Náðu í appið
Gagnrýni eftir:Green Zone
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Raunsæ mynd
Það fer þeim félögum Matt Damon og Paul Greengrass vel að vinna saman, Bourne myndirnar eru frábærar og Green Zone er ekki síðri. Myndin gerist í upphafi Íraksstríðsins og fjallar um hóp hermanna sem hefur það verkefni að finna gereyðingarvopn. Hermennirnir blandast inn í innbyrðisdeilur á milli CIA og hersins og úr verður hörkuspennandi flétta sem heldur áhorfandanum vel við efnið.

Myndin er hrá og klippingar hraðar sem gerir það að verkum að á stundum finnst manni eins og maður sé að horfa á ,,live" myndir úr stríðinu. Áhrifin verða þeim mun betri. Keyrslan er mikil og hasaratriðin fagmannlega unnin. Leikarahópurinn er þéttur og skilar sínu.

Green Zone er fyrsta flokks skemmtun fyrir unnendur góðra hasar- og stríðsmynda. Eins er hún ádeila á stefnu Bandaríkjastjórnar varðandi Íraksstríðið.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Alice in Wonderland
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Fallegt ævintýri, frábær mynd
Það er ekki að sökum að spyrja, þegar Tim Burton gerir eitthvað vel þá gerir hann það frábærlega. Nýjasta verkið hans, Alice in Wonderland er veisla fyrir augað. Hann skapar heim sem fangar athygli áhorfandans og heldur honum allan tímann.
Söguþráðurinn er, eins og allir ættu að þekkja, einfaldur og fjallar um Alice sem dettur ofan í kanínuholu og þar hittir hún fyrir ýmsar furðuskepnur og kvikindi. Hún blandast í deilur á milli hins góða og hins illa og reynist vera örlagavaldur í þeirri deilur.

Leikarahópurinn stendur sig frábærlega, Johnny Depp á tjaldið þegar hann er í mynd en senuþjófurinn er Helena Bonham Carter í hlutverki rauðu drottningarinnar. Ofleikur hennar er yndislegur.

Alice in Wonderland er frábær ævintýramynd fyrir alla fjölskylduna, virkilega vel útfærð og skemmtileg.
Helsti gallinn að mínu mati var útfærslan á þrívíddínni sem mér hefði fundist mátt vera betri.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Daybreakers
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Svöl hugmynd,slök úrvinnsla
Það er alltaf einhver sjarmi yfir vel heppnuðum vampírumyndum. Þær hafa samt verið fáar almennilega undanfarin ár. 30 Days of Night var góð en annað hefur verið slappt, þoli t.d. ekki þessar unglingavampírumyndir sem eru svo vinsælar núna eins og Twilight, New Moon og Tha Vampire´s Assistant.

Ég var mjög spenntur fyrir þessari mynd enda hugmyndin flott og frábærir leikarar. Í stuttu máli þá gerist myndin árið 2019 þegar vampírur ráða ríkjum og menn eru nýttir til blóðlosunar, ekki drepnir heldur nýttir til að fá meira blóð. Það eru bara svo fáir menn eftir að blóðið úr þeim dugar ekki nema í nokkrar vikur í viðbót og því keppast vampírurnar við að finna upp blóðlíki til að nota í staðinn. Á meðan svelta vampírurnar og uppreisn er yfirvofandi. Þessar fáu manneskjur sem eftir eru keppast við að halda frelsinu og aðilar í þeirra röðum búa yfir vitneskju um það hvernig má ,,lækna" vampírur og breyta þeim aftur í menn.

Myndin byrjar vel og heldur góðum dampi í svona 45 mínútur. En þá er eins og handritshöfundar hafi farið að rífast um það hvernig niðurlag myndarinnar ætti að vera því það hellast yfir allskonar útfærslur af misheppnuðum hasaratriðum, uppgjörf aðaleikaranna sem fer út um víðan völl, ruglingslegir eltingaleikir og almenn leiðindi. Tilvísun í helförina var t.d. alveg glötuð.

Leikarnir standa sig ágætlega, bestur er samt Sam Neil sem stendur alltaf fyrir sínu.

Fín mynd fram að hléi en svo hvorki fugl né fiskur eftir það.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Surrogates
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Ágæt, en hefði getað verið miklu betri.
Enn ein framtíðarmyndin sem byggir á því að vélarnar eru búnar að taka yfir og í þessari mynd eru þær einnig búnar að taka yfir mannleg samskipti og nánd.

Surrogates eða Staðgenglar gerist í framtíðinni og segir frá því þegar mannfólkið getur keypt sér staðgengla til þess að sinna öllum daglegum störfum. Markmiðið með því virðist fyrst og fremst vera til að koma í veg fyrir glæpi, slys og fordóma. Yfir 90% jarðarbúa styðjast við svona staðgengla en hin 10% lifa í lokuðum hverfum innan borganna. Þeir vilja ekkert með staðgenglana hafa og blanda ekki geði við þá. Staðgenglarnir eru heldur ekkert að hætta sér inn á svæði mannfólksins. Willisinn leikur löggu sem er að rannsaka morð á staðgengli og manneskjunni sem átti þann staðgengil. Þegar staðgengill Willisins skemmist neyðist hann til að fara út á meðal fólks og þá verður voðinn vís.

Hugmyndin er svo sem ágæt en úrvinnslan slök. Það er svo lítið útskýrt og framvindan verður því barnaleg og einföld. Myndin tekur sig og hátíðlega. Hún heldur manni samt alveg við efnið en er alveg laus við spennu. Nokkur ágæt hasaratriði halda myndinni í meðalmennskunni. Ágætis mynd til að horfa á í DVD eða sjónvarpi.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Couples Retreat
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Notaleg mynd
Couples Retreat er hefðbundin Hollywood formúlumynd sem hefur það eitt að markmiði að skemmta fólki burtséð frá gloppum í handriti og misjöfnum leik leikaranna. Og það tekst. Maður skemmtir sér bara þrælvel á þessari mynd.

Í stuttu máli fjallar myndin um fjögur vinapör sem fara í frí til hitabeltiseyja til að bæta sambandið. Pörin halda allavega að um frí sé að ræða en þegar þau mæta á staðinn eiga þau að taka þátt í allskonar verkefnum sem eiga að bæta sambandið. Að sjálfsögðu fer allt úrskeiðis sem hægt er að fara úrskeiðis og fjölmargar aukapersónur krydda myndina og halda áhorfendum við efnið.

Leikarnir standa sig flestir vel. Þar fer fremstur í flokki Vince Vaughn. Karakterinn sem hann leikur er svipaður þeim karakterum sem hann hefur leikið undanfarið, kannski aðeins mýkri. Jon Fareau og Jason Bateman eru einnig traustir. Það reynir ekki eins mikið á kvenleikarana enda snúast flestir brandararnir um karlana. Það eru þeir sem lenda í skrýtnum aðstæðu, þeir verða afbrýðissamir út í jógakennarann, þeir vilja djamma og djúsa, þeir telja að sín sambönd séu pottþétt og svona mætti lengi telja.

Couples Retreat er notaleg mynd. Hún rennur vel og með mörgum kómískum atriðum. Hún hefur góðan boðskap og lætur manni líða vel. Mæli með þessari fyrir þá sem vilja gleyma stað og stund og sleppa frá Icesave og öllu þessu og skreppa í smá frí í huganum.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Män som hatar kvinnor
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Varla hægt að gera betur.
Frændur okkar Svíar hafa heldur betur sótt í sig veðrið í kvikmyndaheiminum undanfarin ár. Hin stórgóða sænska hrollvekja "Let the Right One in" er nýkomin á DVD og nú er von á veislu því ,,Karlar sem hata konur" er fyrsta myndin í þríleik sem eru gerðar eftir bókum Stieg Larson. Myndirnar voru allar teknar upp á sama tíma og því eigum við kvikmyndaunnendur von á góðu því þessi mynd er meiriháttar góð.
Í stuttu máli fjallar myndin um blaðamanninn Mikael Blomkvist en hann er fenginn til að rannsaka 40 ára gamalt morðmál. Hann er tregur til að taka málið að sér sem við fyrstu sín virðist óleysanlegt. Eftir því sem hann skoðar það betur koma ljót fjölskylduleyndarmál uppá yfirborðið og uppgjör við fortíðina er óumflýjanlegt.
,,Karlar sem hata konur" er spennumynd af gamla skólanum. Byrjar rólega og byggir upp spennu og fléttan kemur virkilega á óvart, þ.e.a.s. fyrir þá sem ekki hafa lesið bókina. Styrkleiki myndarinnar felst fyrst og fremst í frábærum leik allra, það stígur engin feilspor og samleikur hinnar hálfísleku Noomi Rapace og Michael Nyqvist er lygilega góður.
Myndatakan er frábær og tónlist góð. Hér er á ferðinni ein besta spennumynd síðari ára. Vissulega er hún löng en maður finnur ekki fyrir því, hún er það áhugaverð. Það er stutt í norrænan húmor sem við Íslendingar ættum að kunna að meta.
Gæðamynd.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Battle for Haditha
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Mögnuð mynd
Stundum koma myndir sem rata beint á DVD. Flestar eru óttalegt rusl og ekkert skrýtið að þær rykfalli í hillum leiganna. En þessi mynd, Battle for Haditha, á ekki skilið að gleymast í hillunum. Hér er á ferðinni afar vönduð mynd um atburði sem gerðust í Írak. Myndin fjallar um það þegar herbíll á vegum Bandaríkjahers keyrir á sprengju í vegkantinum með þeim afleiðingum að einn hermaður lést. Atburðirnir sem gerðust í kjölfarið voru vægast sagt hræðilegir en bandarískir hermenn myrtu 24, þar á meðal konur og börn.
Myndin er leikin en samt sett í heimildarmyndarstíl. Leikstjórinn, Nick Broomfield, hefur sérhæft sig í svona myndum. Þessi stíll gefur myndinni aukna dýpt og það er eins og áhorfandinn sé á staðnum. Í myndinni eru þrjár sögur: Saga þeirra sem komu sprengjunni fyrir, saga þeirra landgönguliða sem skutu á saklaust fólk í kjölfar sprengingarinnar og saga þeirra sem lentu í skothríðinni og þessu fjöldamorði.
Myndin flæðir vel, er spennandi, vel leikin og áhugaverð.
Virkilega góð mynd sem ég mæli eindregið með.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
My Sister's Keeper
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
10 vasaklúta mynd
Árið 2006 kom út í íslenskri þýðingu bókin Á ég að gæta systur minnar? eftir Jodi Picoult. Nú hefur þessi bók verið kvikmynduð og hefur það tekist afar vel. Nick Cassavetes (Note Book, John Q) leikstýrir myndinni af festu.
Myndin fjallar um systurnar Önnu (Abigail Breslin) og Kate (Sofia Vassilieva). Kate er með hvítblæði og hefur Anna séð henni fyrir beinmerg síðan hún var smábarn. Einn daginn fær hún nóg af því og fer í mál við foreldra sína, vill fá að ráða yfir sínum líkama. Skiljanlega bregðast foreldrarnir illa við, sérstaklega móðirin. Við fylgjumst svo með baráttu Kate og fjölskyldunnar við krabbameinið og einnig baráttu Önnu fyrir sjálfstæði.
Leikarnir standa sig frábærlega. Cameron Diaz er góð sem móðirin, Jason Patric er flottur sem heimilisfaðirinn og Alec Baldwin fer vel með hlutverk lögmannsins. En það eru Abigail og Sofia sem halda myndinni uppi með frábærum leik.
Helsti galli myndarinnar er kannski sá að það er of mikið um endurtekningar og einfaldar útskýringar.
Í heild er þetta góð og hjartnæm fjölskyldusaga, meira að segja hörðustu sjóarar fella tár.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Brüno
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Langt yfir strikið
Árið 2006 brá Sacha Baron Cohen sér í gervi Borats og sló eftirminnilega í gegn. Enda var sú mynd afar vel heppnuð, fór stundum yfir strikið en var mjög fyndinn. Í þessari mynd fer hann í hlutverk Bruno, samkynhneigðar, austurískrar tískulöggu sem ferðast frá Evrópu til Bandaríkjanna til að reyna skapa sér nafn. Áhorfendur fylgast með Bruno lenda í ýmsum uppákomum, bæði æfðum sem og óæfðum en þar talar hann við venjulegt fólk um kynhneigð, tísku, fordóma, barneignir, samkynhneigð og fleira. Önnur atriði eru æfð og tilbúin. Styrkur myndarinnar felst fyrst og fremst í atrðinum þar sem hann talar við venjulegt fólk. Þar er hann að sýna fram á hvað fólk er oft á tíðum einfalt og á stundum brenglað í hugsun. Í öðrum atriðum fer hann langt, langt, langt yfir strikið og ég tók reglulega fyrir andlitið og spurði sjálfan mig að því hvað væri eiginlega í gangi. Hvert markmiðið væri og þess háttar.
Í heild er þetta agætis afþreying sem er alls ekki fyrir alla. Borat var samt mun betri.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Harry Potter and the Half-Blood Prince
0 af 0 fannst gagnrýnin hjálpleg
Eingöngu fyrir Potter aðdáendur,
Harry Potter er fyrir löngu komin á háan stall bókmenntasögunnar. Það verður vitnað í bækurnar og þær bornar saman við aðrar bækur næstu áratugina. Það sama verður samt ekki sagt um myndirnar sem eru ekki ýkja merkilegar og auðgleymdar, nema fyrir Potter aðdáendur enda hefur tekist ágætlega, í flestum tilfellum, að yfirfara söguþráð bókanna í kvikmyndaform. Nýja myndin, Harry Potter and the Half-Blood Prince fellur í sama flokk og fyrri myndirnar, auðgleymd og langdregin, nema fyrir aðdáendur Pottersins eins og ég kom að hér að framan.
Það er óþarfi að rekja söguþráðinn í löngu máli en stutt útgáfa er á þessa leið: Harry og félagar eru að reyna að koma í veg fyrir að Voldemort og hans hyski nái fótfestu í Hogwarts galdraskólanum. Áhorfendur fá að kynnast persónu Voldemorts og það er kafað aðeins ofan í það hvers vegna hann er eins illur og hann er.
Leikararnir standa sig ágætlega og Daniel Radcliffe (Harry Potter), Emma Watson (Hermonie) og Rupert Grint (Ron Weasley) hafa öll vaxið í hlutverkum sínum. Hinsvegar eru það gömlu kempurnar Alan Rickman, Michael Gambon og Jim Broadbent sem stela senunni.
David Yates heldur vel utan um verkefnið, tæknibrellur eru mjög góðar og hljóð er framúrskarandi.
Hinsvegar er myndin bara alltof langdregin, óspennandi og á köflum leiðinleg fyrir hinn almenna áhorfanda. Er samt viss um að Potter aðdáendur eru að ,,fíla" þessa mynd.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei