Harður en heillandi yfirmaður

Sex, Lies and Videotape leikarinn Peter Gallagher er nýjasta viðbótin í leikarahóp sjónvapsþáttanna Law & Order: SVU, sem sýndir hafa verið hér á landi og notið mikilla vinsælda.

peter gallagher

Leikarinn, sem hefur leikið bæði í kvikmyndum, sjónvarpsþáttum og í leikhúsi, mun fara með hlutverk lögreglustjórans William Dodds, heillandi en eitilharðs yfirmanns sem fer með yfirstjórn allra kynferðisbrotamála í New York. Hann krefst virðingar og dugnaðar af starfsfólki sínu, og er vanur að fá það sem hann vill.

 

„Ég hef viljað vinna með Peter Gallagher síðan …. ég veit ekki hvenær,“ sagði SVU framleiðandinn Warren Leight. „Hann er leikara leikari, fer vel með texta og er einnig leikinn þegar enginn texti er, og þarf að sýna tilfinningar og innsæi. Eins og aðrir í okkar leikarahópi þá er hann einnig frábær söngvari. Við erum öll himinlifandi að fá hann í okkar raðir.“

Gallagher er þekktur fyrir leik í myndum eins og American Beauty, sjónvarpsþáttum eins og The O.C. og í Broadway uppfærslum eins og Hair og Guys and Dolls.

Þættirnir, sem nú eru að hefja sitt 16. tímabil í bandarísku sjónvarpi, byrja í sýningum þann 24. september nk.