Náðu í appið
Gagnrýni eftir:Heist
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

David Mamet hefur verið í miklu uppáhaldi hjá mér allt frá því að ég sá The Spanish Prisoner í fyrsta sinn. Hann bæði skrifar og leikstýrir Heist og tekst einstaklega vel upp.


Myndin er ótrúlega vel skrifuð enda David Mamet frábær handritshöfundur. Það er jú rétt að hann hefur mest verið í því að skrifa handrit, en það sem Sindri segir um að þetta sé eitt fyrsta leikstjóraverkefni hans er bara einfaldlega rangt. Hann hefur leikstýrt allnokkrum myndum (og það mjög vel) og mætti þar nefna State and Main, The Winslow Boy og The Spanish Prisoner ásamt fleirum.

Ég ætla mér ekki að rekja söguþráð Heist hér, ég læt öðrum gagnrýnendum um það.

Stíll Mamets er einstaklega skemmtilegur, samtöl eru öll ótrúlega hnyttin, hnitmiðuð og raunveruleg og gefa þau leikurunum jafnframt tækifæri til að ná tengslum við persónur sínar. Auk þess flæðir sagan líka ótrúlega vel áfram.

Heist er ránsmynd. Fólk verður að gera sér grein fyrir að þetta er í raun sér flokkur af kvikmyndum. Það hefur verið einhver vakning í þessum flokki upp á síðkastið og mætti þar kannski helst nefna Ocean's Eleven og The Score. Margir (eins og hún Dagbjört Jónsdóttir) skilja ekki svona myndir og halda því fram að þær séu ekki nógu spennandi, fyndnar eða dramatískar. Málið er einfaldlega að þessar myndir snúast bara um ránið sjálft og hvernig það er planað og framkvæmt og þar fylgja að sjálfsögðu einhverjar blekkingar og svik. Þær eru ekki gerðar til að maður nagi neglurnar af spennu eða felli frostkalið sorgartár.

Ég hef alltaf haft mjög gaman af þessari tegund mynda, en ég er ekkert betri eða verri fyrir það. En fyrir vikið tel ég mig nokkuð dómbæran á svona myndir og sem ránsmynd finnst mér Heist alveg frábær. Plottið er gott og krækjótt út í ystu æsar og þó mann gruni oft að einhver sé nú að svíkja einhvern eyðileggur það alls ekki 'spennuna'. Spennuna já, því þessar myndir eru spennandi, en á allt annan hátt en hefðbundnar spennumyndir.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Good Advice
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Einhver sú allra lélegasta mynd sem ég hef séð lengi. Hún er í raun svo leiðinleg að ég vil helst eyða sem fæstum orðum á hana. Sú staðreynd að mynd með jafn frægum leikurum og þessum komi fyrst í bíó í Ungverjalandi (!), svo í Hollandi og svo á Íslandi fannst mér strax mjög svo grunsamlegt. Myndin hefur hvergi annars staðar verið sýnd, ekki einu sinni í Bandaríkjunum. En, þar sem ég hafði nú frímiða, draslaði ég mér á þessa mynd. Myndin er hræðilega leikin (Charlie Sheen fer þar fremstur meðal jafningja) og leikstjórinn veit greinilega ósköp fátt um kvikmyndir. Myndin rykkist áfram úr einu í annað og handritið er eitt það allra versta sem ég hef orðið vitni að. Tónlistin er alveg hreint ótrúleg í þessari mynd. Hvar fundu þeir þessa tónlist? Ég hreinlega trúi því ekki að hún hafi verið samin sérstaklega fyrir þessa mynd. Hún líkist mjög kvikmyndatónlist í lélegum B-myndum frá níunda áratugnum. Af sjálfsögðu má þó treysta kananum fyrir að troða væmni inn í allar myndir sínar og að sjálfsögðu spilar hún gott og bitastætt hlutverk hér, er oft svo margþrungin að mann langar helst til að kasta upp. Þeir sem segja að kvikmyndagerðarfólk í Hollywood sé heimskt hafa mjög mikið til síns máls ef þessi mynd er tekin undir smásjána, en stjórnendur kvikmyndafyrirtækisins sem framleiddu myndina eru greinilega ekki jafn heimskir. Þeir hafa augljóslega séð hversu hrikaleg myndin er og ákveðið að bíða með að gefa hana út og henda henni bara í einhver 'drasl-lönd'. Þess vegna finnst mér nokkuð magnað að við skulum vera 3. landið til að fá þessa mynd, við sem erum yfirleitt flokkuð undir nokkuð vitræna bíóþjóð. Myndin fær hálfa stjörnu fyrir þær sakir að það eru örfáir góðir brandarar í henni, en í mynd sem á að heita grínmynd eru þeir ótrúlega fáir og misheppnaðir.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Villiljós
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Ég fór á myndina Villiljós með nokkurri tilhlökkun, enda var trailerinn fyrir myndina hreinasta afbragð, og vil ég byrja á því að hrósa framleiðendum myndarinnar, ZikZak, fyrir það að gera sér grein fyrir því að trailerar skipta máli. Íslenskir kvikmyndaframleiðendur hafa oft ekki mikið pælt í trailerum fyrir myndir sínar, enda kostar það mikla vinnu að gera góðan trailer. Villiljós er eins og margir vita, leikstýrð af fimm leikstjórum, sem er sniðug hugmynd þar sem að myndin samanstendur af fimm mismunandi sögum. En til þess að þetta gangi allt saman upp verður að vera einhvers konar samkomulag á milli leikstjóranna, alls ekki um stíl eða tækni (enda eru mismunandi stílar og þess háttar eitt af því skemmtilegasta við það að hafa marga leikstjóra), heldur um hvernig vinna á söguna, hvernig hún komi best til skila. Það fannst mér ekki ganga nógu vel í Villiljósum, leikstjórarnir virtust ekki hafa sömu markmið í kollinum. Leikarar í myndinni eru nokkuð misjafnir en margir standa sig mjög vel. Þar ber helst að nefna unga parið á veitingastaðnum, (afsakið en ég veit ekki hvað margir leikaranna heita) þjóninn í sama atriði, æsti maðurinn í síðasta hlutanum og svo var Ingvar E. Sigurðsson mjög góður. Eins og gefur að skilja er samanburður á atriðunum fimm óhjákvæmilegur, þar sem að myndin er ekki ein heild, heldur 5 litlar heildir. Ég vissi áður en að það kom að "the end credits" (afsk. en ég veit ekki hvað maður getur kallað þetta á íslensku) að partur nr. 3 sem er atriði sem gerist inni í veitingahúsi væri gerður af Ragnari Bragasyni. Mynd hans, Fíaskó, (sem var einmitt einnig framleidd af ZikZak og var einnig með ágætan trailer) fannst mér með afbrigðum góð og finnst mér leiðinlegt að heyra hversu illa sú mynd gekk í bíóhúsum. Í þeirri mynd kemur greinilega fram auga Ragnars fyrir góðum kvikmyndaupptökuvélasjónarhornum (camera angles) og hlakka ég til að sjá hvað Ragnar mun taka sér fyrir hendur í framtíðinni. Atriði Ragnars í Villiljósum lyftir myndinni upp á nokkurs konar hærra plan og er að mínu mati langbesta atriðið í myndinni, ekki er það bara best unnið, heldur líka mjög vel skrifað. Einnig er síðasta atriðið nokkuð gott, vel leikið og unnið, en handritið að því fannst mér ekki nógu gegnumheilt, ekki nógu útpælt. Að sjálfsögðu eru ljósir punktar í öllum atriðunum eins og t.d. spilakassaatriðið í atriði 2 sem gerist á einhvers konar súrrealísku unglingaspilavíti en veiku punktar myndarinnar eru allmargir einnig. Til að byrja með var myndin mjög svo misvel unnin tæknilega séð. Þar ber fyrst að nefna hljóðvinnsluna, sem var í fyrsta lagi misgóð á milli atriða, sem er einkar leiðinlegt (í sumum atriðum var stundum erfitt að heyra hvað var verið að segja, en í öðrum var það í góðu lagi), og í öðru lagi voru "tónlistarklippingar" misheppnaðar á köflum. Allt of hratt "fade-out" og þess háttar mistök eru eitthvað sem ætti að vera tiltölulega auðvelt að forðast. Það að láta margar sögur fléttast saman er aldagömul aðferð sem getur verið mjög skemmtileg og nýjustu myndirnar í þeim flokki eru t.d. hin frábæra Magnolia og Short Cuts. Huldar Breiðfjörð, handritshöfundur Villiljósa fer samt nokkuð skemmtilega leið í þessum efnum með því að láta sögurnar tengjast mjög lítið innbyrðis (sem hefði samt verið hægt að gera þótt hér séu fimm leikstórar við stjórnvölinn), þær tengjast nánast bara saman að einu leyti. Þegar rafmagnið fer af í Reykjavík eru persónur myndarinnar að upplifa sérstakan atburð. Líf allra persónanna breytist, þær ganga allar í gegnum einhvers konar umskipti. Helsti galli Villiljósa, er einfaldlega sá að myndin gengur ekki upp. Maður fær lítinn sem engan tíma til að kynnast persónunum og því er manni nokk sama hvað hendir þær og þar liggur hundurinn grafinn. Manni á ekki að standa á sama. Í myndum sem þessum eiga persónurnar að hafa forgang, án þess situr maður eftir í bíósalnum og myndin skilur ekkert eftir sig nema kannski í hæsta lagi flotta tónlist og tæknibrellur. En það er ekki það sem myndin snýst um. Handritið (eða handritin) er nokkuð gott og setningar eins og: "Við verðum að farað tala saman." -"Af hverju?" -"Því við erum hætt því." eru hreinasta snilld og ræðan sem Ingvar heldur í bílnum þegar hann segir okkur frá því að við missum öll takið er líka mjög góð. Sögurnar 5 í þessari mynd hefðu allar getað gengið upp sem prýðisgóðar stuttmyndir og þá kannski aðeins lengri hver mynd en saman mynda þær enga heild.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Sweet and Lowdown
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Woody Allen er aftur kominn í sitt gamla góða form. Ekki það að hann hafi verið í einhverri lægð, heldur fór bara aðeins minna fyrir honum á Celebrity tímabilinu. Ég ætla ekki að fara að þræða söguþráð myndarinnar hér, til að komast að honum getiði lesið greinarnar hér fyrir ofan. Hins vegar vil ég bara koma því á framfæri, að hér er á ferð úrvalsmynd með úrvalsleikurum, sem allir kvikmyndaunnendur ættu að sjá. Sean Penn leikur gítarleikarann snilldarlega, og verðskuldar fyllilega óskarstilnefningu að ári, og það gerir Samantha Morton sem leikur mállausa unnustu hans einnig. Reyndar er ég nokkuð viss um að hún fái tilnefningu, vegna þess hve akademían heldur rosalega mikið uppá "disabled" fólk, veikt, sjúkt eða fatlað. Enda kannski ekkert skrýtið, þar sem oft getur reynst erfitt að túlka t.a.m. fatlaðan einstakling, en akademían virðist vera mjög svo hrifin af þess háttar leik. Endilega skellið ykkur á þessa mynd, og farið svo út í næstu videoleigu og leigið fleiri frábærar myndir eftir Woody Allen s.s. Bullets Over Broadway, Annie Hall, Everyone Says I Love You o.fl. o.fl. o.fl.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Gone in 60 Seconds
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Jerry Bruckheimer is afskaplega sniðugur maður. Honum datt nefnilega blessunarlega í hug, að það væri kannski soldið sniðugt að taka gamla og lélega B-mynd, sem samt var dálítið vinsæl, endurgera hana (enda erfitt að finna annað jafn 'gott' handrit) og skella bara í hana nokkrum þekktum leikurum og slatta af flottum bílum. Og við köllum þetta kvikindi kvikmyndagerðarmann... magnaður andskoti. Því miður er bara nóg af fólki í heiminum sem lætur plata sig út í að sjá myndir þessa manns, þannig að hann fær væntanlega að halda áfram þessari líka ágætu iðju langt fram í rauðan dauðann (eins og góðvinur hans Don Simpson gerði...) Í raun er ekki mikill munur á þessari mynd og The Rock (sem ég skemmti mér mjög vel yfir), fræðilega séð. Þær eru báðar dæmigerð Hollywood klisja... nema bara að Gone in 60 seconds er LÍKA illa leikin, illa tekin, algjörlega óspennandi og svo virðist einnig sem það hafi gleymst að hafa handritið með á tökustaðinn. Það sem virðist hafa bjargað The Rock var að hún var að einhverju leyti frumleg, hafði ágætis handrit og leikararnir stóðu sig vel... og einnig var þá Don Simpson sálugi meðframleiðandi... og virðist hann hafa tekið allt vitið úr áralangri samvinnu Simpsons & Bruckheimers með sér í gröfina. Það er oft sem að leikstjórar (í þessu tilviki framleiðandi (enda er það nokkuð ljóst að Bruckheimer stjórnar vel flestu í sínum myndum, því þær bera alla sama viðbjóðslega Jerry Bruckheimer stimpil eins og t.d. léleg samtöl persóna með væmnum strengjarsettar stefum undir (sem eiga þá að sýna fram á hve persónurnar séu raunverulegar og hafi tilfinningar en kemur að sjálfsögðu út sem sama væmna viðbjóðslega ameríska klisjan (enda löngu þekkt fyrirbrigði að bandaríkjamenn (þ.e.a.s. mainstream Hollywood fífl) geta ekki sýnt tilfinningasemi í myndum sínum án þess að nota væmni (vinsamlegast athugið og gerið góðan greinarmun á væmni og tilfinningasemi og ef þið í raun haldið að það sé einn og sami hluturinn, endilega leitið til sérfræðings.))))) reyna að endurtaka það sem gengur upp... enda nokkuð rökrétt hugsun þar á baki ('Þessi mynd var vinsæl, gerum aðra svona.') Núna er Jerry Bruckheimer bara endanlega búinn með kvótann. Allt virðist vera uppurið og ekkert eftir nema frægir leikarar, læti og glansplaköt og dauf minning þess að einhvern tímann hafi hann í raun gert eitthvað sem varið var í... eitthvað sem skipti kannski einhverju máli. Ég biðst afsökunar á því að vera hér ekki 100% að fjalla um myndina... ég bara varð að fá smávegis útrás á hatri mínu gagnvart þessu endalausa flæði af lélegum myndum sem streyma inn í bíóhúsin (svo ég tali nú ekki um videoleigurnar) og fólk flykkist á og virðist samt aldrei hafa yfir miklu að kvarta. Jæja, snúum okkur nú aftur að myndinni. Hvað er Nic Cage að hugsa? Ok... hann fékk peninga fyrir þetta og ég vona innilega að það hafi verið ástæðan fyrir því að hann tók þessu hlutverki, en ekki vegna þess hve honum fannst handritið gott. Hinir leikararnir stóðu sig vægast sagt illa, en þó í raun ekki, því hvernig er hægt að leika eitthvað... túlka eitthvað... þegar handritið var greinilega skrifað af einhvers konar frumdýri. Leikstjórinn Sena er greinilega bara strengjabrúða þess merka manns heimer er við Bruck er kenndur og er mér því nokk sama um hann. Og svo eitt hérna að lokum: Giovanni Ribisi er EKKI góður leikari! OK, hann er kúl, og já... hann getur leikið. En hann er ALLS EKKI góður leikari. Vil bara að þetta komist á hreint. Greyið drengurinn er alltaf eins í öllum þeim hlutverkum sem hann tekur sér fyrir hendur. Takk fyrir og góða nótt.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei