Gru í alsælu úthverfis – Stikla nr. 2 úr Aulinn ég 2

Árið 2010 gerði Illumination Entertainment fyrirtækið teiknimyndasmellinn Despicable me, eða Aulinn ég eins og myndin heitir í íslenskri þýðingu. Myndin fjallaði um hið svívirðilega illmenni Gru, sem Steve Carell talaði fyrir, sem breyttist úr harðsvíruðum glæpamanni í ástríkan föður, og sigraði hug og hjörtu gagnrýnenda og áhorfenda um allan heim. Velgengni myndarinnar leiddi til þess að fljótlega eftir frumsýningu var tilkynnt um framhald, auk þess sem fljótlega var einnig tilkynnt um sérstaka framhaldsmynd fyrir litlu gulu bullukollana, skósveina Grus, en sú mynd kemur í bíó á næsta ári, eins og við höfum sagt frá hér á kvikmyndir.is áður.

Framhaldsmyndin fyrir Aulann mig, Aulinn ég 2, verður frumsýnd í sumar og nú er komin ný stikla fyrir myndina þar sem Gru er í aðalhlutverki.

Í stiklunni er gefin innsýn í söguþráðinn, en í fyrri stiklunni var lítið sem maður fékk að vita um söguþráðinn, enda voru skósveinarnir þar mest áberandi.

Sjáðu stikluna hér að neðan:

Stiklan hefst þar sem Gru er í alsælu í úthverfi stórborgar að annast dætur sínar sem hann ættleiddi, þær Margo, Edith og Agatha. Hann hefur stöðugar áhyggjur af strákunum í hverfinu, og háttar stelpurnar þegar þær fara að sofa. Síðan skyndilega hrekkur hann í gang þegar Lucy Wilde mætir á svæðið, leikin af Kristen Wiig, úr andspyrnuhreyfingunni Anti-Villain League. Og eftir að þau berjast með sérhönnuðum vopnum sínum þá fer Gru til fundar við þennan andspyrnuhóp.

Þar kemur í ljós að hópurinn þarfnast aðstoðar Gru við að ráða niðurlögum nýs illmennis. Gru er núna kominn aftur í gírinn, og þarf nú að hjálpa til við að bjarga heiminum.

Fregnir herma að Al Pacino muni tala fyrir nýja ofur-illmennið, sem heyrst hefur að muni heita El Macho, án þess að það sé orðið 100 prósent staðfest.

Despicable Me 2 verður frumsýnd 3. júlí nk.