Náðu í appið
Gagnrýni eftir:Borgríki
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Reykjavík er ekki lengur lítil saklaus borg
Borgríki er spennumynd úr undirheimum Reykjavíkur, frá leikstjóranum Ólafi Jóhannessyni sem greinilega hefur þroskast talsvert í kvikmyndagerð. Myndin minnir á Stieg Larsson myndirnar og er svona svolítið „erlendis“. Fyrirhugað er að endurgera myndina í Hollywood. Sagan gerist á skömmum tíma í Reykjavík nútímans. Aðalsögupersónurnar eru fjórar. Þær eru í upphafi kynntar inn á mjög lauslegan hátt með áherslu á andstæðurnar og þann örlagavef sem tengir þær saman. Segja má að þessi lauslega persónusköpun bitni á trúverðugleika þeirra í myndinni. Myndin heldur manni uppteknum allan tíman með góðri keyrslu í stuttum senum. Sagan og handritið er unnið af metnaði. Hoppað er fram og aftur í tíma til að varpa betra ljósi á atburðarrásina. Virkar kannski ruglandi ef ekki er fylgst vel með en kemur flott út.
Af fjórum aðal persónum myndarinnar eru það tvær sem skera sig úr hvað varðar dýpt og trúverðugleika. Serbin Sergej, leikinn af Zlatko Krickic og lögreglukonan Andrea sem leikin er af Ágústu Evu Erlendsdóttur. Bæði í uppnámi og hefndarhug, skila þau sínum persónum vel með góðum leik og mögnuðum sjarma. Gamli þreytti glæpaforinginn Gunnar, sem leikinn er af Ingvari E. Sigurðssyni, virkar ekki alveg þótt Ingvar sé einn af betri leikurum landsins. Kannski er meiningin að gera grín að íslenskum glæpmönnum líkt og gert var í Sódómu Reykjavík. Íslenska glæpaklíkan voða fámenn og tannlaus miðað við erlendu harðjaxlana sem hún á í útistöðum við. Sigurður Sigurjónsson fer svo með hlutverk Margeirs sem er gjörspilltur yfirmaður hjá Fíknó. Einföld og aumkunarverð persóna sem búin er að koma sér á kaf í skítinn. Hér er sjáum við Sigga í alveg nýju ljósi. Hann er afbragðs leikari en spaugstofuímyndin er erfið að hrista af sér. Handritið er svo auðvitað að setja leikurunum nokkuð ákveðin mörk í persónutúlkun sinni. Slagsmálasenurnar eru lifandi og raunverulegar, framkvæmdar af piltunum í Mjölni.
Leikstjórinn er oft á tíðum að ná góðum leik út úr óvönum og lítt reyndum leikurum. Hér er hann líka með reynda leikara í algjörlega nýjum aðstæðum. Ofbeldi undirheimana er hér sýnt á óvæginn hátt þótt finna megi hrottalegri lýsingar í dómskjölum. Nokkur atriði myndarinnar eru ekki fyrir viðkvæma og eitt atriðið situr sterkt eftir í minningunni. Umhverfið eru undirheimar höfuðborgarsvæðisins þar sem fléttast saman eiturlyf, vændi, þrælahald, handrukkarar, spilltar löggur, harðar fíknólöggur, erlendir harðjaxlar og íslenskir glæpamenn. Drifkraftur myndarinnar er ástin sem fær sumar persónurnar til að sýna á sér tvær algjörlega andstæðar hliðar. Þá mjúku og hlýju á móti hinni hörðu og köldu hlið.
Spurningin er, hversu langt ert þú tilbúin að ganga fyrir þann sem þú elskar ?
Góð afþreying sem óhætt er að mæla með.

Leikstjórinn Olaf de Fleur Jóhannesson er þekktastur fyrir myndir eins og Blindsker, Kurteist fólk og Stóra planið. Framleiðendur eru Ólafur og Kristín Andrea Þórðardóttir. Aðalleikarar myndarinnar eru Ingvar E. Sigurðsson, Ágústa Eva Erlendsdóttir, Sigurður Sigurjónsson og Zlatko Krickic en í aukahlutverkum ber að nefna Björn Thors, Björn Hlyn Haraldsson, Elvu Ósk Ólafsdóttur, Gísla Örn Garðarsson, Gladkaya Luna og Johnathan Price.
Handritið skrifuðu þeir Ólafur og Hrafnkeli Stefánsson á 2 mánuðum. Myndin tók 14 mánuði í klippingu þar sem hún þróaðist talsvert.
Kvikmyndatakan og klippingarnar eru nokkuð vel gerðar en bera þess merki að myndin er tekin upp á EOS ljósmyndavélar með kvikmyndaupptökumöguleika. Það er að takmarka möguleika í tökum og fókusinn er aðeins til vandræða. En þetta skilar hasarnum samt alla leið. Hljóð í myndinni er gott og kvikmyndatónlistinn í bakgrunni gefur rétta stemmingu á réttum stöðum. Borgríki inniheldur nær eingöngu tónlist frá íslenskum listamönnum.

Íslenskt og erlent tal með íslenskum texta. október2011
Sýnd í Laugarásbíó, Smárabíó og Háskólabíó ásamt Borgarbíó Akureyri og fleiri kvikmyndahúsum á landsbyggðinni.

Einkunn: XXX (3 af 5)

siggi@svipan.is
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Super 8
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Notalegt afturhvarf til bernskunnar
Super 8 er eins og sérstaklega skrifuð fyrir Steven Spielberg, sem er einn aðal framleiðandinn. Jeffrey Jacob Abrams, handritshöfundurinn og leikstjórinn er reyndar mikill aðdáandi verka Spielbergs.

Myndin gerist í Bandaríkjunum árið 1979 og fjallar um vinahóp, börn sem eru að búa til stuttmynd á super 8 tökuvél. Þau verða vitni að rosalegu lestarslysi þar sem einhver óvættur er um borð. Innan skamms fer í gagn dularfull atburðarás þar sem krakkarnir eru í kröftugri hringiðu atburða.

Sorg og söknuður er í bakgrunni myndarinnar þar sem ein aðal söguhetjan var að missa móður sína í slysi og hefur það áhrif á hóp af fólki sem tengist þeim atburði. Hugarheimur og umhverfi barnanna skilar sér í gegn ásamt tíðarandanum, oft í einlægum og broslegum senum sem rifja upp bernskuár þeirra sem fæddir eru í kringum 1965 – 1970. Fyrir börn og unglinga í dag er þetta ólíkur en áhugaverður heimur, þarna fyrir 32 árum árið 1979.

Lestarslysið er ótrúlega flott og vel gert. Eins og það ætli engan endi að taka. Þvílík læti. Óvætturinn dularfulli í lestinni, sýnir sig smátt og smátt í spennandi ferli sem er mikil ráðgáta fyrir áhorfandann. Minnir talsvert á stigmagnandi uppbygginguna í myndinni Jaws.

Börn eru í nær öllum aðalhlutverum í þessari mynd. Joe og Alice eru aðalpersónurnar. Þau tengjast saman á fleiri en einn hátt, bæði jákvæðan og neikvæðan og kallar það fram flókna og erfiða fléttu á milli þeirra sem skilar sér í gegnum handritið, næmni í leikstjórn og efnilegum tilþrifum ungu leikarna, Joel Courtney og Elle Fanning (litla systir Dakota Fanning). Kyle Chandler þekkjum við úr King kong og Grey´s anatomy. Hann leikur lögguna, pabba hans Joe.

Þessi saga er fjarri því að vera frumleg og er í rauninni á flestan hátt verið að endurgera þá upplifun og takta sem er að finna í mörgum mynda Spielberg frá fyrri tíð. En það er ekkert nýtt í Hollywood að notuð séu gömul stef í nýjum verkum. Hér er það notalegt afturhvarf til bernskunnar þar sem bæði Abrams og Spielberg spegla sig í þessum ungu persónum myndarinnar sem byggðar eru á þeim sjálfum á margan hátt.

Kvikmyndatakan, klippingin og hljóðvinnslan er óaðfinnanleg. Lög frá lokum 8. áratugarins heyrast í myndinni. Gömul uppáhaldslög frá ELO ofl. Þessi mynd virkar vonandi sem hvatning fyrir ungu kynslóðina að búa til kvikmyndir. Það er mun auðveldara nú en fyrir 32 árum.

Myndin er fyrir alla aldurshópa. Foreldrar hafa gaman af að fara með börnin og unglingana. Ekki rjúka strax út eftir að textinn byrjar að rúlla í lok myndarinnar.

Þó að ég hefði viljað sjá frumlegri endi þá er Super 8 ein skemmtilegasta mynd sem ég hef séð lengi.

Leikstjórinn og handritshöfundurinn J.J Abrams er best þekktur fyrir aðkomu sína að Lost, Fringe, Star trek, Mission Impossible III ofl
Framleiðandinn er sjálfur Steven Spielberg ásamt öðrum.

50 milljón US dollara mynd í dreifingu hjá Paramount.
Enskt tal með íslenskum texta. 112 mínútur, bönnuð innan 10 ára, frumsýnd í júní 2011
Sýnd í SAMbíóum og Smárabíó.

Einkunn: þrjár super 8 mm spólur (3 af 5)

siggi@svipan.is
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
X-Men: First Class
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Upphaf hinna stökkbreyttu
Aukin tækni í kvikmyndaiðnaðinum færir okkur sífellt lengra inn í ævintýraveröld sem áður var okkur aðeins kunnug í teiknimyndablöðum síðustu aldar.

Þessi mynd sýnir okkur upphafið og kynnir okkur fyrir helstu ofurhetjunum úr fyrri X-men kvikmyndunum. Persónusköpun og uppbygging myndarinnar er skemmtileg og vel gerð. Þeir sem hafa séð hinar X-men myndirnar, fá nú að sjá hvernig þetta byrjaði allt saman. Fylgst er með hvernig hinir ungu stökkbreyttu uppgötva óvenjulega hæfileika sína, taka höndum saman undir stjórn Xaviers, gegn öðrum stökkbreyttum mönnum undir stjórn hins illa prófessors Shaw, sem vinnur að því að koma skelfilegum áformum sínum í framkvæmd. Sögusviðið nær allt aftur til fangabúða nasista í Póllandi í lok seinna stríðs. Erik er knúinn áfram af hatri og hefndarhug á meðan Charles Xavier lætur göfugar hugsjónir sýnar ráða ferðinni í baráttu milli góðs og ills. Mannkynssögunni er fléttað skemmtilega inn í myndina sem gerist að mestu leiti í upphafi 7. áratugarins, þar sem Kennedy er forseti, kalt stríð geisar á milli USA og Sovétríkjanna. Sumt minnir talsvert á James Bond mynd. Stuðst er við Kúbudeiluna sem vettvang aðal átakanna á milli góðs og ills. Heimurinn er nokkur sekúndubrot frá tortímingu á meðan hinir stökkbreyttu X-menn berjast hatrammlega með öllum sýnum fjölbreyttu ofurkröftum og klækjum.

Kvikmyndatakan og klippingarnar skila hasarnum alla leið. Sjónrænar brellur og tölvugrafík er af dýrari gerðinni og sómir sér vel í þessu umhverfi 7. áratugarins. Hljóðrásin er flott og kvikmyndatónlistinn sjálf gefur fína fyllingu og hughrif á réttum stöðum. Persónusköpunin er að skila sér og helstu leikarnir eru vel kunnuglegir þó þeir séu flestir af yngri kynslóðinni. James McAvoy og Michael Fassbender eru samt sennilega þekktastir ásamt flottum ungum leikkonum eins og Rose Byrne (Knowing), Jennifer Lawrence (Oscars-tilnefnd fyrir Winter’s Bone) og January Jones úr Mad men sjónvarpsþáttunum. Sögusagnir segja að Vaughan leikstjóri hafi ekki eingöngu leikstýrt January Jones.

Flott mynd, heldur manni við efnið allan tíman með góðri keyrslu. Heilsteypt handrit og leikstjórn er að skila hörku hasar, sjónarspili og brellum en um leið vel útfærðri bíómynd.

Leikstjórinn Matthew Vaughn er fertugur Englendingur sem leikstýrt hefur myndunum Layer Cake, Kick-Ass og Stardust en aðallega fengist við að framleiða kvikmyndir með besta vini sínum, leikstjóranum Guy Ritchie (fyrverandi maður Madonnu). Vaughan er kvæntur ofur-fyrirsætunni Claudiu Schiffer.

Handritshöfundarnir Ashley Miller og Zack Stentz eru þekktir fyrir að skrifa sjónvarpsþætti byggða á vísindaskáldsögum og nú síðast fyrir handrit af ofurhetjumyndinni Thor.
Framleiðandinn er Bryan Singer, sá sem leikstýrði fyrstu tveimur X-men myndunum.
Dr. X, Charles Xavier er leikinn af hinum skoska James McAvoy (Atonement og The Last King of Scotland)
Erik Lehnsherr (Magneto) er leikinn af hinum þýska Michael Fassbender (Hunger, Centurion, Inglourious basterds)
Professor Sebastian Shaw er leikinn af Kevin Bacon (Footloose, Mystic River)
Jennifer Lawrence leikur Raven Darkholme (Mystique), blái hamskiptingurinn.
January Jones leikur demantagelluna Emmu Frost með sína ofurkrafta.
Rose Byrne leikur Moira McTaggart hjá CIA.

160 milljón US dollara mynd frá 20th Century Fox.
http://www.x-menfirstclassmovie.com/
Enskt tal með íslenskum texta. 132 mín á lengd. júní 2011
Sýnd í Smárabíó, Borgarbíó, Laugarásbíó og SAMbíóum Egilshöll.

Einkunn: XXXX (4 af 5)
siggi@svipan.is
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Pirates of the Caribbean: On Stranger Tides
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Sjóræningjar í 3-vídd. Fleiri ævintýri Jack Spar
Eftir skrautlegt og hressandi upphafsatriði myndarinnar er lagt af stað í ferð um höfin í leit að hinum goðsagnakennda æskubrunni. Jack Sparrow (leikinn af Johnny Depp) og Hector Barbossa (leikinn af Geoffrey Rush) Fljótlega kemur í ljós að Svartskeggur, sjóræninginn alræmdi (leikinn af Ian McShane) er einnig í leit að því sama ásamt föngulegri dóttur sinni Angelicu (leikin af Penélope Cruz). Jack Sparrow þekkir hana frá fyrri tíð. Inni í ævintýrið fléttast seiðandi hafmeyjar og framandi staðir með ævintýraljóma. Þrátt fyrir minni tilkostnað en síðast, þá er áfram skartað veglegri sviðsmynd með flottum búningum, förðun, kvikmyndatökum og útisenum sem að þessu sinni eru að mestu teknar á Hawaii. Gamli félaginn Gibbs, (leikin af Kevin McNally), er enn í för með Jack líkt og í hinum myndunum. Englendingurinn Sam Claflin og hin spænsk-franska Astrid Berges-Frisbey leika trúboðann Philip og hafmeyjuna fögru, Syrenu.
Gaman er að sjá Keith Richards bregða fyrir aftur og Judi Dench birtist í stuttu atriði í upphafi.
Hljóð og klipping er óaðfinnanlegt og tónlist Hans Zimmer er mjög kunnugleg. Myndin er byggð nokkuð svipað upp og hinar 3 þó nú sé líka byggt á raunverulegum sögulegum persónum, ekki bara skáldskap. Leikstjórinn er annar en í hinum þremur myndunum. Í stað Gore Verbinski er kominn Rob Marshall. Hann er þekktastur fyrir dans- og söngleikjamyndir en ekki svona ævintýrahasar.
Myndin er ekki mjög frumleg, ferskleikann vantar skiljanlega og hún er of langdregin. Skrifast það aðallega á leikstjórann og handritshöfundana sem hér eru þeir sömu og í hinum þremur myndunum á undan. Sérhæfðir í handritum ævintýramynda, en hér er ekki alveg nógu mikið að gerast til að halda manni við efnið allan tíman. Skondnir orðaleikir og hnyttin tilsvör eru þó víða í handritinu, sem vekja hlátur áhorfenda. Þrívíddin gerir þessa mynd ólíka hinum og opnar aðra sýn á þennan vinsæla ævintýraheim. Þrívíddin er samt alls ekki ofnotuð, heldur látin keyra látlaust og gefur senunum góða dýpt og meira líf. Talsvert er um sjónrænar brellur og tölvugrafík líkt og áður. Gamlar aðalpersónur úr myndunum eru á bak og burt en nýjar koma í staðinn. Aðalleikararnir skila sínu enda ekki neinir byrjendur í faginu. 47 ára gamall Johnny Depp er vissulega miðpunktur athyglinnar að vanda með sína litskrúðugu og einstöku túlkun á sjóræningjanum Jack Sparrow þó svo að taktarnir séu kunnuglegir fyrir þá sem hafa séð hinar þrjár myndirnar. Hann fær rúmlega 55 milljón bandaríkjadali fyrir hlutverk sitt. Gyðjan frá Madrid, Penélope Cruz er ekki bara falleg, seiðandi og suðræn heldur skilar sinni persónu ágætlega. Oscarsverðlaunahafinn ástralski, Geoffrey Rush gefur Barbossa enn og aftur eftirtektarverðan karakter en Ian McShane nær ekki alveg að skelfa mann eins og til var ætlast sem hinn hræðilegi Svartskeggur sjóræningi. Einna skemmtilegasti hasarinn er í upphafi myndarinnar í London. En nú er að sjá hvort að allir komast lifandi úr þessari ævintýraferð ? Rifja Jack og Angelica upp gömul kynni ? Hver verður fyrstur til að finna æskubrunninn og hvaða afleiðingar hefur það ? Myndin er ljómandi afþreying og þess virði að sjá fyrir þá sem hafa gaman af framandi ævintýrum, gríni og hasar í flottri umgjörð.

Einkunn: 3 af 5 hauskúpum
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei