Náðu í appið
Gagnrýni eftir:The Royal Tenenbaums
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Frábær!!!


Ég fór á þessa mynd fullur eftirvæntingar og kom út fullur eftirvæntingar...Wes Anderson er snillingur og ég hlakka strax til að sjá næstu mynd hans!


Það kom mér ekki á óvart að þessi mynd nái ekki til fjöldans. Hluti slæmu gagnrýninnar sem myndin hefur fengið kemur frá ungum krökkum sem t.d. sáu hana á skólasýningu. Þessi húmor er alls ekki fyrir alla og ég trúi því vel að ef að athyglin er ekki 100% á tjaldinu þá sé auðvelt að missa þráðinn og finnast hún leiðinleg. Gagnrýnandi DV sagði að í raun ætti myndin að vera bönnuð innan 16 ára sökum húmors. Ég tek undir það.


En, nóg um það.


Þegar ég hugsa um sjálfa myndina get ég ekki annað en brosað. Rétt eins og í Rushmore er persónusköpunin ótrúleg og standa leikararnir sig allir frábærlega. Gwyneth Paltrow sýnir á sér nýja hlið og þó hún fari misvel í fólk þá sýnir hún breidd hennar sem leikkonu.


Ég veit ekki hvort hægt sé að tala um gáfaðan húmor, en ef svo er, þá eru leikstjórinn og handritshöfundurinn með hann á hreinu. Persónulega fannst mér allt passa fullkomlega saman - leikurinn, persónurnar, leikmyndin og tónlistin, sem var sérstaklega skemmtileg.


Í rauninni hefur þessi mynd fengið ósanngjarna gagnrýni. Mér finnst þetta líkt því að ráðast á mynd með Arnold Schwarzenegger af þeim sökum að leikurinn sé slæmur. Myndir með Arnie eiga að snúast um hasar og tæknibrellur, og því réttast að fara með því hugarfari í bíó. Það sama á við um The Royal Tenenbaums. Þó einhverjir komi hlægjandi út og myndin fá góða gagnrýni þýðir það ekki að þetta sé grínmynd og því má alls ekki taka henni sem slíkri, ekki frekar en Rushmore.


Þessi mynd fellur máski í sama flokk og myndir Woody Allens, sem einnig eru ekki fyrir alla og fá oftast dræma aðsókn og lélega gagnrýni frá fjöldanum. Snilldin í myndunum byggist að mestu á skemmtilegum persónum í skemmtilegum samræðum við skemmtilegar aðstæður og gerir þær því að perlum í huga kvikmyndaunnenda, fremur en annarra.


En eitt í lokin. Einn sjúkraliðinni í myndinni heitir Brian Tenenbaum. Ég fletti honum upp á imdb.com og þar sá ég að hann lék bæði í Rushmore og myndinni Bottle Rockets sem Wes Anderson leikstýrði árið 1996. Kannski er hann hugmyndin að sögunni um The Royal Tenenbaums...?
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Tillsammans
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Gaman gaman. Aftur góð mynd frá leikstjóra Fucking Amal. Ég held að brosið hafi ekki farið af mér allan tímann sem ég sat í bíósalnum, og líklega ekki fyrr en ég fór að sofa. Hér tekst honum ótrúlega vel að skapa litla og skemmtilega veröld sem maður fær að skoða nánar og bragða lítillega á. Í stuttu máli fjallar myndin um fólk sem býr í kommúnu og manneskjurnar í þeirra lífi, bæði innan sem utan kommúnunar og áhrifin sem þær hafa á líf þeirra þar. Leikararnir gefa persónunum mjög mikið líf og sagan er virkilega skemmtileg og persónuleg og tvinnst saman á mjög skemmtilegan hátt. Jafnmikið og Dogma-myndir eins og Festen og Idioterne gefa manni annað sjónarhorn á listformið sjálft er leikstjóri Tillsammans með sýnikennslu í því hvernig skapa á tengsl milli manneskja á tjaldinu svo maður lifi sig almennilega inn í söguna og andi djúpt af innri gleði. Gaman gaman.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Baise-moi
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Þetta er undarleg mynd. Og enn undarlegra að hún sé komin í bíó. Alveg eins og fólk flykktist á myndina 'Romance X' bara til þess að sjá liminn á klámmyndastjörnunni Rocco, bíður fólk í langri biðröð til þess að komast á þessa mjög svo umtöluðu mynd. Umtalið gefur að sjálfsögðu í skyn að myndin sé þess virði að sjá, og jafnvel meira til. Það er hún hins vegar ekki. Myndin er ekkert annað en klámmynd, dulbúin sem extra gróf road-movie með fylgjandi kynlífi og ofbeldi, nema allt er margfaldað með 13. Útkoman er að sjálfsögðu ástæða allrar umfjöllunarinnar, nema einn flötur umræðunnar virðist hafa farið fram hjá öllum og það er hvort myndin sé góð eða ekki. Ofbeldis- og kynlífsatriðum í myndinni er ofgert og hefðu leikstjórar mátt spyrja sig hvort allt subbið væri nauðsynlegt til að ná því fram sem áhorfandinn átti að finna fyrir. Þessi mynd kemur Hollywood og þeirri draumaverksmiðju ekkert við (sama hversu gott eða slæmt kemur þaðan), og því ekki rétt að bera þessa mynd við það sem Hollywood má gera og gerir. Snilldin í myndum Hitchcocks var að spennan var ósýnileg, áhorfandinn fann bara fyrir návist þess illa. Myndin Se7en var talin verulega ógeðsleg, en það ógeðslega var einungis gefið í skyn fyrir áhorfandann að fatta. Hér er hinsvegar allt sýnt og þó ég átti mig á því að þessi mynd eigi að sjokkera, sem hún gerir, þá er allur hamagangurinn til einskis - leikurinn er slæmur, söguþráðurinn einungis til að myndin fái ekki X-rated stimpilinn, og útkoman því, hreint út sagt, rusl! Baise-moi fær eina stjörnu - og það fyrir að hafa tekist að koma sér í almenna bíódreifingu. Þar liggur snilldin!
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei