler tilgreindi ekki í smáatriðum hvaða breytingar hann hygðist gera, en myndin er væntanleg í bíó hér á Íslandi og annars staðar 8. nóvember nk.