Carano hafði aldrei séð Fast and the Furious

Gina Carano hafði ekki séð eina einustu Fast and the Furious-mynd áður en hún fékk hlutverk í þeirri nýjustu, sem er sú sjötta í röðinni.

„Ég þurfti að horfa á gömlu myndirnar. Ég er nefnilega meiri Pride and Prejudice-týpa,“ sagði Carano í viðtali við tímaritið Total Film.

Hún vakti mikla athygli í mynd Steven Soderbergh, Haywire, og heldur nú áfram í hasarnum í Fast & the Furious 6 sem er á leiðinni í bíó.

Carano hafði gaman af að vinna með fyrrum ruðningskappanum Dwayne Johnson í myndinni. „Fólk ber ekki nógu mikla virðingu fyrir því sem hann hefur gert. Hann heldur áfram, mynd eftir mynd. Það er erfitt að bera myndir á herðum sér og halda sönsum í leiðinni og honum hefur tekist það. Hann hefur einnig reynt að bæta leik sinn og hann er alltaf að verða betri og betri. “