Náðu í appið
Gagnrýni eftir:Birth
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Ein af betri kvikmyndaupplifunum mínum í lengri tíma. Birth er hreint listaverk frá upphafi til enda, sviðsmyndin er frábær og helst vel út alla myndina. Það er verið að gera úlfalda úr mýflugu að mínu mati varðandi hneykslanleg atriði í þessari mynd.

Ég vissi ekki við hverju ég átti að búast þegar ég fór á þessa mynd, en eftir á þá var ég mjög ánægður með þann tíma sem myndin varði. Myndin minnir mann dálítið á Kubrick, en þó án þess að hér sé um einhverja stælingu á honum að ræða. Hér er það umgjörðin, persónutúlkun, sviðsmyndin, tökurnar og klippingin sem gerir þessa mynd og er söguþræðinum æðri sem er í raun bara það sem leiðir mann í gegnum listaverkið. Myndin er glettin og maður skellti upp úr öðru hvoru. Myndir sem þessi höfða mjög misjafnlega til fólks, þeir sem vænta aðeins afþreyingar og eru ekki tilbúnir til að upplifa myndina verða eflaust fyrir vonbrigðum. Það er stór munur á því að bara horfa á myndir eða að upplifa þær, þessi mynd er hrein upplifun.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Minority Report
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Jæja, þá er það afstaðið, maður er búinn að upplifa þá mynd sem maður hefur beðið lengi eftir í eftirvæntingu.

Ég fór á Minority Report í gærkvöldi á sérstaka forsýningu. Eins og svo oft þegar maður fer á myndir sem maður hefur ekkert heyrt annað en bara mjög gott af, þá fer maður á þær og er mikið að spá í hvort maður finni ekki eitthvað sem hafi mátt vera öðruvísi en nánast allt gekk upp. Leikurinn var óaðfinnanlegur, kvikmyndatakan frábær, flottar brellur, plottið er flott þannig að hvað getur maður annað en verið hrifinn. Tom Cruise (John Anderton) er góður að vanda og Colin Farrell (Danny Witwer) og Samantha Morton (Agatha) sýna mjög góðan leik eins og reyndar allur leikarahópurinn, enda liggur snillingurinn Steven Spielberg þar að baki. Ég gef myndinni 9 í einkunn af 10 mögulegum, en til þess að myndin hefði þurft að fá 10, þá hefði að mínu mati þurft að vera meira um spennu og action í henni, hún var svolítið róleg á köflum án þess þó að maður hafi orðið eitthvað þreyttur líkt og gerðist með A.I. Þrátt fyrir það að manni fannst A.I. mun lengri en þessi, þá voru þær báðar samt nánast jafn langar, báðar tæplega 2 og hálf klst. Það eitt tel ég ágætis mælikvarða á gæðamun myndanna. Tom Cruise sannar það hér enn og aftur að hann er einn farsælasti leikari allra tíma, hann hefur ekki stigið eitt feilspor í mörg ár og allar myndir sem hann leikur í slá í gegn á einn eða annan hátt. Næsta mynd með honum er væntanleg í kvikmyndahús í desember 2003, og er þar á ferð stríðsdrama, svo er komið að M:I-3, framhaldi af Mission Impossible myndunum tveimur sem báðar eru á meðal 50 tekjuhæstu mynda allra tíma, henni er ætlað að verða einn af sumarsmellunum árið 2004.

Catch me if you can er næsta mynd sem Steven Spielberg leikstýrir og kemur hún í kvikmyndahús um næstu jól í USA, þar fara Leonardo DiCaprio, Tom Hanks og Christopher Walken með aðalhlutverk í sannsögulegri mynd um ungan glæpamann.


Minority Report er sönn stórmynd sem enginn kvikmyndaunnandi ætti að láta fram hjá sér fara og ég mæli með því að þið sjáið hana í bíó!
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Ali
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Tvær og hálf stjarna, það var endanleg niðurstaða mín.

Í fyrstu lotu þá var það eins og Ali (myndin) væri að meta andstæðinginn (mig/áhorfandann) og fór varlega í 'bardagann'. Í annarri og þriðju lotu var maður farinn að sjá að Ali var ekki að tefla sínum sterkustu trompum og rétt hékk í 'leiknum'. Næstu lotur voru mjög lítið áhugaverðar og lítið sem gerðist, þær voru ótrúlega langdregnar og Ali 'hékk í köðlunum' og varðist falli. Þegar á leið má segja að í 7 lotu hafi loks eitthvað dregið til tíðinda, Ali náði fram sterkum höggum og var enn með í leiknum, loks var eitthvað að gerast og í 8-11 lotu dundi hvert höggið af öðru á andstæðingnum, í tólftu lotu leit út fyrir að Ali væri að safna kröftum fyrir lokaatriðið. Þrettánda lota rann upp og Ali sýndi loks góða takta og náði fram tæpum sigri með tæknilegu rothöggi. S.s. Eins og lesa má þá vann myndin vel á þegar nær dró lokum hennar, en ekki má gleyma hversu hrikalega langdregin hún var á stórum köflum. Myndin sem var yfir tveir og hálfur tími á lengd hefði vel getað verið innan við tveggja tíma löng. Það leit út fyrir að rangar senur hefðu verið teknar úr myndinni, þ.e. bardagasenur eða góðar sögulegar senur í staðinn fyrir langdregnar ástarsenur og óskiljanlegar og svæfandi senur. Ég bara á erfitt með að skilja þennan stíl sem myndin býr yfir, hann er ekki alveg að ganga upp. Myndin sem á að hafa mikið sögulegt gildi kítlar áhorfandann lítið sögulega séð og nær ekki fram miklum tengslum við áhorfandann. Myndartökurnar hjálpa myndinni lítið, en í raun er það helst leikurinn í myndinni sem hjálpar henni mest og Will Smith má eiga það að hann sýnir og sannar í þessari mynd að hann getur vel leikið, og það er alls ekki hægt að setja út á leik annarra í myndinni, hún er vel leikin og þar hefur leikstjórinn unnið starf sitt vel, en túlkun hans á sögunni er frekar slæm og atburðarrásin sem slík gengur illa upp og gerir þessa mynd að einni af þeim fjölmörgu sem flokkast sem einnota myndir, maður nennir varla að sjá hana aftur. Ekki vera syfjaður/syfjuð þegar þú sérð þessa mynd, þú átt eftir að geispa talsvert, a.m.k. fyrstu 6-7 loturnar. Ali vinnur samt með naumindum, og þegar upp er staðið er bardaginn bara allt í lagi afþreying!
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Shrek
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Shrek er þrælskemmtilegt ævintýri sem höfðar til allra aldurshópa. Erfitt er að gera upp á milli Shrek og Monsters Inc. sem bestu teiknimynda síðasta árs. Shrek hefur meiri húmor, Monsters Inc er hugljúfari en er samt þrælfyndin líka. Mér finnst Monsters Inc eilítið betur teiknuð, þó vart sé hægt að gera upp á milli þeirra.

'Persónu'sköpunin er frábær, og fara Mike Myers og Eddie Murphy á kostum sem aðalraddir myndarinnar. Þekkt ævintýri eru fléttuð á skemmtilegan hátt inn í myndina og má segja að það sé það sem heldur myndinni saman og geri myndina að því sem hún er.

Eins og oft áður (þó ekki alltaf), þá er íslenska útgáfan ekki nálægt því eins góð og enska útgáfan, sama má segja um Monsters Inc.

Ég mæli hiklaust með Shrek og þá mæli ég með því að þeir sem hafa yfir DVD tækninni að ráða að fjárfesta í eintaki. Þeir sem eru með DVD spilara í tölvu geta svo t.d. talað inn á nokkrar senur í myndinni sem er þrælskemmtilegt!

Þessi mynd er eitthvað sem enginn sem einhvern snert af skilningi hefur á húmor ætti að láta framhjá sér fara.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Moulin Rouge!
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Ég var í smá vanda hvort ég ætti að velja þrjár og hálfa eða fjórar stjörnur í einkunnargjöf á myndina, fjórar stjörnur varð niðurstaðan, þá sérstaklega fyrir djörfung myndarinnar. Þ.e. hér var ekki ráðist á garðinn þar sem er lægstur, hér er eitthvað nýtt og ferkst á ferð sem er hreint kvikmyndaundur og gengur svo fullkomlega vel upp.

Persónusköpunin er mjög góð og leikur allra er nánast flekklaus. Nicole Kidman fer á kostum í hlutverki sínu sem Satine. Ástralski leikstjórinn Baz Luhrmann skilar þvílíkum leikstjórasigri að vart fá orð því lýst, áður hefur hann leikstýrt Romeo + Juliet (1996) og Strictly Ballroom (1992). Þegar myndin var hér í bíó var mér bent á að ég yrði að sjá hana í bíó því þar nýtur hún sín best. Einhverra hluta vegna varð ekkert úr því, þannig að ég sá hana bara heima á DVD og hækkaði sæmilega í heimabíógræjunum til reyna að upplifa stemningu myndarinnar sem best. Það virkaði, en ég veit núna afhverju ég átti að sjá myndina í bíó, þetta er ein STÓR bíómynd!

Tónlist myndarinnar er frábærlega vel fléttuð við söguþráðinn, og fólk sem var ungt uppi á þeim tímum þegar mörg lög myndarinnar voru vinsæl fær skemmtilega upprifjun á þeirri tónlist. Nicole Kidman sannar að hún getur sungið og það vel. Ewan McGregor getur heldur betur líka sungið og þau smellpössuðu bæði í sín hlutverk.

Þessi kvikmynd er ein af betri myndum kvikmyndasögunnar að mínu mati og ótrúleg upplifun er að sjá hana. Ég verð eflaust einn af þeim fyrstu að festa kaup á henni á DVD þegar hún kemur út hér á landi. Ég vona að Moulin Rouge! taki sem flesta óskara í ár, og þá helst fyrir bestu kvikmyndina og besta kvenhlutverkið. Ef þú hefur ekki séð þessa mynd, þá verður þú bara að sjá þessa mynd áður en þú sérð nokkuð annað!
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Eyes Wide Shut
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

SNILLD! Það er orðið yfir þessa mynd. Ég hafði virkilega gaman af þessari síðustu Kubrick-mynd. Það eru greinilega mjög skiptar skoðanir um myndina eins og það sýndi sig þegar við fórum fjórir félagarnir á myndina, því álit okkar á myndinni var nokkuð misjafnt. Það er alveg hægt að segja að boðskapurinn sé augljós þegar upp er staðið, en hann er sá sami og í t.d. Big Swap. Þetta er alls ekki mynd sem þarf að sjá í bíó, þó það skemmi ekki. Myndin er ekta Kubrick-mynd þó svo að ég hafi ekki séð þær allar, margt í myndinni minnti á t.d. Shining, þar má nefna sérstaklega tónlistina sem að vísu er kannski full ýkt á köflum en nær að byggja upp drungalega spennu, og svo reyndar tökustílinn (einnar-vélar-tökur) sem er eitt aðalsmerkja Kubricks. Hvað leik hjónanna varðar, þá skila þau bæði afbragðsleik, þó margir minnist sérstaklega á góðan leik Kidman, þá fannst mér leikur hennar ekki eins lýtalaus og Cruise. Myndin er alls ekkert svo svakalega svæsin, og held ég að tilgangurinn sé alls ekki að reyna að hneyksla fólk með myndinni, þó að í sumum tilfellum geri hún það kannski. Kubrick kann virkilega að teygja lopann, og þá á réttan hátt. Myndin byggir skemmtilega upp spennu, og þráðurinn er í raun óútreiknanlegur, þess vegna má segja að myndin hafi ekki náð að vera beint langdregin þó hún hafi verið nokkuð löng. Alls ekki mynd fyrir alla, a.m.k. ekki fyrir suma sem horfa á myndir með afþreyingargildi eingöngu í fyrirrúmi því myndin er listræn skemmtun frá A-Ö.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
A Beautiful Mind
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

A Beautiful Mind á allar Óskarstilnefningarnar átta skilið í ár, og það kæmi mér ekkert á óvart ef Russel Crowe taka Tom Hanks takta og taki Óskarinn annað árið í röð, en Russel Crowe er nú tilnefndur þriðja árið í röð fyrir besta aðalkarlhlutverkið.

Ég vil ekki skrifa neitt um söguþráðinn, því það getur skemmt fyrir þeim sem ekki þekkja til um staðreyndir lífs John Nash sem myndin fjallar um. Þannig var því einmitt háttað þegar ég fór á myndina, það eina sem ég vissi var að þessi maður er stærðfræðisnillingur og haldinn geðklofa ásamt því að ég vissi að myndin er að mestu leiti sannsöguleg.

Mér finnst The Insider og Gladiator báðar mjög góðar myndir, en Russel Crowe fer með aðalhlutverk í þeim báðum. Þó voru hlutverk hans þar ekki nóg til að sannfæra mig um topp leikhæfileika hans. Hann hefur virkað á mig sem frekar óspennandi persóna og svolítið flatur leikari. Nú hef ég aftur á móti séð sönnun fyrir því hversu góður leikari hann í raun og veru er. Hann sýnir hreint snilldarleik í þessari mynd og missir aldrei taktinn alla myndina. Sama má segja um alla í aukahlutverkum og þá einna helst Jennifer Connelly. Þetta undirstrikar hvað Ron Howard er að skila góðri leikstjórn í myndinni. Hann nær fram mjög góðri persónusköpun allra leikara.


Ef þú hefur áhyggjur um að hér sé eingöngu einhver dramatísk væla á ferð þá er alls ekki svo, því myndin hefur að geyma mikinn fjölbreytileika; góðan húmor, smá spennu, dramatík, rómantík, óvænt plott og er hugljúf. Ég mæli hiklaust með þessari mynd, yfirbragð hennar er glæsilegt!
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Vanilla Sky
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Mér finnst vel skiljanlegt hve gagnrýni sem maður hefur lesið um Vanilla Sky er mjög svo misjöfn. Myndin er alls ekki fyrir alla, en ég hef mjög gaman að sjá svona pælingamyndir og ferskar og djarfar hugmyndasmíðar settar á filmu þar sem topp fólk kemur að vinnslu myndarinnar. Topp leikarar og leikstjórar eru sífellt að reyna að fara nýjar leiðir og reyna að koma áhorfandanum á óvart, líkt og með nýlegum myndum eins og Memento, Moulin Rouge!, Fight Club, A.I. o.fl. (Eina myndin af þessum sem virkaði ekki var A.I.) Mér finnst virkilega gaman að sjá Tom Cruise taka svona djörf hlutverk að sér, líkt og hann gerði í Eyes Wide Shut og Magnolia. Hann er samur við sig hér og skilar hlutverki sínu mjög vel, Cameron Diaz, Kurt Russel, Jason Lee voru líka nokkuð góð í sínum hlutverkum. Myndatökurnar voru frábærar og 'weird' tónlistin smellpassar við myndina. Mér finnst virkilega gaman af því hvað söguþráðurinn opnar margar dyr fyrir manni og maður þarf virkilega að pæla í ferlinu, en eftir því sem maður pælir meira þá fer maður bara í hringi og það er flott! Myndin fékk mann til að pæla vel lengi á eftir, og þegar ég vaknaði morguninn eftir þá var ég enn að pæla í plottinu. Það sem lyfti myndinni virkilega upp er léttleikinn sem er fljótandi í gegnum myndina og maður skellti nokkrum sinnum upp úr þrátt fyrir hversu myndin var 'weird'.

Eins og lesa má, þá var myndin mér vel að skapi og ég fagna því hvað topp leikstjórar og leikarar eru sífellt að taka að sér djarfari verkefni. Ef þú ert að leita eftir týpsískri 'rennslumynd', þar sem plottið reynir ekkert á áhorfandann, þá er þetta ekki mynd fyrir þig, en ef þú vilt sjá eitthvað ferskt og virkilega flott kvikmyndaundur, þá er Vanilla Sky algjört möst!
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Monsters, Inc.
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Enn og aftur nær Pixar fyrirtækið að koma manni á óvart! Þvílíkar teiknibrellur, þessi mynd er hreint augnakonfekt! Fyrir myndina var sýnd stuttmyndin 'For the Birds' (2000) frá Pixar, sem er alveg frábær skemmtun, áður hafa Pixar gert nokkrar stuttmyndir, og má segja að þetta hafi allt byrjað hjá þeim með stuttmyndinni 'Luxo Jr.' frá árinu 1986, s.s. 16 ára gömul og ótrúlega flott enn í dag! Aðrar myndir utan 'Monsters Inc.' sem Pixar hefur gert í fullri lengd eru 'Toy Story' (1995), 'A Bug's life' (1998) og 'Toy Story 2' (1999). Í vinnslu hjá þeim er neðansjávarteiknimyndin 'Finding Nemo' sem er áætlað að verði sýnd á næsta ári (2003).

'Monsters Inc.' hefur á að skipa frábærri karaktersköpun sem eru túlkaðar á einstakan hátt með röddum Billy Crystal (Mike), John Goodman (Sulley), Steve Buscemi (Randall) o.fl. Billy Crystal er í stjörnuhlutverkinu hér. Kerlingin sem er alltaf að heimta skýrslurnar af 'Mike' minnir mig ótrúlega á einn af karakterum Ladda (mjög svipuð kerling). Söguþráðurinn er mjög skemmtilegur fullur góðs boðskapar og gengur algjörlega upp. Þetta er ekki bara mynd fyrir börn því allir aldurshópar ættu að geta skemmt sér stórkostlega yfir henni.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Bandits
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Ég gerði mér ekki miklar vonir með þessa mynd og fór því með það hugarfar á myndina að reyna að hafa eitthvað gaman af henni.

Eins og svo oft áður í myndum með Bruce Willis, þá er annar leikari en hann sem heldur myndinni uppi og gerir myndina skemmtilega eða áhugaverða(sbr. Whole Nine Yards, Armageddon, 12 Monkeys). Bruce Willis selur manni miðann en annar sér um að skemmta manni. Hér er það Billy Bob Thornton sem fer á kostum, snilldarleikur hans hér varð til þess að hann var tilnefndur sem besti leikarinn í gamanmynd/söngvamynd á Golden Globe verðlaunahátíðinni í janúar 2002. Persónusköpun og túlkun hans er alveg frábær. Hann leikur Terry Lee sem þvælist með í stroki Joe Blake (Bruce Willis) úr fangelsi. Terry er haldinn öllum þeim fóbíum sem til eru, og telur sig haldinn ótrúlegustu sjúkdómum. Saman fara þeir að ræna banka og verða með tímanum vinsælir bankaræningar. Kate Wheeler (Cate Blanchett) slæst fljótlega í hópinn, en hún er á flótta undan leiðinlegu hjónabandi. Ágætis flétta verður úr þessu öllu saman og í endann þegar upp er staðið er hér um þrælskemmtilega afþreyingu að ræða, og þá er það ekki síst Billy Bob Thornton að þakka!
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Dr. Dolittle 2
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Ég ákvað að leigja þessa mynd þó svo að ég hefði orðið fyrir miklum vonbrigðum með fyrri myndina. Hér er saman komið að stórum hluta sama lið og gerði fyrri myndina, en þó er nýr leikstjóri við stjórnvölinn hér. Og það er kannski einmitt það sem reddar þessari mynd fyrir horn. Eddie Murphy er í aðalhlutverki eins og í fyrri myndinni sem Dr. Dolittle. Eddie Murphy skilar hlutverki sínu vel en áreynslulaust. Það sem heldur myndinni uppi eru skemmtilegar senur dýranna í myndinni, Michael Rapaport sem er í einu aðaldýrahlutverkinu er nokkuð góður, ásamt aðalröddum Steve Zahn og Lisa Kudrow. Ótrúleg vinna liggur á baki myndarinnar, því taka þurfti upp hvert dýr fyrir sig í hverri senu, meira að segja þar sem 10-20 dýr voru saman í senu, þá var hvert þeirra tekið upp sér og síðan var þessu öllu saman splæst saman í eina senu. T.a.m. kom Eddie Murphy aldrei nálægt birninum Archie við gerð myndarinnar, þessu var öllu splæst saman eftir á! Vondu karlarnir sem Jeffrey jones og Kevin Pollak léku voru full-máttlausir, Kevin Pollak var t.a.m. alveg laus við góða karaktersköpun, og mætti halda að hann hafi verið með flensu þegar hann lék í myndinni (svolítið annað en þegar hann lék Janni Gogolak í Whole Nine Yards, þar var hann frábær).

Í heildina er þetta nokkuð betri mynd en fyrri myndin. Myndin hefur sæmilegt afþreyingargildi, er ágætis skemmtun og þá eru það senurnar og húmorinn í kringum dýrin sem halda myndinni á floti.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Good Advice
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Ég bjóst í raun ekki við miklu þegar ég fór á þessa mynd. Denise Richards hefur alltaf farið svolítið í taugarnar á mér, en það er einmitt málið með hlutverk hennar í myndinni, sem betur fer. Ferill Charlie Sheen hefur ekki að geyma margar stórmyndir, en ljóst er að hér er á ferðinni ein af hans 10 bestu myndum. Þessi mynd gæti hjálpað honum að ná einhverri smá uppsveiflu, Þó að það nái varla hátt. Hvað um það, myndin kom mér nokkuð á óvart, og útkoman er þrælfín afþreying. Leikur Charlie Sheen er bara fínn. Myndin rennur ljúft og maður slappar ágætlega af yfir henni. S.s. engin vonbrigði hér á ferð.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
The Glass House
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg

Þegar ég sá trailerinn úr þessari mynd, þá fannst mér hún svolítið bera keim af myndinni Sleeping with the enemy með Juliu Roberts. Ég hafði séð að þessi mynd hafi verið að fá ekkert sérstaka dóma, því fór ég á hana með því sjónarmiði. Framan af var myndin bara þokkalega áhugaverð, ágætlega upp byggð og gerði persónunum ágætlega skil. En þegar nær dró lokum hennar, þá varð hún full klisjukennd, og mér fannst endaatriðið í bláendann jafnvel alveg tilgangslaust, það hefði verið hægt að vinna mun betur úr því. Allan tímann fannst mér myndin minna á yfirbragð Sleeping with the enemy, stórt afskekkt hús, aðalkvenhlutverkið í lífshættu gagnvart aðalkarlhlutverkinu, rigning og fáar persónur einkenna þær báðar. Gæði myndanna eru álíka.

Leelee Sobieski er ung(f.1982) og efnileg leikkona sem skilar hlutverki sínu vel, hún lék t.a.m. í Eyes Wide Shut, Never Been Kissed, Deep Impact og svo muna eflaust einhverjir eftir henni í sjónvarpsútgáfunni af Joan of Arc (eitt besta hlutverk Sobieski hingað til) sem mörgum finnst betri en kvikmyndaútgáfa Luc Besson frá sama ári (1999).

Útkoman er þokkaleg afþreying og er myndin ekki meira en vídeómynd, s.s. bíðið eftir að hún komi á leigurnar.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei