Náðu í appið
Gagnrýni eftir:The Beach
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Eftir að hafa komist yfir kort af paradís, leggur Richard (Leonardo DiCaprio) upp í glæfraferð ásamt frönsku pari, til að freista þess að komast þangað. Eftir nokkuð streð komast þau á áfangastað, og finna þar fyrir sjálfbært samfélag fólks sem hefur gaman að því að vera á ströndinni. Þau drífa sig strax í skýlu og bol og skella sér í vatnið. Eftir stutta viðveru fer greddan í Richard að valda afbrýðisemi og margs konar vandræðum, og fljótt komast þremenningarnir að því að þessi heimur er ekki svo fullkominn eftir allt saman. Og þá er líka kominn tími til þess að segja að þessi mynd er afleit. Sögur um slíkar útópíur eru hreint ekki nýjar af nálinni og þessi mynd er ekki hið minnsta frumleg. Bara það að Richard skildi finna kortið hjá manni sem hafði framið sjálfsmorð bendir til þess að þessi fullkomni heimur sé grimmari en hann sýnist og það kemur heldur betur upp úr dúrnum. Einhverjir ástarþríhyrningar detta inn hér og þar til þess að bæta nokkrum klysjum við ófrumlegheitin, og boðskapurinn, sem reynt er að troða ofan í mann í lokin, er alveg hreint hlægilega hallærislegur. Þetta er verulega vond mynd, þótt fyrri helmingurinn hafi verið þolanlegur. Engin stjarna.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Ice Age: The Meltdown
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Ice Age kom mér á óvart á sínum tíma, það var frumleg mynd með skemmtilegum karakterum og söguþræði sem var samsettur af skynsemi og alúð. Hér er engu líkara en að sálin sé horfin og ekkert eftir nema útlitið. Ice Age er kannski ekki hið dæmigerða peningaplokkandi framhald, en hún kemst ansi nærri því.


Nú þurfa vinir okkar að forða sér undan komandi flóði. Ísöldin virðist nálægt því að líða undir lok og gríðarlegt lón hefur myndast á bak við ísvegg sem gnæfir yfir dalnum þar sem fjöldamargar dýrategundir eiga heimkynni sín. Við botn dalsins ku vera örk mikil, sem getur bjargað þeim í hamförunum. Úr verður mikil og löng röð dýra, og loðfíllinn Manny og félagar fara með, þótt þeir eyði afar litlum tíma í að fylgja aðalhópnum.


Þess í stað slást þeir í för með Kvenloðfílnum Ellie sem heldur að hún sé pokarotta og bræðrum hennar, sem eru reyndar alvöru pokarottur. Þetta er mikill léttir fyrir Manny enda hélt hann að hann væri mögulega sá síðasti af sinni tegund. En það mun taka hann tíma að sannfæra Ellie (fyrirsjáanlega ljær Queen Latifah henni rödd sína) um að þau eigi saman.


Það er seint hægt að setja út á frammistöðu leikara eða teiknara en þeir skila allir sinni vinnu með sóma. Hér er það handritið sem bregst. Nánast allir brandararnir byggjast upp á fíflagangi, einhvers konar misþyrmingum á letidýrinu eða furðulegum uppátækjum pokarottanna og kvenloðfílsins sem líkir eftir þeim í einu og öllu. Það má segja að brandararnir með litla kvikindinu sem eltir hnetuna sína hafi smitast yfir í aðra þætti sögunnar og nú snúast þeir allir um hið sjónræna. Litla greyið sem eltir hnetuna á aftur mjög góða spretti hér, en spaugileg slys og ótrúlegar uppákomur sem persónurnar lenda í missa marks þegar þau verða með mínútu millibili. Það er ekki einn einasti brandari sem jafnast á við það þegar Diego reyndir að róa barnið í fyrri myndinni og að sama skapi nær ljúfsári undirtónninn aldrei sömu hæðum - hver gæti gleymt því þegar hellamyndirnar lifna við í Ice Age og segja söguna um fjölskyldu Manny? Það eina sem kemst nálægt því hér er þegar við sjáum endurlit Ellie frá æsku sinni, er hún kynnist pokarottunum sem urðu síðan bræður hennar. Á meðan ég naut þessa atriðis mest af allri myndinni, gerði vinur minn sér upp hrotur við hliðina á mér, sennilega af því að ekkert ægilega fyndið átti sér stað þarna í einhverjar mínútur.


Hins vegar var það svo að hann og hin þrjú sem voru með mér í bíó nutu myndarinnar umtalsvert meira en ég og vildu held ég öll spandera á hana 3 til 4 stjörnum. Ég læt mér nægja 2, hún er mjög flott og manni leiðist ekki sérstaklega en þegar svona myndir fara að reiða sig fremur á sjónræna brandara en vandlega úthugsaðan húmor er þróunin ekki á leið í rétta átt.


Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The Village
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Ég hef verið hrifinn af öllum myndum Shyamalans. Sixth Sense var frábær, Unbreakable mjög góð, og Signs var einnig prýðisgóð og spennandi ræma. Í öllum þessum myndum er ákveðinn ævintýrablær, blandaður skemmtilegum húmor, þrátt fyrir yfirnáttúruleg viðfangsefni. Að vissu leyti má sjá ákveðna Spielberg-stemmningu í þessum myndum, og er ekki leiðum að líkjast.

Eftir að hafa séð the Village er ég ekki lengur hrifinn af öllum myndum Shyamalans. Áður höndlaði leikstjórinn vel þá pressu að skrifa handrit, framleiða og leikstýra, en þessi mynd ber þess merki að hann sé orðinn of öruggur með sjálfan sig. Fyrri myndirnar voru hægar og ekki fyrir neina hasarfíkla, en þær voru nógu vel gerðar til þess að maður var spenntur frá upphafi til enda. Þessi mynd er hins vegar svo hæg að hún verður leiðinleg áhorfs. Tíma er varið í að kynnast persónum en sá tími er vannýttur með meiri áherslu á myndatöku en persónusköpun. Til hvers að láta aðalpersónuna steinþegja mestallan tímann? Fólk talar um að hann sé fámæltur en þegar maðurinn á eina senu sem reynir eitthvað á leikhæfileika hans í allri myndinni þá er þessum leikhæfileikum sóað. Þá er frátalið eitt atriði, besta atriðið í myndinni, sem er það eina við hana sem virkilega og þá meina ég VIRKILEGA kemur á óvart. Aðalleikkonan á hins vegar góðan dag. Að öðru leyti á myndin fáránlega heimskulega spretti og þegar henni lýkur eru flestir bíógestir búnir að hrista hausinn nóg til að framleiða orku á við Kárahnjúkavirkjun. Stórlega ýkt reyndar, en staðreyndin stendur eftir: The Village er langversta mynd leikstjórans og ber að varast hana. Þetta þýðir ekki að hann sé útbrunninn, en hann þarf að fara að hugsa sinn gang. Allir geta gert mistök. Meira að segja Spielberg gerði The Lost World sem var dauðans hörmung. Þér leyfist að gera eina vonda mynd, Shyamalan, en í guðanna bænum farðu ekki að leggja það í vana þinn.

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Love Actually
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Þessi mynd er nokkuð skrýtið fyrirbæri. Hún segir margar sögur sem tvinnast saman... nánast ekki neitt. Raunar eru þetta aðskildar sögur þar sem persóna úr einni sögu kastar kveðju á persónu úr annarri sögu og þar með eru tengslin komin. Ekki beint Short Cuts, sem sagt. Hún er allt of löng og er það synd þar sem það hefði verið hægt að klippa út 2-3 sögur án þess að það skipti nokkru einasta máli fyrir heildarmyndina. T.d. hefðu persónurnar sem voru að leika í erótísku myndinni (eða hvað það nú var!) alveg getað horfið. Einnig eru sögurnar það margar að enginn tími er fyrir bakgrunn persónanna, sem virka margar ansi þunnar. Svo og eru sumar sögurnar ekki til lykta leiddar. En þetta er rómantísk gamanmynd, og sem slík hefur hún dálítið fram yfir myndir eins og Two Weeks Notice og Along Came Polly og næstum hverja einustu rómantísku gamanmynd sem hefur komið á undanförnum 2 árum (sem ég hef séð). Hún er nefnilega fyndin. Á köflum ógeðslega fyndin. Og það er númer eitt, tvö og þrjú. Því gef ég henni þrjár stjörnur, þrátt fyrir allt.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The Chronicles of Riddick
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Þegar maður sest niður til að skrifa dóm um mynd eins og COR, er mjög líklegt að upp komi langur listi af göllum. Hún er alls ekki alslæm, en staðreyndin er samt sú að hún stendur Pitch Black langt að baki. Í þeirri mynd var Riddick dæmdur morðingi, og nógu óútreiknanlegur til þess að maður hafði ekki hugmynd um hvað hann myndi gera allt til enda. Í COR er hann skyndilega orðin ofurhetja, eða &8222;Furykani&8220; ef ég man rétt. Kemur ekki upp úr dúrnum að alheimurinn er í mikilli hættur vegna hinna illu Necromangara (sem virðast vaða um allt og sprengja upp plánetur án nokkurrar skiljanlegrar ástæðu) og Riddick er sá eini sem getur komið ljótu köllunum fyrir kattarnef, enda af þessum Furykanaættbálk sem yfirmarskálki Necromangaranna er illa við. Hljómar eins og algjört bull, og er það líka í helstu dráttum. Raunar furðulegt að persóna Riddick sé notuð, enda nánast óskyld morðingjanum úr PB. Líklegt að það hafi átt að hala nokkrum aukaaurum í kassann. Annars er sagan nokkurs konar samkurl úr biblíunni (spádómur, ekki ósvipað Matrix), Shakespeare (furðuleg persóna Thandie Newton), og hinum og þessum klisjum. Þarna má sjá hugmyndir úr Borg hinna týndu barna, þá í sambandi við vondu mangarana. En í þeirri mynd var stemningin einmitt svo þrúgandi að það var oft þrekraun að horfa á hana, sú er einnig raunin hér. Staðreyndin er sú að þegar mangararnir eru á skjánum, er myndin næstum því leiðinleg. Auðvitað eiga þeir að vera vondir en þeir eru bara svo litlausir að maður vildi helst að þeir hyrfu úr myndinni algjörlega. Hún byrjar nefnilega vel, þegar Riddick er á flótta undan mannaveiðurum, og kaflinn í fangelsinu er býsna skemmtilegur líka. Sá endar á æsilegum flótta undan sólarupprás, og minnir um margt á æsilegan flótta í Pitch Black, þar sem einmitt var verið að flýja undan myrkrinu! Flott vísun í gangi hérna og ekki kannski öllum augljós við fyrstu sýn. Ég var hins vegar ekki alveg að skilja hvernig Riddick gat haft það náðugt inni í flugskýli á meðan það var 700 gráðu hiti fyrir utan! Fáránlegt. Það eru annars fínar hugmyndir í gangi hérna, og tilkomumikið þegar mangararnir gera innrás. Bardagaatriðin eru yfirleitt tekin þannig að maður sér ekki hver skrattinn gengur á, það glittir í Riddick innan um hraðar klippingar og skyndilega stendur hann einn eftir yfir hrúgu af föllnum óvinum. Nokkuð óvandað, verður að segjast. Þegar líður á myndina fjölgar klysjunum og geispunum. Pitch Black var gerð af meiri vilja en mætti, enda sennilega ódýr í samanburði við COR. En það sannast enn að flottar brellur eru ekki nóg til að halda uppi mynd.

Sko! Vissi að þetta yrði upptalning á göllum. Það eru alveg góðir kaflar og punktar í þessari mynd. Þeir falla bara í skuggann á göllunum. Ég tek mér í munn orð Riddick, þegar hann sér hrikalegan arkítektúrinn í höll yfirmarskálksins: &8222;Hefði haft það öðruvísi.&8220;

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Behind Enemy Lines
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Ég hafði mínar efasemdir þegar ég samþykkti að fara á Behind Enemy Lines, aðallega vegna plakatsins, sem mér fannst ekki lofa góðu. En það má víst ekki dæma myndir eftir plakatinu, hugsaði ég og féllst á að fara. Kom þá ekki upp út dúrnum að ég hafði rétt fyrir mér. Af hverju Gene Hackman samþykkti að leika í þessari mynd er mér ráðgáta. Hann hefur reyndar verið að leika í annarri hverri mynd undanfarið og halar sjálfsagt inn nokkra aura á hverri. En hann, eins og aðrir, eiga ekki séns í að gera nokkuð við þetta þunna handrit sem einhver tólf ára strákur virðist hafa skrifað fyrir jafnaldra sína, og raunar hefði ég haft gaman af henni sjálfsagt ef ég væri 12 ára, en ekki tvisvar sinnum það eins og er raunin. Persónurnar eru frámunaheimskar, og þrautþjálfaðir bandarískir hermenn láta tilfinningarnar ráða er þeir standa augliti til auglitis við hættuna. Það væri kannski ekki afleitt ef einhver af leikurunum gæti tjáð tilfinningar, en meira að segja Gene Hackmann kemur út eins og fáviti þegar eitthvað á að reyna á hann. Myndin byrjaði reyndar ekki svo illa, og það brá meira að segja fyrir smá húmor, sem hverfur algjörlega eftir það, þrátt fyrir nokkrar mislukkaðar tilraunir. Þeir sem leggja á sig að fara á þessa mynd ættu að vita að þegar upphafsflugsenan er búin, þá fer allt niðrá við. Sú sena er nefninlega frábær, þar sem flugmenn á orrustuþotu reyna að komast undan tveimur flugskeytum. Þar nýtur ýkt myndatakan sín í eina skiptið í myndinni, en leikstjórinn hefur þá áráttu að láta myndavélina snúast í kringum allt sem er að gerast, ásamt því að koma með kunnuglega hratt/hægt myndatöku sem hefur verið að ryðja sér til rúms í myndum síðustu árin og MTV ber sjálfsagt ábyrgð á. Einnig finnst mér líklegt að höfundurinn hafi einhvern tíma spilað Metal Gear Solid fyrir þá sem þann tölvuleik þekkja, sérstaklega út af gauknum með sniper-riffilinn sem hundeltir persónu Wilsons alla myndina. Hann hefur líka séð Patriot Games. Samanlagt er þetta sem sagt vond mynd, hún væri kannski þolanleg ef hún hefði ekki verið svona óendanlega heimskuleg. Hápunktinum í vitleysunni nær hún þegar tveir óvildarmenn Wilsons finna notað skothylki hans á 1000 hektara svæði. Líklegt! Forðist þessa, en það ætti að vera óhætt að senda krakkana. Því þrátt fyrir mikið ofbeldi verður myndin aldrei ljót eða blóðug.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei