Náðu í appið
Gagnrýni eftir:Journey to the Center of the Earth
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Góð skemmtun
Ég fór á forsýningu á þessa mynd í gær og mér fannst hún mjög góð. Þetta er náttúrulega ævintýramynd og inniheldur alveg slatta af ótrúlegum atriðum (sem gætu aldrei átt sér stoð í raunveruleikanum) en það skiptir bara engu máli. Ef fólk vill endilega halda sig við raunveruleikann getur það horft á raunveruleikasjónvarp eða drama myndir.

Myndin er góð skemmtun og það var dálítið spes upplifun að horfa á hana í þrívídd (manni brá stundum meira en manni hefði brugðið ef myndin hefði ekki verið í þrívídd). Ég ætla ekkert að fara út í söguþráðinn, enda er ég aðallega að fjalla um hvernig ég upplifði myndina. Aníta Briem stóð sig mjög vel í sínu hlutverki (og einnig Brendan Frasier enda þekktur leikari), og mér fannst hún á tímabili minna mig á Lauru Dern úr Jurassic Park (meint sem hól, ef einhver er ósammála mér, þá það). Maður gleymdi því á 2 sekúntum að hún væri íslensk, því hún einhvern veginn passaði algjörlega inn í þessa bandarísku bíómynd. Allavega hefði hver sem er getað logið því að mér að hún væri þekkt bandarísk leikkona og vonandi sjáum við meira af henni á hvíta tjaldinu.

Mér fannst hálfpartinn leiðinlegt að þekkja söguna ekki nógu vel, en ég held að eftir þetta kíki ég á Leyndardóma Snæfellsjökuls, bara svona fyrir forvitnissakir um hvort myndin fylgi bókinni vel eftir (hef ekki hugmynd um það) - voru risaeðlur í Leyndardómum Snæfellsjökuls? Myndin var góð afþreying og þannig eiga svona ævintýramyndir að vera. Langar samt hálfpartinn að fara á hana aftur og taka þá jarðfræðing með mér, bara til þess að vita hvort eitthvað af þessu jarðfræðidóti eigi sér stoð í raunveruleikanum (ég efast um það, en það eyðileggur sko ekkert skemmtunina).

Ein snilldin var líka að 3D gleraugun pössun yfir gleraugun mín (hversu oft gerist það að maður getur sett (sól)gleraugu yfir sín eigin gleraugu og séð eitthvað) þannig að maður þurfti ekki að velja á milli að vera með 3D gleraugu og sín eigin (enda hefði ég þá ekkert getað notið myndarinnar því ég hefði ekki séð neitt).

En allavega, fyrir ævintýragjarnt fólk sem vill fá góða afþreyingu í bíó, þá mæli ég eindregið með þessari.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Arthur og Mínimóarnir
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Ég fór áðan á þessa mynd með tæplega 3ja ára syni mínum. Ég vissi lítið sem ekkert um myndina og hún kom mér skemmtilega á óvart. Þetta er bæði leikin mynd og teiknuð og talsvert frábrugðin þessum hefðbundnu barnamyndum sem gerði hana mjög skemmtilega fyrir vikið. Myndin fjallar um Artúr, 10 ára dreng sem fer að leita að fjársjóði í garðinum hjá afa sínum, sem afi hans faldi þar í eina tíð. Artúr býr nefnilega hjá ömmu sinni en afi hann hafði horfið nokkrum árum áður, auk þess sem amma hans er við það að missa húsið. Í þessum ævintýrum sínum kynnist Artúr litlum verum sem kallast Mínimóar og lendir í ýmsum ævintýrum. Ekki spillir fyrir að mínimóarnir eru litlar verur sem eru alveg einstaklega krúttlegar. Myndin virðist vera e-s konar blanda af Indjana Jones, álfasögum og prinsessuævintýri og kemur mjög skemmtilega út.

Ég hef ekkert að setja út á þessa mynd, nema það að líklega var sonur minn aðeins of ungur til þess að sjá hana, þar sem hann varð smá hræddur á einu atriðinu, fyrir utan það, þá var þessi mynd hin besta skemmtum og skemmtileg tilbreytingum frá hefðbundnum Disney, Pixlar, Dreamsworks barnamyndum sem virðast tröllríða öllu (ekki það að ég hafi neitt á móti slíkum myndum en það er gaman að sjá eitthvað öðruvísi til tilbreytingar). Þannig að ég get vel mælt með henni fyrir börn og fullorðna.


Þess vegna gef ég myndinni 3 1/2 stjörnur, því söguþráðurinn var skemmtilegur, leikarar stóðu sig allir vel, og hver mun ekki elska þessa krúttlegu Mínimóa þegar viðkomandi er búin að sjá þessa mynd? Ekki spillir heldur fyrir að prinsessa kemur við sögu í ævintýrinu.

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Unbreakable
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Mér fannst þessi mynd vera nokkuð góð. Ég hafði reyndar heyrt að margir sem höfðu búist við annarri Sixth Sense hafi orðið fyrir vonbrigðum þannig að ég fór á hana með því hugarfari að maður væri ekki að fara að sjá aðra Sixth Sense og var bara nokkuð ánægð með myndina. Sixth Sense var samt betri mynd en m.v. myndirnar árið 2000 þá var þessi bara nokkuð góð. Leikurinn var góður og handritið gott. Ég ráðlegg öllum að sjá þessa mynd en búist ekki við annarri Sixth Sense þó að það sé óvæntur endir.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Scary Movie
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Ég sá Scary movie á óvissusýningu síðasta fimmtudag og vissi náttúrulega ekkert á hvernig mynd ég var að fara. Í stuttu máli þá var myndin svo fyndin að sælgætisgrísinn ég gat ekki einu sinni borðað nammið (maður var síhlæjandi). Gert er látlaust grín að vinsælustu myndunum undanfarið eins og t.d. Scream myndunum, I know... myndunum, Blair Witch project, Sixth Sense, Matrix o.fl. og út úr kemur hláturveisla. En ég mæli með að fólk hafi nú séð flestar myndirnar sem verið er að gera grín að. Myndin er óborganleg. En fólk skyldi nú ekki reyna að fá glóru í söguþráðinn. Reyndar er líka um neðanbeltis húmor en ólíkt öðrum slíkum myndum undanfarið er ekki eingöngu byggt á honum.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The Perfect Storm
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Ég bjóst við þokkalegri mynd þegar ég fór á Perfect Storm í bíó en ég varð svo sannarlega fyrir vonbrigðum. Í fyrsta lagi var myndin allt of langdregin (sérstaklega fyrir hlé), í öðru lagi þá hafði maður ekki snefil af samúð með persónunum (jafnvel þó að þetta væri byggt á sannsögulegum atburðum þá held ég að það hefði verið áhugaverðara að sjá hvernig þetta var í raunveruleikanum því að greinilega var MIKIÐ skáldað inn á milli, ég held helst að það sem hafi verið satt hafi verið nöfnin á sjómönnunum og bátnum en nær sannleikanum held ég að myndin hafi ekki komist). Auk þess var myndin alveg óheyrilega væmin (og þar sem maður hafði enga samúð með persónunum þá var maður við það að ganga út, því væmnin var svo mikil - það er minni væmni í góðri ástarsögu!). Síðast en ekki síst þá var myndin móðgun við heilbrigða skynsemi, heldur leikstjórinn virkilega á áhorfendur séu svona heimskir!? Dæmi: maður var með glóðurauga á vinstra auga og gat ekki opnað það, 10 sek. síðar var enginn vandi að halda auganum opnu og glóðuraugað sást ekki, í næsta atriði var glóðuraugað á hægra auganu!!! Maður datt fyrir borð í ískaldan sjó, tveir menn stökkva út í og bjarga honum (sorrý en þeir væru löngu drukknaðir m.v. leiðina sem þeir syntu í ísköldum sjónum). Leikarinn sem framkvæmdi lífgunartilraunir mætti alveg fara á skyndihjálparnámskeið (hjartahnoð er EKKI gert svona!), og toppurinn á ísjakanum var að mastrið á skipinu brotnaði en bandaríski fáninn stóð enn uppi!!!!! Ef fólk er ekki haldið sjálfspíningarhvöt þá ráðlegg ég því eindregið að fara EKKI á myndina. Hún er MIKLU verri en The Skulls.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
101 Reykjavík
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Mér fannst þetta vera alveg frábær mynd. Það var fullt af leyndum húmor í henni og mér finnst þetta vera besta íslenska myndin síðan Stella í orlofi var gerð. Ég hló mikið á þessari mynd. Baðkarið var FRÁBÆRT! Það verður örugglega hægt að horfa oft og mörgum sinnum á þessa mynd, hún er einhvern veginn þannig. Allavæna þá er aðalpersónan Hlynur býsna skrýtinn og maður hefur eiginlega samúð með honum, þó að hann kunni alls ekkert í mannlegum samskiptum. Ég ætla ekkert að fara nánar í söguþráðinn, þið verðið bara að sjá myndina. Ég ætla ekkert að hafa þetta lengra en ég óska aðstandendum myndarinnar til hamingju með árangurinn.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Keeping the Faith
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Mér fannst þetta vera ágætismynd. Miklu betri en sú sem ég sá á undan þessari. Eins og við var að búast er Ed Norton mjög góður, en hann sást minna í myndinni heldur en ég hafði búist við. Hins vegar var dálítið skemmtilegt að sjá hann leika prest í þessari mynd þar sem í Primal Fear hafði hann verið sakaður um að myrða prest! Jenna Elfman og Ben Stiller voru einnig mjög góð í sínum hlutverkum. Ed Norton og Ben Stiller leika hér nútíma presta (reyndar kaþólskan prest og rabbi), þeir hafa sínar hugmyndir um hvernig á að fá fólk til þess að sækja kirkju og eru sumar þeirra allskemmtilegar. En þetta er fyrst og fremst ástarsaga en samt langt frá því að vera of væmin (eins og t.d. Perfect Storm sem kom með svo súperextra stóran skammt af væmni að maður var kominn með klígju), en auðvitað fylgja þessu ýmstar flækjur sem leikurnum tekst ágætlega að leysa úr. Mér fannst söguþráðurinn vera skemmtilegur og myndin er fínasta afþreying. Þetta er engin American Beauty en myndin stóð alveg undir væntingum og maður kom út úr bíóinu með bros á vör.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
28 Days
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Ég tek undir það sem hann Ásgeir segir hérna. Þetta er góð mynd, sem greinilega alltof fáir hafa tekið eftir. Sandra Bullock er hérna stórgóð í hlutverki Gwen sem hefur að velja á milli þess að fara í fangelsi eða í meðferð eftir að hún hafði ekið blindfull inn í hús hjá einhverju fólki. Henni hundleiðist meðferðin og fólkið sem er þar en þegar hún loksins gerir sér grein fyrir því að ef hún klárar ekki 28 daga meðferðina þá lendir hún í fangelsi (en fær ekki að fara heim eins og hún vonaði). Fyrst reynir hún allt til þess að komast hjá meðferðinni en að lokum skilur hún alvöru málsins og horfist í augu við staðreyndir. Þetta er önnur myndin þar sem Sandra Bullock er ekki að leika litlu sætu stelpuna heldur einhverja vandamálatýpu. Og henni ferst það bara vel úr hendi. Hún ætlar sér greinilega ekki að festast í formúlúhlutverki litlu sætu stelpunnar eins og lengi leit út fyrir að yrði. Bravó Sandra!
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Scream 3
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Sumir hérna að ofan virðast hafa eitthvað á móti framhaldsmyndum. Oft hafa verið gerðar of margar framhaldsmyndir um góða hugmynd sem hafa svo verið hver annarri verri, en það á ekki við um Scream 3. Náttúrulega skilur söguþráðurinn ekki mikið eftir sig, enda gerði hann það heldur ekki í fyrri myndunum. Það sem máli skiptir er stemmninginn, ég skellihló og öskraði til skiptist á myndinni og svoleiðis á það að vera. Ég segi að sá sem fílaði Scream og Scream 2 á eftir að fíla þessa mynd. Engin leið var til þess að geta hver(jir) morðinginn(jarnir) voru og kom það skemmtilega á óvart þó að það væri e.t.v. dálítið langsótt eins og í fyrri myndunum. En eins og ég segi þá er það skemmtanagildi myndarinnar sem gefur henni 3 stjörnur.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Friends
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Einfaldlega bestu framhaldsþættir sem ég hef séð, ég missi ekki af neinum. Og svo er hægt að horfa á þá aftur og aftur og aftur og aftur.... og alltaf hlær maður jafn mikið. :)
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Englar alheimsins
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Mér fannst myndin góð, en hún var ekki frábær, leikararnir léku mjög vel en mér fannst samt eitthvað vanta í söguþræðinum. Það hefði mátt sýna betur geðveiki Páls í seinni hluta myndarinnar, inná Kleppi virtist hann næstum því "eðlilegur" miðað við hina vistmennina. Atriði sem hefðu getað verið brosleg voru í allt of alvarlegu umhverfi þannig að maður þorði ekki einu sinni að brosa. Það er leiðinlegt að segja það en það er synd hvað vantaði lítið upp á að myndin væri stórkostleg. Tónlistin í lokaatriðinu er frábær.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei