Náðu í appið
Gagnrýni eftir:Biutiful
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Vanstillt en góð
Biutiful

Ef þið farið inn á rottentomatoes.com og skoðið feril Alejandro González Iñárritu má sjá skýra stefnu í viðbrögðum gagnrýnenda við myndunum hans: niður á við. Frá hinni oflofuðu Amores Perros hefur hann skafið ofan af meðaleinkuninni með hverri myndinni á fætur annarri, og Biutiful rétt nær að kallast ferskur tómatur (66% lofsamlegir dómar eins og er). Hinsvegar hefur mér persónulega þótt Iñárritu eflast með hverri mynd, og Babel þykir mér hans besta verk, svo ég bar miklar væntingar til Biutiful. Því miður er þessi öfuga fylgni minna skoðanna og almenningsálitsins ekki raunverulegt lögmál, því Biutiful er gölluð mynd, þó margt í henni rísi ansi hátt.

Í fyrsta sinn á ferli leikstjórans tekur hann fyrir eina aðalpersónu, Uxbal, sem birtist í svo að segja hverri einustu senu. Engu að síður svipar myndin til þeirra brotakenndu og fjölskiptu frásagna sem Iñárritu hefur orðið þekktur fyrir, því Uxbal er einhverskonar allsherjarreddari í undirheimum Barcelona, auk þess að eiga við ýmis fjölskyldu- og heilsufarsvandamál að stríða, svo hann berst á mörgum vígstöðum, flakkandi úr einni sögunni í aðra. Helsti styrkur myndarinnar er að Javier Bardem sinni þessu kjölfestuhlutverki, en hann er hreint út sagt frábær sem Uxbal: þreytan, óþægindin, efinn og óttinn sem hrannast upp í lífi aðalpersónunnar eru merkjanleg í hverri hreyfingu leikarans.

Uxbal sér um atvinnumál ýmissa ólöglegra innflytjanda, bæði frá Senegal og Kína, og félagsleg vídd myndarinnar birtist helsts í tengslum við þá. Þá er hann nokkurnvegin einstæður faðir tveggja barna, þar sem móðir þeirra á við geðhvarfasýki að stríða og er flutt út, og þegar við komum til leiks er ljóst að maðurinn á við einhvern alvarlegan sjúkdóm að stríða, sem reynist vera krabbamein – eins og þið heyrið er ekki létt yfir myndinni.

En það er í góðu lagi, nóg er af ofurhetjum og teiknimyndum í bíó ef maður vill endalaust hressa sig við, en raunveruleikinn er erfiður. Hinsvegar notar Biutiful eymdina á köflum ósmekklega til skreytingar og útlit myndarinnar er hannað til að draga eymdina sérstaklega fram; allt er skítugt og rakt, málning flögnuð, andlitin sveitt, litirnir brenndir og skerandi, og þetta er gert að fallegum, barokk uppstillingum. Myndatakan gefur einhvernvegin í skyn að þessi ömurlegu skilyrði séu falleg, án þess að maður kaupi það. Eins er með handritið, sem veltir sér upp úr saurnum og rembist við að gera allt subbulegt: ástarsena er látin eiga sér stað inni á almenningsklósetti, bróðir Uxbal sefur hjá rauðvínssullandi konunni hans, dvalið við nærmyndir af skordýrum án samhengis, hárugt hor er lokahnykkur rómantískrar sögu, bráðnaður ís er étinn með höndunum, rautt hland er sýnt lenda í klósetti allavega þrisvar sinnum o.s.frv. Iñárritu er einhvernvegin svo ánægður með eymdina, svo viss um að subbuskapur sé meira alvöru, að þetta verður hálfgert fátæktar- og veikindaklám.

Og þegar maður fær á tilfinninguna að verið sé að toga eftir og spila á tilfinningar manns, þá einmitt aftengir maður sig. Þar af leiðandi höfðu mjög tragískir atburðir í síðari hluta myndarinnar lítil áhrif á mig. Það vantaði raunverulega samúð kvikmyndagerðarmannanna með sögupersónunum. Góðir leikarar geta þó breytt miklu þar um, og Hanaa Bouchaib í hlutverki geðveiku eiginkonunnar var ekki síðri en Bardem, svo þeirra samband, auk alls sem hafði með börnin þeirra að gera, náði til mín. Útlit myndarinnar er líka visst afrek, þó það hafi ekki virkað með sögunni, því myndin er vissulega mjög falleg. Sama gildir t.d. um yfirnáttúrulegan þráð í myndinni – mér fannst hann ekki eiga heima þarna, en hann var fallega framsettur engu að síður.

Áhorfið var þannig langt því frá tímasóun, myndin var aldrei minna en áhugaverð og hver einasti einstaki þáttur hennar í raun óaðfinnanlegur, en samsetningin var virkilega gölluð, og fegurð felst í afstöðu hlutanna. Þegar öllu er á botninn hvolft þá er ég bara ósamála Iñárritu um hvað sé bjútifúl.
7/10
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Okkar eigin Osló
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Allt gengur upp
Okkar eigin Osló er búinn að fá vægast sagt góða dóma, en þegar blaðagagnrýnendur dæma íslenskar myndir er oftast ekkert að marka þá – þær fá aldrei minna en þrjár meðvirkar stjörnur, og strax fjórar, jafnvel fimm ef bara einhver snefill af hugsun eða sýn bætist ofan á “tæknilega færni” sem alltaf er nefnd. Núorðið ætti það ekki að koma neinum á óvart að íslensk mynd líti “alvöru” út, að ljósabúnaður hafi verið á settinu, að leikararnir hafi fengið að æfa sig. Það eru lágmarkskröfur, og sveitalegt að klappa sérstaklega fyrir því.

Okkar eigin Osló er þannig fullkomlega prófessjónal í öllu tilliti, og óþarfi að hafa fleiri orð um það. Hinsvegar er töluvert meira en snefill af hugsun og sýn sem réttlætir níuna sem ég ætla að næla á hana.

Plottið er ekki flókið; Haraldur og Vilborg eru tveir íslendingar sem hittast fyrir tilviljun í Osló og eiga þar eldheitar stundir. Vikuna eftir láta þau reyna á annað stefnumót, sem, fyrir röð tilviljana og óheppilegra atvika, endar í nokkurra daga sumarbústaðadvöl á Þingvöllum. Návígið reynir svo töluvert á nýfædda sambandið og óboðnir gestir misþyrma rómantíkinni enn frekar.

Myndin virkar fyrst og fremst því hún fjallar um karaktera sem eru af holdi og blóði. Haraldur, aðalpersónan sem Þorsteinn Guðmundsson leikur, er takt- og húmorslaus kerfiskall, sem þyrstir í eitthvað meira en hann hefur moðað úr lífi sínu. Ólíkt hinum týpíska fýlupoka þá er Haraldur hinsvegar ekki mannafæla og nöldrari, heldur ósköp góðhjartaður. Eftir því sem líður á myndina kemur líka hægt og bítandi í ljós að stjórnsemin og smásmuguleg reglufestan eru viðbrögð við rammskökku uppeldi og erfiðu umhverfi í æsku. Ólíkt uppgjörinu við móðurina í Bjarnfreðarsyni verður þetta hinsvegar ekki þunglamalegt og yfirdramatískt, enda ekki þungamiðjan í sögunni.

Og það er líklega stærsti kosturinn við OeO; hversu léttleikandi og snörp hún er út í gegn, svo gott sem hreinræktuð gamanmynd, án þess að verða farsakennd og tvívíð fyrir vikið. Það hefði vel verið hægt að segja þessa sögu í moll, en Reynir Lyngdal leikstjóri náði hárrréttum dúr, með nokkrum bláum nótum í bland. Sérstaklega er flott senan í lokin þegar Haraldur kemst loksins í almennilegt uppnám – þar er hressilegri tónlist stillt á móti alvöru tilfinninganna og óvænt, örsnöggt endurlit hittir mann beint í hjartastað.

Vilborg, sem Brynhildur Guðjónsdóttir leikur, er líka í glímu við fortíðina, en öllu meiri aksjón er í kringum hana og augljósara í fyrstu hversu týnd hún er. Vilborg er meingölluð, en fyrir hvern galla er kostur og maður skilur fullkomlega afhverju Haraldur getur sætt sig við alla vitleysuna sem hún hefur mætt með inn í líf hans.

Svo er myndin bara virkilega fyndin, mikið til vegna frábærra aukapersóna (og frábærra aukaleikara). Hilmir Snær og Laddi mjólka hvern dropa út úr sínum hlutverkum (sumir í salnum tóku því alvarlega þegar Hilmir Snær fór að skæla, en mér fannst það með fyndnustu atriðum í myndinni) en það er líklega María Heba sem stelur senunni sem misþroska systir Haraldar – gaman að sjá að einhver á Íslandi getur verið fyndin með andlitinu einu saman.

Auðvitað er myndin ekki lýtalaus; senan þar sem karakter Brynhildar missir sig undir dramatískum strengjatónum er stök feilnóta í annars léttu andrúmslofti myndarinnar og endirinn er ívið snubbóttur (þó það sé reyndar bætt upp með góðri aukasenu eftir að titlarnir byrja að renna). En heilt yfir frábær rómantísk gamanmynd, sem er sérstaklega ánægjulegt í ljósi þess hversu ömurlegar rom-com myndir Hollívúdd hefur boðið upp á undanfarin ár.
9/10
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei