Godzilla gæti þénað milljarða

Kvikmynd framleiðslufyrirtækjanna Legendary og Warner Bros., Godzilla, gæti fengið frábærar viðtökur í miðasölunni í Bandaríkjunum þegar hún verður frumsýnd í næsta mánuði. Telja innanbúðarmenn að tekjur myndarinnar á frumsýningardegi gætu numið um 60 milljónum Bandaríkjadala, eða tæpum 7 milljörðum íslenskra króna, samkvæmt Variety. 

godzilla

Sumir segja að þessi endurræsing myndarinnar í leikstjórn Gareth Edwards gæti þénað allt að 70 milljónir dala þegar hún verður frumsýnd 16. maí nk., en myndin kostaði litlar 160 milljónir dala í framleiðslu eða um 18 milljarða íslenskra króna.

Þessar spár eru byggðar á orðrómi fremur en annað, en gagnrýnendur eiga enn eftir að fá að sjá myndina á forsýningum.

Myndin verður frumsýnd samtímis á öllum helstu markaðssvæðum heimsins, að Japan og Kína undanskildu.

Talið er að tekjur af sýningum um heim allan gætu farið í 500 – 600 milljónir dala samanlagt.

Godzilla mætir þó harðri samkeppni frá bæði nýju The Amazing SpiderMan myndinni og ofurhetjumyndinni X-Men: Days of Future Past sem frumsýnd verður viku síðar.

16 ár eru  nú liðin frá því að síðasta Godzilla mynd var frumsýnd, í leikstjórn stórmyndaleikstjórans Roland Emmerich. Sú mynd rétt þénaði fyrir kostnaði og 6 milljónum dala betur, en myndin kostaði 130 milljónir dala.

Aðalleikarar í Godzilla eru Breaking Bad stjarnan Bryan Cranston, ásamt Aaron Taylor Johnson úr Kick Ass og Elizabeth Olson.

Legendary vonar að Godzilla bindi enda á vandræðagang skrímslamynda í Bandaríkjunum, en síðustu myndir af þessari tegund, Pacific Rim og Jack the Giant Slayer ullu vonbrigðum í Bandaríkjunum.